Bæjarráð

3169. fundur 05. febrúar 2009
Bæjarráð - Fundargerð
3169. fundur
5. febrúar 2009   kl. 09:00 - 11:20
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Inga Þöll Þórgnýsdóttir
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Yfirvinna starfsmanna Akureyrarbæjar
2009010234
2. liður í fundargerð kjarasamninganefndar dags. 26. janúar 2009:
Umfjöllun um yfirvinnu starfsmanna Akureyrarbæjar árið 2008.
Verulegur misbrestur er á að reglum bæjarráðs um magn yfirvinnu sé fylgt hjá ákveðnum deildum.  Kjarasamninganefnd felur starfsmannastjóra að boða deildarstjóra umræddra deilda ásamt forstöðumönnum stofnana sem um ræðir á fund kjarasamninganefndar til að fjalla um framkvæmd samþykkta Akureyrarbæjar um hámark yfirvinnu.  Kjarasamninganefnd beinir því til bæjarráðs að skoða sérstaklega yfirvinnu hjá Hafnasamlagi Norðurlands.  Í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði er ástæða til að taka magn yfirvinnu og vinnufyrirkomulag á stofnunum til sérstakrar skoðunar.  Kjarasamninganefnd hvetur til aukins aðhalds og eftirlits stjórnenda til að tryggja að stofnanir þeirra haldi sig innan setts ramma um hámark yfirvinnu, þetta er sérstaklega brýnt við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu.
Halla Margrét Tryggvadóttir starfsmannastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð leggur áherslu á að stofnanir bæjarins virði þær reglur sem settar hafa verið um hámark yfirvinnu hjá bænum.
Bæjarráð óskar jafnframt eftir því við stjórnir B-hluta stofnana og stofnana í sameininlegum rekstri sveitarfélaga að þær taki vinnufyrirkomulag og yfirvinnu til skoðunar á grundvelli reglna bæjarráðs um þetta efni.


2.          Skilgreining á yfirvinnu vegna yfirvinnuþaks
2008110077
3. liður í fundargerð kjarasamninganefndar dags. 26. janúar 2009:
Framhaldið umræðu frá 1. fundi 2009 um skilgreiningu á yfirvinnu vegna yfirvinnuþaks hjá Akureyrarbæ.
Allir greiddir yfirvinnutímar reiknast þegar samtals yfirvinna er reiknuð fyrir hámark yfirvinnu vegna ákvörðunar bæjarráðs um yfirvinnuþak. Kjarasamninganefnd leggur til að hámark yfirvinnu verði óbreytt þannig að almennt hámark verði áfram 500 tímar á ári.
Halla Margrét Tryggvadóttir starfsmannastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu kjarasamninganefndar um að almennt hámark yfirvinnu hjá Akureyrarbæ verði áfram 500 tímar á ári.


3.          Leiguíbúðir Akureyrarbæjar 2008
2008110024
4. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 12. janúar 2009:
Lagt fram minnisblað dags. 31. desember 2008 frá húsnæðisfulltrúa um stöðu biðlista eftir leiguíbúðum hjá Akureyrarbæ um áramót.
Jón Heiðar Daðason húsnæðisfulltrúi gerði grein fyrir stöðu mála.  Á biðlista eftir leiguíbúð um áramót voru 99 umsækjendur, þar af voru 11 að sækja um flutning í hentugra húsnæði.
Lagt fram til kynningar.


4.          Viðtalstímar bæjarfulltrúa - fundargerðir 2009
2009010195
Lögð fram fundargerð 2. fundar viðtalstíma bæjarfulltrúa dags. 29. janúar 2009. Fundargerðin er í 9 liðum.
Bæjarráð vísar 2. lið til skipulagsdeildar, 4. lið a) og 6. lið a) til skóladeildar og 5. lið sem ábendingu til framkvæmdadeildar. Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.


5.          Alþingiskosningar 2009
2009020006
Rætt um kjörstað og fleira varðandi alþingiskosningarnar 25. apríl nk.
Dagný M. Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss mætti á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita eftir samningum við Verkmenntaskólann á Akureyri um að í skólanum verði kjörstaður í komandi alþingiskosningum.


Þegar hér var komið vék Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður af fundi kl. 10.10.


6.          Samráðshópur - ósk um þátttöku í samráðsferli
2009010248
Erindi dags. 23. janúar 2009 frá Tómasi Má Sigurðssyni forstjóra Alcoa Fjarðaráls sf., Þórði Guðmundssyni forstjóra Landsnets hf. og Friðriki Sophussyni forstjóra Landsvirkjunar þar sem þess er farið á leit við Akureyrarkaupstað að sameiginlegur fulltrúi frá Akureyrarkaupstað og Eyþingi taki þátt í samráðsferli um þróun sjálfbærnivísa vegna uppbyggingar og starfsemi fyrirhugaðs álvers á Bakka, virkjana og flutningslína. Óskað er eftir því að Akureyrarkaupstaður og Eyþing skipi sameiginlega einn fulltrúa sem fylgi sjálfbærniverkefninu í gegnum allt ferlið.
Bæjarráð leggur til að Sigrún Björk Jakobsdóttir verði fulltrúi Akureyrarkaupstaðar og Eyþings í samráðsferlinu.


7.          Strandgata 11 - dagsektir
2009010249
5. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 28. janúar 2009:
Á fundi skipulagsnefndar 26. nóvember 2008 var Guðvarði Gíslasyni, eiganda 1. hæðar Strandgötu 11, tilkynnt um að hann mætti búast við því að lagðar yrðu á hann dagsektir að upphæð kr. 5.000 á dag innan tveggja vikna frá dagsetningu tilkynningar að telja, ef umbeðnum gögnum væri ekki skilað til embættisins, vegna byggingarleyfisumsóknar breytinga á Strandgötu 11.  Eiganda var veittur andmælaréttur með sama eindaga óskaði hann að tjá sig um þessa ákvörðun.
Þar sem tilmælum skipulagsnefndar, sbr. bréf dags. 27. nóvember 2008 um skil á fullnægjandi gögnum hefur ekki verið sinnt og ekki hefur verið hreyft andmælum af hálfu eiganda leggur skipulagsnefnd til við bæjarráð að lagðar verði dagsektir á eiganda að upphæð kr. 5.000 á dag frá 27. febrúar nk. að telja, ef hann hefur ekki skilað inn umbeðnum gögnum fyrir þann dag.
Bæjarráð samþykkir að lagðar verði dagsektir á eiganda 1. hæðar Strandgötu 11, að upphæð kr. 5.000 á dag frá 27. febrúar nk. að telja, ef hann hefur ekki skilað inn umbeðnum gögnum vegna byggingarleyfisumsóknar fyrir þann dag.


8.          Slökkvilið Akureyrar - gjaldskrá
2009010158
2. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 16. janúar 2009:
Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri gerði grein fyrir nýrri gjaldskrá Slökkviliðs Akureyrar.
Framkvæmdaráð samþykkir gjaldskrána fyrir sitt leyti og vísar henni til bæjarráðs.
Bæjarráð samþykkir gjaldskrá Slökkviliðs Akureyrar.


9.          Héraðsnefnd Eyjafjarðar - framhaldsskólar í Eyjafirði
2007100109
Tölvupóstur dags. 28. janúar 2009 frá Valtý Sigurbjarnarsyni framkvæmdastjóra Héraðsnefndar Eyjafjarðar þar sem óskað er eftir að sveitarstjórnir taki afstöðu til þess hvort þær muni hækka framlag sitt til byggingarframkvæmda við framhaldsskóla í Eyjafirði.
Í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar er ekki gert ráð fyrir framlagi  til byggingar framhaldsskóla á árinu 2009, en gert verður ráð fyrir því við gerð þriggja ára áætlunar 2010-2012.
Hjalti Jón Sveinsson tók ekki þátt í afgreiðslunni.


10.          Byggðaráðstefna 2009
2009020032
Lagður fram tölvupóstur dags. 4. febrúar 2009 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt er um ráðstefnuna  " Íslensk byggðamál á krossgötum" sem haldin verður í Borgarnesi 20. febrúar nk.
Lagt fram til kynningar.Fundi slitið.