Bæjarráð

3149. fundur 28. ágúst 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3149. fundur
28. ágúst 2008   kl. 09:00 - 10:45
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Víðir Benediktsson áheyrnarfulltrúi
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Norðurorka hf. - skammtímalán
2008080070
Erindi dags. 21. ágúst 2008  frá Norðurorku hf. varðandi skammtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að mæta nýjum fjárfestingarverkefnum. Skilyrði fyrir láninu er ábyrgð Akureyrarbæjar eða að Akureyrarbær taki lánið og endurláni Norðurorku.
Bæjarráð samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 1.000.000 EUR til 2ja ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að mæta fjárfestingarverkefnum hjá Norðurorku, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er fjármálastjóra, Dan Jens Brynjarssyni, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Akureyrarbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.


2.          Strætó bs. - fyrirspurn um niðurgreiðslu fyrir akureyrska nemendur í háskólum í Reykjavík
2008080064
Erindi dags. 20. ágúst 2008 frá Þórunni Ingólfsdóttur þar sem óskað er eftir því að bæjarstjórnin gefi akureyrskum háskólanemum í Reykjavík kost á að fá fríkort í strætisvagnana þar.
Kostnaður við almenningssamgöngur á Akureyri er að fullu greiddur úr bæjarsjóði. Allir þeir sem þess óska geta ferðast með strætisvögnum Akureyrar án endurgjalds, þar á meðal nemendur í skólum Akureyrar sem búsettir eru í öðrum sveitarfélögum. Bæjarráð telur það ekki koma til greina að greiða einnig niður almenningssamgöngur í öðrum sveitarfélögum að óbreyttu.


3.          Undirhlíð - Miðholt - deiliskipulag
2007090026
5. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 13. ágúst 2008:
Innkomið bréf frá Skipulagsstofnun vegna yfirferðar deiliskipulags við Undirhlíð - Miðholt dags. 22. júlí 2008.
Skipulagsstofnun getur ekki tekið afstöðu til efnis eða forms deiliskipulagsins fyrr en skýringar/lagfæringar hafa borist á eftirfarandi atriðum:
1.  Óskað er eftir afriti af athugasemd nr. 6, dags. 1. maí 2008 og svör Akureyrarbæjar við henni.
2.  Skýra þarf nánar í greinargerð deiliskipulagstillögu hvaða ábyrgð lóðarhafi beri í framtíðinni á hugsanlegum breytingum á vatnsborði vegna grundunar viðkomandi húss.
3.  Óskað er eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir sem fylgja deiliskipulagstillögu og hvort ekki þurfi að móta byggingarreitinn m.t.t. þeirrar tillögu í skipulagsskilmálum.
4.  Útskýra þarf nánar bílakjallara sem að hluta til eru ofanjarðar og falla því ekki undir skilgreiningu um kjallara skv. byggingarreglugerð.
5.  Óskað er eftir útskýringum hvort göngustígur innan lóðar sé fyrir almenna umferð.  Ef svo er felur það í sér kvöð innan lóðar.
Nánari skýringar í meðfylgjandi bréfi.
Skýringar og lagfæringar sem óskað var eftir:
1. Sjá svar við liðnum í fylgiskjali "Undirhlíð - Ath. og svör 13.8. 2008-viðbætur" liður nr. 6.
2. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að við jarðvegsskipti á lóðum skuli leita allra leiða til að koma í veg fyrir lækkun vatnsborðs í jarðvegi og að lóðarhafi sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni og skemmdum á yfirborði gatna og nærliggjandi mannvirkjum sem rekja megi til breytinga á vatnsborði. Nú þegar eru í gangi rannsóknir og eftirlit með stöðu vatnsborðs í nágrenni lóðar. Lóðarhafi er ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja má til breytinga á vatnsborði á meðan á framkvæmdum stendur og lokaúttekt hefur farið fram. Þetta mun verða áréttað í greinargerð.
3. Í öllum gögnum er málið varðar er gengið út frá krosslaga byggingu sem aldrei getur nýtt  kassalagaðan byggingarreitinn eins og hann er sýndur á uppdrætti.
Því er lagt til að byggingarreitum verði breytt á uppdrætti og þeir mótaðir og aðlagaðir að fyrirhugaðri byggingu.
4. Lagt er til að texta í kafla 5.4 um bílakjallara verði breytt á eftirfarandi hátt: B1  Niðurgrafin bílgeymsla: Byggingarreitur er 2850 m². Reiturinn liggur á milli byggingarreita fjölbýlishúsa. Hámarksbyggingarmagn er 2500 m². Byggingin er niðurgrafin að öllu leyti, ef frá er skilinn innkeyrslurampur bifreiða og minniháttar gluggar á norðurhlið. Norðurhlið er að mestu hulin jarðvegi sem hallar til norðurs (sjá skurðarmyndir á uppdrætti).
5. Gert er ráð fyrir almennri göngutengingu á milli Undirhlíðar og grenndar- og hverfisvallar í norðri. Um kvöð er að ræða og mun sú kvöð verða innfærð á uppdrátt.

Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Skipulagsstofnun hefur óskað eftir staðfestingu bæjarstjórnar á framangreindum breytingum.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Fram kom tillaga um að breyta næstsíðustu setningu í 2. lið í skýringum og lagfæringum og verði hún svohljóðandi: Lóðarhafi er ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja má til breytinga á vatnsborði á meðan á framkvæmdum stendur og þangað til lokaúttekt hefur farið fram.
Bæjarráð samþykkir breytinguna.
Bæjarráð samþykkir deiliskipulagstillöguna svo breytta og felur skipulagsstjóra að annast gildistöku hennar.
Baldvin H. Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu.


4.          Tónræktin - umsókn um styrk til greiðslu fasteignagjalda 2008
2008080077
Erindi dags. 10. ágúst  2008 frá Tónræktinni ehf. þar sem sótt er um styrk til greiðslu fasteignagjalda 2008.
Bæjarráð samþykkir að veita skólanum styrk að upphæð kr. 500.000. Styrkurinn er hugsaður sem stofnstyrkur vegna húsnæðiskaupa skólans og sem viðurkenning á mikilvægi skólastarfsins.
Styrkurinn greiðist af styrkveitingum bæjarráðs.


5.          Verslunarmannahelgin - Ein með öllu 2008
2008030116
Lögð fram gögn frá ýmsum aðilum vegna verslunarmannahelgarinnar 2008.
Bæjarráð lýsir ánægju sinni með vel heppnuð hátíðarhöld um verslunarmannahelgina. Ráðið þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarhaldanna.


6.          Bæjarstjórn Akureyrar - breytingar í nefndum
2006090088
Lögð fram tillaga um breytingu á skipan fulltrúa S-lista Samfylkingar í samfélags- og mannréttindaráði:
Þorlákur Axel Jónsson, kt. 220863-2129, tekur sæti aðalmanns  og formanns í stað Margrétar Kristínar Helgadóttur, kt. 270982-5659. Valdís Anna Jónsdóttir, kt. 170186-3039, tekur sæti varamanns í stað Þorláks Axels Jónssonar.
Einnig lögð fram tillaga um breytingu á skipan fulltrúa S-lista Samfylkingar í skólanefnd:
Lára Stefánsdóttir, kt. 090357-5579, tekur sæti aðalmanns í stað Þorláks Axels Jónssonar.
Þorlákur Axel Jónsson, kt. 220863-2129, tekur sæti varamanns í stað Hermanns Óskarssonar, kt. 070251-3969.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Bæjarráð samþykkir tillöguna.Fundi slitið.