Bæjarráð

3139. fundur 29. maí 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3139. fundur
29. maí 2008   kl. 09:00 - 11:15
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Oddur Helgi Halldórsson
Gerður Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Frumvarp til laga um endurskoðun á undanþágum á EES-samningi
2008040077

9. liður í fundargerð bæjarstjórnar dags. 20. maí 2008:
Lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúunum Kristínu Sigfúsdóttur og Baldvini H. Sigurðssyni:
  "Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar skorar á ríkisstjórn Íslands að fresta afgreiðslu frumvarps laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins. Á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu er eitt öflugusta landbúnaðar- og matvælasvæði landsins. Frumvarp ríkisstjórnarinnar felur í sér róttækar breytingar á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu en með því er opnað fyrir óheftan innflutning á hráu kjöti og ýmsu hrámeti til landsins. Það er því algjört lágmark að fresta málinu um sinn til að gefa hagsmunaaðilum í greininni og ríkisstjórninni meiri tíma til að gera ráðstafanir svo að hægt sé að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu og landbúnað."  
Bæjarstjórn samþykkir með 7 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til bæjarráðs til frekari umfjöllunar.
Kristín Sigfúsdóttir og Baldvin H. Sigurðsson greiddu atkvæði á móti afgreiðslu.
Jóhannes Gunnar Bjarnason og Víðir Benediktsson sátu hjá við afgreiðslu.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002.
Bæjarráð Akureyrar leggur ríka áherslu á að eftirfarandi atriði verði höfð í huga við endanlegan frágang frumvarpsins:
 
I. Að eftirlit með innflutningi á hráu  kjötmeti verði í samræmi við það eftirlit og verklag sem viðgengist hefur hérlendis með innlendri framleiðslu. Hér er um  mikið hagsmunamál að ræða fyrir íslenska bændur, kjötvinnslur og ekki síst íslenska neytendur.

II. Taka þarf tillit til hagsmuna þeirra atvinnugreina sem mest óvissa mun skapast um með þessari lagasetningu. Tryggja verður að áfram verði forsendur til framleiðslu og vinnslu á íslensku kjöti þrátt fyrir aukið frelsi í innflutningi. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga við endanlegan frágang laganna og/eða ráðstafana vegna gildistöku þeirra.

III. Í frumvarpinu er allvíða komið inn á verkefni heilbrigðisnefnda. Mikilvægt er að reglur um leiðbeiningar og viðmið verði unnar í samráði Matvælastofnunar og heilbrigiðisnefnda sveitarfélaganna.

Innleiðing matvælareglugerðar ESB þarf að vinnast í sem mestri sátt við samfélagið og þær ógnanir  og tækifæri sem felast í reglugerðinni fyrir íslenska matvælaframleiðslu þurfa að vera lýðum ljósar. Það er brýnt að vandað sé til þess undirbúnings og því fagnar bæjarráð Akureyrar því að afgreiðslu frumvarpsins hefur verið  frestað til hausts. Þar með gefst betri tími til að fara yfir og taka tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið um annmarka þessarar lagasetningar.


2.          Frumvarp til laga um endurskoðun á undanþágum á  EES-samningi
2008040077
Lögð fram fyrirspurn frá Baldvini H. Sigurðssyni:
"Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sendi beiðni þann 14. apríl sl. á bæjarskrifstofur Akureyrar þess efnis að umsögn kæmi frá bænum um svokallað matvælafrumvarp.

1.  Er það rétt að bærinn hafi verið beðinn um að vera umsagnaraðili?
2.  Sendi bærinn ekki inn umsögn?
3.  Var bæjarráði eða bæjarstjórn, eða einhverri annarri nefnd á vegum bæjarins, kynnt að bærinn ætti að veita nefndinni umsögn um málið?
4.  Ef svarið er nei, af hverju var það ekki gert?"
Lagt fram eftirfarandi svar bæjarstjóra:
Öll lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eru send til umsagnar sveitarfélaga, landshlutasamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að öllu jöfnu fá þau frumvörp sem áhrif geta haft á starfsemi sveitarfélaga umfjöllun hjá sambandinu. Með sama hætti fá þau frumvörp sem talið er að geti haft svæðisbundin áhrif umsögn hjá landshlutasamtökum, Eyþingi í tilviki Akureyrar. Af þessum ástæðum hefur í seinni tíð verið dregið mjög úr þeirri vinnu sem áður fór í að ganga frá umsögnum af þessu tagi hjá Akureyrarbæ og þær umsagnir sem frá bænum eru sendar byggja þá á sérálitum okkar á einstökum málum.
Ekki var send umsögn um þetta frumvarp af ofangreindum ástæðum. Ákvörðunin er tekin af bæjarstjóra í samráði við hlutaðeigandi embættismenn. Það hefur ekki tíðkast að bera ákvarðanir sem þessar undir bæjarstjórn eða einstakar nefndir.
       
Baldvin H. Sigurðsson lagði fram bókun svohljóðandi:
   "Bæjarfulltrúi VG harmar þá afstöðu meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar að sniðganga beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um umsögn varðandi svokallað matvælafrumvarp, á þeim forsendum að frumvarpið sé ekki nægilega mikilvægt til að það sé kynnt í bæjarstjórn."

Bæjarstjóri Sigrún Björk Jakobsdóttir óskar bókað:
   "Áhyggjum og sjónarmiðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna áhrifa frumvarpsins á Akureyri og Norðurland var komið á framfæri beint á fjölmennum fundi landbúnarráðherra um þessi mál og jafnframt á fundi með forsætisráðherra."

3.          Grunnskólar - viðbótarsamningur við kennara
2008050005
4. liður í fundargerð skólanefndar dags. 19. maí 2008:
Erindi dags. 15. maí 2008 frá fræðslustjóra þar sem óskað er eftir heimild til skólastjóra Brekkuskóla, Lundarskóla, Giljaskóla, Oddeyrarskóla, Síðuskóla og Glerárskóla til þess að gera samkomulag byggt á grein 2.1.2 í kjarasamningi KÍ og LN við kennarahópa í þessum skólum sem eru að vinna í teymum í kennslu með einstaklingsmiðun kennsluhátta að markmiði. Þessir kennarahópar eru að vinna ákveðið brautryðjendastarf og er verið að mæta auknu vinnuálagi og breyttu vinnulagi með því að bjóða kennurunum slíkan samning. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að fjármagna viðbótarkostnað við 40 stöðugildi með fjármagni úr þróunarsjóði skólanefndar og viðbótarfjárveitingu, en kostnaður við 40 stöðugildi er áætlaður kr. 8.500.000 á þessu fjárhagsári. Því er óskað eftir viðbótarfjárveitingu til að standa undir hluta af þeim kostnaði sem til fellur vegna samkomulagsins eða að hámarki kr. 3.500.000 á þessu fjárhagsári.
Skólanefnd samþykkir erindið fyrir sitt leyti og vísar því til bæjarráðs.
Fram kom tillaga frá áheyrnarfulltrúa Gerði Jónsdóttur svohljóðandi:
   "Ég legg til að viðbótarfjárveitingin verði kr. 4.500.000."
Tillagan var felld með 1 atkvæði gegn 3.
Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu.Bæjarráð samþykkir viðbótarfjárveitingu að upphæð kr. 3.500.000 vegna þessa verkefnis. Kostnaði er vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.
Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu.


4.          Umhverfisráðstefna í Västerås - 2008
2008030092
7. liður í fundargerð umhverfisnefndar dags. 22. maí 2008:
Erindi ódags. frá Västerås stad þar sem boðað er til umhverfisráðstefnu um staðbundið loftslag og orkuáætlun á Norðurlöndunum.
Umhverfisnefnd samþykkir að formaður nefndarinnar sæki ráðstefnuna.
Áður lagt fram til kynningar í  bæjarráði 27. mars sl.:
Erindi móttekið 14. mars 2008 frá Västerås þar sem boðað er til samráðsfundar vinabæja um umhverfismál 25.- 27. ágúst 2008. Boðað er til fundarins í framhaldi af ráðstefnu í Álasundi árið 2007 og yfirlýsingu sem unnið var að á þeim fundi og vinabæirnir hafa lýst stuðningi við.
Bæjarráð samþykkir að Oddur Helgi Halldórsson og Hjalti Jón Sveinsson verði fulltrúar Akureyrarbæjar á ráðstefunni.


5.          Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra - ársreikningur 2007
2007100058
Lagt fram erindi dags. 22. maí 2008 frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra þar sem sveitarfélögum er gefinn kostur á að gera athugasemdir við endurskoðaða reikninga sem samþykktir voru á síðasta fundi heilbrigðisnefndar 14. maí 2008.
Lagt fram til kynningar.


6.          Stapi lífeyrissjóður - ársfundur 2008
2008040004
Lögð fram fundargerð ársfundar Stapa lífeyrisjóðs dags. 8. maí 2008 ásamt ársskýrslu 2007.
Lagt fram til kynningar.


7.          Fiskey hf. - aðalfundur 2008
2008050109
Erindi dags. 20. maí 2008 frá Arnari Frey Jónssyni f.h. Fiskeyjar hf. þar sem komið er á framfæri ýmsum upplýsingum um stöðu mála hjá Fiskey hf. Ákveðið hefur verið að aðalfundur félagsins verði haldinn fimmtudaginn 29. maí nk. kl. 15:00 í fundarsal Brims hf. á Akureyri.
Bæjarráð felur fjármálastjóra Dan Jens Brynjarssyni að fara með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.


8.          Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð
2007100109
Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs gerðu grein fyrir þeim viðræðum sem fram hafa farið um uppbyggingu skólans.
Lagt fram til kynningar.


9.          Northern Forum -  umhverfisþing ungs fólks í Kóreu 2008
2008050089
Lagt fram boð og upplýsingar varðandi umhverfisþing ungs fólks, sem haldið verður að þessu sinni í Gangwon í Kóreu.
Einnig lagt fram minnisblað frá Sigríði Stefánsdóttur tengilið Akureyrarbæjar við Northern Forum samtökin.
Bæjarráð samþykkir að Akureyri taki ekki þátt í þinginu að þessu sinni.

10.          Samband íslenskra sveitarfélaga - ráðstefna um áætlanir Evrópusambandsins
2008050122
Erindi dags. 27. maí 2008 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem minnt er á ráðstefnu sambandsins um áætlanir Evrópusambandsins sem haldin verður þriðjudaginn 3. júní nk.
Lagt fram til kynningar.


11.          Jöfnunarsjóður sveitarfélaga  - tillögur um endurskoðun
2008030063
11. liður í fundargerð bæjarráðs dags.13. mars 2008:
Lögð fram skýrsla nefndar sem skipuð var af félagsmálaráðherra í september 2005 til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nefndin var skipuð að tillögu tekjustofnanefndar og var m.a. ætlað að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og hugsanlega þörf fyrir endurskoðun á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess.
Bæjarráð lýsir miklum vonbrigðum með hugmyndir að breytingum á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs, sérstaklega hvað varðar svokallað tekjujöfnunarframlag. Tillögurnar ganga gegn þeim markmiðum Jöfnunarsjóðs að jafna stöðu sambærilegra sveitarfélaga í landinu. Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að koma rökum bæjarins í málinu á framfæri við ráðherra sveitarstjórnarmála.
Lögð fram bókun frá síðasta fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga  dags. 23. maí 2008, 4. liður í fundargerð,  ásamt sérstakri bókun bæjarstjóra um málið.
Bæjarráð tekur heils hugar undir svohljóðandi bókun bæjarstjóra á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga:

   "Ég lýsi eindreginni andstöðu við tillögur endurskoðunarnefndarinnar af eftirfarandi ástæðum:
Meginverkefni nefndarinnar var að skoða tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög. Niðurstaða hennar er sú að gera tillögu um að breyta núverandi kerfi í stað þess að fara í það brýna verkefni að stokka upp og leggja grunn að nýrri skiptingu á milli sveitarfélaga sem tekur mið af raunverulegri stöðu þeirra og verkefnum.
Í tillögum nefndarinnar er yfirleitt hvergi reynt að rökstyðja þær með útreikningum eða málefnalegum rökum og eru það algerlega óásættanleg vinnubrögð. Af þeim sökum verður að álíta að fyrst hafi nefndin ákveðið niðurstöðuna og síðan reiknað sig að henni.
Á árunum 2007 og 2008 eru sett aukaframlög í Jöfnunarsjóðinn sem hefur verið úthlutað til einstakra sveitarfélaga á grunni ákveðinna vinnureglna. Árangurinn af þeim kemur nú í ljós þegar sveitarfélög eru þessa dagana að kynna ársreikninga sína fyrir árið 2007. Það sýnir berlega þörfina á því að taka jöfnunarsjóðskerfið til gagngerrar endurskoðunar og uppstokkunar og taka þar með mið af raunverulegri þörf sveitarfélaganna í landinu í stað þess að vera í skraddarasaumi frá ári til árs.
Í tillögunum er ekki tekið tillit til sérstöðu Akureyrarbæjar og tekjuþarfar þess sveitarfélags sem eina stóra sveitarfélagsins utan höfuðborgarsvæðisins. Til sveitarfélags af þessari stærð (og á þessum stað) eru gerðar kröfur um þjónustu sem ekki eru gerðar til sambærilegra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlutverk kallar á útgjöld umfram það sem gengur og gerist hjá sveitarfélögum, t.d. í menningarmálum, íþróttamálum, til félagslegrar þjónustu, vegna almenningssamgangna og til uppbyggingar sérhæfðrar aðstöðu af ýmsu tagi svo eitthvað sé nefnt. Áhrif þessarar sérstöðu birtast m.a. í skiptingu útgjalda á málaflokka hjá Akureyrarbæ sem líkjast fremur þeirri skiptingu útgjalda hjá höfuðborginni en sveitarfélögum af sambærilegri stærð. (sjá Árbók sveitarfélaga).
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna tekjur sambærilegra sveitarfélaga. Vandséð er hvernig segja má að fámenn sveitarfélög allt niður í 300 íbúa séu sambærileg við 17.500 manna sveitarfélag hvað varðar tekjuþörf. Því er þessi tillaga hreinlega brot á 12. gr. laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Akureyri er tekjulágt sveitarfélag pr. íbúa þrátt fyrir framlag úr Jöfnunarsjóði. Á undanförnum árum hafa tekjur sveitarfélagsins aukist minna en í sambærilegum sveitarfélögum á SV-horninu og ef tillögum endurskoðunarnefndar verður hrint í framkvæmd verða tekjur sveitarfélagsins á íbúa væntanlega með því allra lægsta sem gerist á landinu.
Stjórnvöld og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa verið sammála um að mikilvægt verkefni næstu ára sé að efla sveitarfélögin og gera þau í stakk búin til þess að taka við fleiri og stærri verkefnum. Í stað þess að fylgja tillögum endurskoðunarnefndarinnar um illa rökstuddar breytingar á úthlutunarreglunum legg ég þess vegna til að þessar hugmyndir verði lagðar til hliðar og vinna hafin við að einfalda til muna úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs með það að markmiði að hann þjóni betur þessari framtíðarsýn samtaka sveitarfélaga og stjórnvalda um færri, stærri og öflugri sveitarfélög í landinu.“

Bæjarráð ítrekar jafnframt fyrri bókun sína um málið og skorar á ráðherra sveitarstjórnarmála að taka tillit til röksemda Akureyrarbæjar í málinu.


12.          Skátafélagið Klakkur - samningur um rekstur tjaldsvæða
2007100076
Samningur milli Akureyrarbæjar og Skátafélagsins Klakks um rekstur tjaldsvæða Akureyrarbæjar sem samþykktur var í bæjarráði 23. apríl sl. lagður fram að nýju.
Bæjarráð samþykkir samninginn með áorðnum breytingum.Fundi slitið.