Bæjarráð

3140. fundur 05. júní 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3140. fundur
5. júní 2008   kl. 09:00 - 11:02
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Menningarhúsið Hof - undirbúningur rekstrar
2008020172
1. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 29. maí 2008:
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, ráðgjafi frá Iðu, kom á fundinn og gerði grein fyrir tillögum um næstu skref í undirbúningnum, þar sem m.a. er tekið á spurningunni um rekstrarform. Áætlað er að stýrihópur leggi fram tillögur í bæjarráði 5. júní nk.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að áfram verði unnið á þeim forsendum sem kynntar voru á fundinum.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir frá ráðgjafafyrirtækinu Iðu og Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu mættu á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögur stýrihóps um rekstrarform menningarhússins Hofs. Tillagan gerir ráð fyrir því að sjálfseignarstofnun sé það rekstrarform sem best sé til þess fallið að halda utan um og þróa starfsemi hússins á næstu árum.
       
Oddur Helgi Halldórsson óskar bókað:
"Ég er ósammála þessu rekstrarformi og tel að Akureyrarbær eigi að reka húsið.  Ég er því ósammála bókun bæjarráðs."


2.          Samþykkt LN vegna sjúkraliða
2007120068
1. liður í fundargerð kjarasamninganefndar dags. 2. júní 2008:
Umfjöllun um samþykkt Launanefndar sveitarfélaga (LN) frá 13. nóvember 2007 um heimild frá 1. janúar 2008 til sveitarfélaga til eins launaflokks hækkunar launaröðunar Sjúkraliða 1 og Sjúkraliða 2 skv. kjarasamningi LN og Sjúkraliðafélags Íslands. Áður á dagskrá kjarasamninganefndar 8. janúar 2008.        
Kjarasamninganefnd Akureyrarbæjar samþykkir að leggja til við bæjarráð að nýtt verði heimild Launanefndar sveitarfélaga frá 13. nóvember 2007 til eins launaflokks hækkunar frá 1. janúar 2008 til handa sjúkraliðum í Sjúkraliðafélagi Íslands með launaröðun sem Sjúkraliði 1 og Sjúkraliði 2.
Starfsmannastjóri Halla Margrét Tryggvadóttir mætti á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu kjarasamninganefndar og vísar kostnaði vegna hennar, 4,5 milljónum króna, til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.3.          Viðtalstímar bæjarfulltrúa - fundargerðir 2008
2008010045
Lögð fram fundargerð  viðtalstíma bæjarfulltrúa dags. 29. maí 2008. Fundargerðin er í 2 liðum.
Bæjarráð vísar báðum liðum fundargerðarinnar til framkvæmdadeildar til afgreiðslu.


4.          Akureyrarvöllur - undirbúningur fyrir deiliskipulagsgerð
2007010204
F.h. stýrihóps v. framtíðarskipulags Akureyrarvallar sækir Pétur Bolli Jóhannessson skipulagsstjóri um heimild bæjarráðs til að skoða stærra svæði í tengslum við vinnslu breyttrar landnotkunar vallarins. Fyrri afmörkun náði að Smáragötu í suðri, en óskað er eftir að svokallaður Laxagötureitur að Oddeyrargötu verði innan þeirrar afmörkunar. Ástæður þessa eru nýjar forsendur m.a. vegna breytts eignarhalds á svæðinu og sú staðreynd að nauðsynlegt er að skoða framtíðarlausnir er varða tengingar frá svæðinu að Ráðhústorgi.
Bæjarráð samþykkir að heimila vinnuhópnum að leggja fram tillögur um stærra svæði en skipunarbréf gerði ráð fyrir og að Laxagötureitur að Oddeyrargötu verði hluti af umfjöllunarefni hópsins.
       
Jóhannes Gunnar Bjarnason sat hjá við afgreiðslu.

5.          Hamrar - framkvæmdir vegna landsmóts skáta
2008040081
2. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 16. maí 2008:
Tekið fyrir erindi frá bæjarráði dags. 17. apríl sl. þar sem óskað er eftir áliti framkvæmdaráðs á erindi Tryggva Marinóssonar f.h. Hamra útilífs- og umhverfismiðstöðvar um að fé verði veitt í gerð nýrrar tjaldflatar. Rökstuðningur fyrir þörf aukins fjármagns vegna þessarar framkvæmdar liggur nú fyrir frá Tryggva Marinóssyni.
Framkvæmdaráð telur að þörf sé á að taka í notkun nýja tjaldflöt á tjaldsvæðinu miðað við þá aukningu sem orðið hefur á fjölda gesta og breytingu á útbúnaði þeirra.
Bæjarráð samþykkir viðbótarfjárveitingu að upphæð kr. 2,5 milljónir með því skilyrði að hægt verði að hagræða í framkvæmdaáætlun svæðisins og ráðast í gerð tjaldflatarinnar með þessari fjárveitingu. Kostnaði er vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.


6.          Mótorhjólasafn Íslands - gatnagerðargjöld
2008050087
Erindi dags. 15. maí 2008 frá stjórnarformanni Mótorhjólasafns Íslands þar sem óskað er eftir því að Akureyrarbær veiti safninu styrk að fjárhæð 4,5 milljónir króna sem renni til greiðslu á hluta gatnagerðargjalda lóðar safnsins að Krókeyri á Akureyri.
Bæjarráð samþykkir að styrkja Mótorhjólasafnið um 3 milljónir króna sem renni til greiðslu á hluta gatnagerðargjalda. Fjárveitingu vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.


7.          Önnur mál
2008010014
Jóhannes Gunnar Bjarnason óskaði bókað að umræður fóru fram um umferðaröryggismál og fáar umsóknir um skólastjórastöður á Akureyri.


Fundi slitið.