Bæjarráð

3135. fundur 17. apríl 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3135. fundur
17. apríl 2008   kl. 09:00 - 11:35
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Baldvin Halldór Sigurðsson
Oddur Helgi Halldórsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason áheyrnarfulltrúi
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Northern Forum
2008010012
Pricilla Wohl framkvæmdastjóri ásamt fulltrúum Northern Forum og Sigríði Stefánsdóttur skrifstofustjóra Ráðhúss mættu á fundinn og kynntu samtökin og starfsemi þeirra.  Einnig var rædd tillaga Akureyrarbæjar um flutning höfuðstöðva samtakanna til Akureyrar.
Bæjarráð þakkar Pricillu Wohl framkvæmdastjóra, Senator Gennadiy Oleynik formanni tengiliðanefndar og Elenu Berendeevu komuna á fundinn og áhugaverðar umræður um Northern Forum og mögulega flutninga á höfuðstöðvum samtakanna til Akureyrar.


2.          Viðtalstímar bæjarfulltrúa - fundargerðir 2008
2008010045
Lögð fram fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dags. 10. apríl 2008.  Fundargerðin er í 2 liðum.
Bæjarráð vísar 1. lið fundargerðarinnar til framkvæmdadeildar og 2. lið til félagsmálaráðs.


3.          Hafnasamlag Norðurlands bs. - aðalfundur 2008
2008040064
Boðað er til aðalfundar Hafnasamlags Norðurlands bs. miðvikudaginn 28. maí nk. kl. 15:00 í hafnarhúsinu við Fiskitanga.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.


4.          Samband íslenskra sveitarfélaga - XXII. landsþing
2008020063
Lögð fram fundargerð XXII. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga með ályktunum og samþykktum þess ásamt fleiri gögnum sem lögð voru fram á þinginu. Sjá niðurstöður þingsins á heimasíðu sambandsins http://www.samband.is
Lagt fram til kynningar.


5.          Hamrar - framkvæmdir vegna Landsmóts skáta
2008040036
Erindi dags. 6. apríl 2008 frá Tryggva Marinóssyni f.h. Hamra útilífs- og umhverfismiðstöðvar þar sem þess er farið á leit við bæjaryfirvöld að fé verði veitt í gerð nýrrar tjaldflatar (5.000 fm) og leggja að henni veg, vatns-, rafmagns- og frárennslislagnir. Landsmót skáta verður haldið í annað sinn að Hömrum dagana 22.- 29. júlí 2008 og framkvæmdaþörfin því brýnni en ella. Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður rúmlega fjórar milljónir króna.
Bæjarráð óskar eftir áliti framkvæmdaráðs á erindinu.


6.          Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar - stefna og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar
2008040054
Erindi dags. 10. apríl 2008 frá Áskeli Erni Kárasyni f.h. barnaverndarnefndar Eyjafjarðar varðandi stefnu og framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Bent er á að samkvæmt 9. gr. laga nr. 80/2002 um vernd barna og ungmenna, segir að sveitarstjórnir skuli marka sér stefnu og gera framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins. Það er mat nefndarinnar að eðlilegt sé að gera slíka áætlun sameiginlega fyrir sveitarfélögin Akureyri, Arnarneshrepp, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhrepp, þar sem barnaverndarstarf þeirra er sameinað í einni nefnd. Meðfylgjandi er stefna og framkvæmdaáætlun sem nefndin hefur fjallað um og samið og er hún send sveitarfélögum til kynningar og staðfestingar, áður en hún verður send félags- og tryggingamálaráðuneytinu og Barnaverndarstofu.
Áskell Örn Kárason forstöðumaður barnaverndar mætti á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.


7.          Fasteignagjöld af friðuðum húsum
2008030129
Fyrri hluti 7. liðar í fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dags. 27. mars 2008, sem bæjarráð 3. apríl sl. vísaði til fjármálastjóra.
Minnisblað fjármálastjóra varðandi fasteignaskatt af friðuðum húsum lagt fram.
Lagt fram til kynningar.


8.          Innkaupareglur Akureyrarbæjar
2008020074
9. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 6. mars 2008, þar sem Oddur Helgi Halldórsson óskar eftir yfirliti um hvenær 17. grein Innkaupareglna Akureyrarbæjar hefur verið beitt, á árinu 2007 og það sem af er 2008.
Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Guðríður Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar mættu á fundinn undir þessum lið.
Minnisblað lagt fram til kynningar.
       
Oddur Helgi Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun:
   "Það var tilgangur með setningu Innkaupareglna að útboð væri meginreglan.  Einnig sbr. bókanir við samþykkt fjárhagsáætlunar.  Ef við getum ekki farið eftir eigin reglum vegna þess að þær eru gallaðar, ber okkur að breyta þeim.  
Mér finnst undanþáguákvæði hafa verið túlkað frjálslega og er ekki sammála í öllum tilfellum.
Það ætti að vera vinnuregla þegar undanþáguákvæði er beitt að því fylgi skriflegur rökstuðnungur ásamt formlegu samþykki frá þeim aðila sem undanþáguna veitir."

Bókun meirihlutans er eftirfarandi:
   "Meirihluti bæjarráðs áréttar að undanþága frá útboði skv. 17. gr. Innkaupareglna Akureyrarbæjar hefur ekki verið veitt árin 2007-2008 nema ríkar ástæður hafi verið fyrir hendi.
Þær ástæður sem hafa réttlætt undanþágu eru af ýmsu tagi, en fyrst og fremst skýrist beiting undanþáguákvæðisins af þenslu á byggingamarkaði.  Akureyrarbær hefur í þessum tilvikum leitað til þeirra fyrirtækja sem hafa haft forsendur til að framkvæma verkið.
Vinna við endurskoðun Innkaupareglna bæjarins er hafin og þessi umræða sýnir nauðsyn þess."

9.          Söngkeppni framhaldsskólanema - styrkbeiðni 2008
2008040076
Erindi dags. í apríl 2008 frá Almiðlun ehf. þar sem óskað er eftir því að Akureyrarbær leggi til húsnæði án endurgjalds vegna Söngkeppni framhaldsskólanema sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri 12. apríl sl.
Rætt um framkvæmd verkefnisins.  
Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu mætti á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að styrkja Söngkeppni framhaldsskólanema um kr. 200.000 og felur framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að gera samkomulag við keppnishaldara um framtíðarsamstarf um verkefnið.
       
Jóhannes Gunnar Bjarnason óskar bókað:
   "Ég er andvígur afgreiðslu bæjarráðs á máli þessu.  Ég tel að fyrirtæki þau sem að þessum viðburði standa eigi að greiða leigu vegna afnota af Íþróttahöllinni líkt og öðrum sem leigja húsið er gert að gera."


Fundi slitið.