Bæjarráð

3146. fundur 31. júlí 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3146. fundur
31. júlí 2008   kl. 09:00 - 09:55
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Elín Margrét Hallgrímsdóttir varaformaður
Hjalti Jón Sveinsson
Sigrún Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Lög um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði - nr. 58/2008
2008070059
Erindi dags. 17. júlí 2008 frá Iðnaðarráðuneytinu varðandi breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði nr. 58/2008 þar sem ráðuneytið óskar eftir því að taka upp viðræður um breytingar á nokkrum sérlögum með vísan til bráðabirgðaákvæðis laga nr. 58/2008.
Bæjarráð felur bæjarlögmanni að taka þátt í viðræðunum fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Þegar hér var komið mætti Oddur Helgi Halldórsson á fundinn kl. 09.05.


2.          Vegagerðin - þjóðvegir í þéttbýli - forgangsröðun
2008070051
4. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 18. júlí 2008:
Vegna vinnu við framtíðarskipulag Akureyrarvallar telur framkvæmdaráð rétt að frestað verði framkvæmdum við gatnamót Grænugötu þar sem þau tengjast framtíðarskipulagi vallarins. Að mati framkvæmdaráðs eru undirgöng undir Hörgárbraut / þjóðveg 1 forgangsverkefni sem beri að fara í hið fyrsta. Ráðið leggur því áherslu á að það fjármagn sem Vegagerðin áætlar í vegaáætlun 2008 fari í gerð undirganganna að viðbættu því fjármagni sem nauðsynlegt er til að ljúka gerð undirganganna á árinu 2009.  Ráðið felur deildarstjóra framkvæmdadeildar að senda erindi þess efnis til Vegagerðarinnar.
Framkvæmdaráð beinir því til bæjarráðs að þrýsta á um að fjármagn fáist frá Vegagerðinni til verksins.
Bæjarráð tekur undir bókun framkvæmdaráðs og felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.


3.          Flokkun ehf. - meðhöndlun óendurvinnanlegs úrgangs
2008070074
Erindi dags. 24. júlí 2008 frá Flokkun ehf. þar sem óskað er eftir fundi með Akureyrarbæ til að ræða framtíðarlausnir varðandi meðhöndlun óendurvinnanlegs úrgangs og hugmyndir um staðsetningu urðunarstaðar.
Stefnt er að fundi  Akureyrarbæjar og Flokkunar ehf. um mánaðamótin ágúst/september nk.  Fulltrúar bæjarins verða formaður bæjarráðs, formaður umhverfisnefndar, deildarstjóri framkvæmdadeildar og bæjarstjóri.


4.          Eyjafjarðarbraut, flugvallarsvæði - breyting á deiliskipulagi
2008050120
1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 23. júlí 2008:
Erindi dags. 21. maí 2008 þar sem Gísli Kristinsson f.h. Flugstoða ohf., kt. 670706-0950, óskar eftir að samþykkt verði lítils háttar breyting á núgildandi deiliskipulagi  Akureyrarflugvallar. Um er að ræða stækkun á lóðum og byggingarreitum. Fyrir Eyjafjarðarbraut landnr. 214924 er sótt um breikkun 2,2 m til suðurs og stækkar byggingarreitur sem því nemur. Fyrir Eyjafjarðarbraut landnr. 147553 er sótt um breikkun til vesturs úr 19,7 m í 20 m. Meðfylgjandi er deiliskipulagsuppdráttur eftir Gísla Kristinsson. Erindið var grenndarkynnt frá 28. maí til 25. júní 2008. Engar athugasemdir bárust.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu skipulagsnefndar.


5.          Naustahverfi - 2. áfangi - deiliskipulagsbreyting - Brekatún 2
2008050065
2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 23. júlí 2008.
Skipulagstillagan var auglýst frá 28. maí til 9. júlí 2008. Ein athugasemd barst 7. júlí 2008 frá Trétaki ehf.
Athugasemd er gerð við byggingarreit bílgeymslu. Raskað svæði vegna framkvæmdarinnar mundi ná lengra inn á Tjarnarhólinn og verða nær Brekatúni 4-14 en ella. Meiri áhrif yrðu á grunnvatnsstöðu svæðisins. Upplýsingar um byggingarmagn og íbúðafjölda er misvísandi. Byggingarmagn á reitnum eykst en var ærið fyrir. Hætt er við að húsið virki þrúgandi á umhverfi sitt. Engar upplýsingar um þörf fyrir breytingar fylgja tillöguninni.
Svar við athugasemd:
Í fyrri deiliskipulagstillögu var gert ráð fyrir mun stærri byggingarreit undir bílgeymslu sem afmarkaðist af lóðarmörkum. Samkvæmt því hefði bílgeymsla getað verið staðsett mun nær Brekatúni 4-14 en gert er ráð fyrir í nýrri breytingartillögu. Á skýringaruppdrætti eru sýndar tillögur að staðsetningu bílgeymslunnar sem hefðu haft þau áhrif að Tjarnarhóllinn hefði að mestu þurft að víkja. Svo er ekki í breytingartillögu þar sem gert er ráð fyrir að bílgeymslan verði sunnanvert í hólnum og honum því hlíft eins og kostur er. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á grunnvatnsstöðu svæðisins þó svo að gert sé ráð fyrir bílgeymslu á umræddum stað.
Um réttmæta athugasemd er að ræða varðandi byggingarmagnið en þar á að standa 3105-4727 m² í stað 2970-4590 m². Þetta mun verða leiðrétt í greinargerð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar mun þó lækka lítillega við þessa deiliskipulagsbreytingu þar sem lóðin stækkar úr 4078,6 m² í 4263,6 m² eða um 185 m².
Tekið skal fram að samkvæmt innsendum aðaluppdráttum af byggingunni er ekki gert ráð fyrir að byggt verði hærra en 8 hæðir auk bílgeymslu á reitnum þó svo að heimilt sé að byggja allt að 12 hæðir auk bílgeymslu og raunverulegt byggingarmagn verður því töluvert undir hámarksbyggingarmagni sem er 4727 m².
Í fyrri tillögu var byggingarreitur bílgeymslu skilgreindur afar frjálslega og í raun hægt að staðsetja bílgeymsluna hvar sem var á reitnum. Í tillögunni er verið að fastleggja reit fyrir bílgeymsluna út frá núverandi aðstæðum svo að sem minnst rask verði á umhverfi m.a. Tjarnarhóls.
Í ljósi þess að einungis verði nýtt heimild til að byggja 8 hæða hús auk bílgeymslu á reitnum í stað 12 hæða auk bílgeymslu telur skipulagsnefnd nægilegt að efsta hæðin verði inndregin í stað tveggja.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan svo breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu skipulagsnefndar.


6.          Rangárvellir - iðnaðarsvæði - deiliskipulagsbreyting
2008050047
3. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 23. júlí 2008:
Tillagan var auglýst frá 28. maí til 9. júlí 2008. Ein athugasemd barst frá Gísla Braga Hjartarsyni dags. 5. júní 2008. Gerir athugasemd f.h. eigenda Liljulundar sem sagður er einstakur á landsvísu. Þau telja fyrirhugaða starfsemi rýra sína eign. Mest óttast þau mengun sem berst á þeirra land með vindi og með Rangánni. Telja staðsetninguna óheppilega og óska eftir endurskoðun á málinu til að þeirra eign skaðist ekki.
Umsögn barst frá Vegagerðinni í tölvupósti dags. 13. maí 2008 en þar gerir Vegagerðin ekki athugasemdir við  tengingu svæðisins við Hlíðarfjallsveg. Óskað er eftir að tengingin sé gerð samkvæmt stöðlum Vegagerðarinnar.
Svar við athugasemd:
Eins og fram kemur í greinargerð með deiliskipulaginu er lögð áhersla á að starfsemin falli sem best að umhverfinu. Þá verður lögð áhersla á vandaðan lóðarfrágang. Ákveðin hætta er á sjónmengun sem verði mætt með því að gróðursetja trjáplöntur á lóðarmörkum til þess að draga úr innsýn inn á lóðina og veita skjól sem dregur m.a. úr fokhættu. Gert er ráð fyrir 2ja metra hárri girðingu á lóðarmörkum Liljulundar og gámasvæðis sem hindra á hugsanlegt fok. Sérstök krafa verður gerð við meðhöndlun stærri farma sem bíða meðferðar á lagersvæði m.t.t. eld- og fokhættu.
Líkur á hávaðamengun eru hverfandi í samanburði við það sem vænta má frá iðnaðarsvæðum. Helst má þó búast við einhverjum hávaða vegna færslu á gámum á endurvinnslustöð og frá vinnuvéla- og bílaumferð.
Helsta mengunarhættan er talin stafa af meðferð á spilliefnum og hugsanlega einhver frá úrgangsefnum sem slæðast með óflokkuðum úrgangi. Hættan felst aðallega í því að spilliefni berist út í jarðveg eða frárennsliskerfi. Þeirri mengunarhættu verður mætt með tilheyrandi varnarbúnaði t.d. í frárennsliskerfinu til að mæta óvæntum óhöppum auk þess sem framkvæmdum verður hagað í samræmi við lög og reglugerðir.
Starfsemin er háð ströngum skilyrðum um starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd. Starfsemin heyrir einnig undir "Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998" og "Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnustarfsemi, sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999".
Í núgildandi deiliskipulagi af Rangárvöllum frá mars 2006 er Liljulundur afmarkaður og skilgreindur sem skógræktarreitur í einkaeign og því inni í skipulagi sem slíkur.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu skipulagsnefndar.


7.          Afgreiðslur skipulagsstjóra 2008
2008010178
13. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 23. júlí 2008:
Skipulagsstjóri lagði fram til samþykktar fundargerð 211. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 22 liðum og dags. 25. júní 2008.
Skipulagsnefnd samþykkir fundargerð skipulagsstjóra og leggur til við bæjarstjórn að fundargerðin verði staðfest.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 24. júní 2008.
Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð staðfestir fundargerð skipulagsstjóra dags. 25. júní 2008.Fundi slitið.