Bæjarráð

3131. fundur 13. mars 2008
Bæjarráð - Fundargerð
3131. fundur
13. mars 2008   kl. 09:00 - 10:50
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Baldvin Halldór Sigurðsson
Oddur Helgi Halldórsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason áheyrnarfulltrúi
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Ferliþjónusta - skýrsla og tillögur vinnuhóps
2005110069
3. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 7. mars 2008:
Lögð fram skýrsla frá vinnuhópi um málefni ferliþjónustu.
Stefán Baldursson forstöðumaður SVA mætti á fundinn undir þessum lið.
Framkvæmdaráð samþykkir tillögur vinnuhópsins fyrir sitt leyti og óskar eftir viðbótarfjármagni að upphæð kr. 1,4 milljónir í verkefnið.
Forstöðumanni SVA er falið að vinna að framgangi verkefnisins með starfsmönnum búsetudeildar.
3. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 3. mars 2008:
Fjallað um lokaskýrslu sameiginlegs starfshóps félagsmálaráðs og framkvæmdaráðs um málefni ferliþjónustu.  Meginniðurstöður hópsins eru að endurskoða beri þá ákvörðun að flytja ferliþjónustuna frá SVA til búsetudeildar. Búsetudeild hafi áfram það hlutverk að sinna mati á þjónustuþörf fyrir ferliþjónustuna en að öðru leyti beri SVA ábyrgð á þjónustunni og fái það fjárhagslega svigrúm sem nauðsynlegt er til að unnt verði að bæta utanumhald, skráningu og eftirlit með þjónustunni.
Félagsmálaráð samþykkir skýrsluna fyrir sitt leyti og þær tillögur að breytingum sem hópurinn leggur til. Erindinu vísað áfram til bæjarráðs.
Bæjarráð samþykkir viðbótarfjárveitingu að upphæð kr. 1,4 milljónir til SVA vegna viðbótarkostnaðar við ferliþjónustu og vísar kostnaði til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.


2.          Úthlutun fjármagns 2007 - aflamark þorsks
2008010061
2. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 21. febrúar 2008:
Lagðar fram tillögur að ráðstöfun þeirra fjármuna sem Akureyrarbær fékk vegna tekjuskerðingar sem hann verður fyrir vegna samdráttar á aflaheimildum, samtals kr. 5.800.000 vegna ársins 2007.
Stjórn Akureyrarstofu leggur til við bæjarráð að kr. 2.800.000 verði nýttar til þess að koma á fót skapandi sumarstörfum fyrir ungt fólk á aldrinum 17-25 ára. Haldið verði utan um það verkefni í samstarfi Akureyrarstofu, samfélags- og mannréttindadeildar og vinnuskólans. Þá leggur stjórnin til að afgangurinn verði nýttur til að styrkja innviði ferðaþjónustu í Hrísey og í Innbænum á Akureyri og að stjórn Akureyrarstofu hafi umsjón með útfærslu þessara verkefna og úthlutun fjármunanna.
Bæjarráð samþykkir tillögurnar.


3.          Fjölgun opinberra starfa á Akureyri - vinnuhópur
2008010196
4. liður í fundargerð bæjarstjórnar dags. 4. mars 2008:
Samþykkt tillaga Hermanns Jóns Tómassonar, sem borin var upp v. tillögu frá bæjarfulltrúunum Baldvini H. Sigurðssyni og Kristínu Sigfúsdóttur.
  "Flutningur opinberra stofnana og starfa á landsbyggðina er margyfirlýst markmið stjórnvalda, m.a. í gildandi byggðaáætlun. Akureyri er langstærsta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins og gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki fyrir Norður- og Austurland.  Það liggur þess vegna beint við að horfa til Akureyrar þegar opinberum stofnunum eða störfum á þeirra vegum er fundinn staður á landsbyggðinni. Það á að vera sameiginlegt verkefni bæjaryfirvalda og stjórnvalda að styrkja Akureyri sem byggðakjarna með því að efla þá opinberu starfsemi sem þegar er til staðar og fjölga opinberum störfum í bæjarfélaginu. Til þess að vinna að þessu verkefni samþykkir bæjarstjórn að fela bæjarráði að setja á fót vinnuhóp sem móta skal tillögur um leiðir til fjölgunar opinberra starfa á Akureyri."
Bæjarráð skipar Hermann Jón Tómasson formann bæjarráðs og bæjarfulltrúana  Elínu Margréti Hallgrímsdóttir og Baldvin H. Sigurðsson í vinnuhópinn.  María Helena Tryggvadóttir verkefnisstjóri á Akureyrarstofu starfar með hópnum.
Hópnum er ætlað:
- að meta stöðu Akureyrar hvað varðar fjölda opinberra starfa og fjölgun þeirra á undanförnum árum.
- að leggja fram hugmyndir um til hvaða starfsemi skal horfa, vilji bæjaryfirvöld beita sér fyrir fjölgun opinberra starfa á Akureyri og með hvaða hætti skuli unnið að því verkefni.

Í verkefnisvinnunni er eðlilegt að horfa til samþykkta og áætlana stjórnvalda um þetta efni, úttekta á skiptingu opinberra starfa sem m.a. hafa verið unnar af Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og stefnumótunarvinnu Akureyrarbæjar í atvinnumálum auk annarra gagna sem hópurinn telur eðlilegt að taka mið af.
Hópurinn skal ljúka vinnu sinni og tillögugerð fyrir 1. júni nk. og skila til bæjarráðs sem mun fjalla um verkefnið og tillögurnar.


4.          Landsmót skáta 2008 - styrkbeiðni
2007100021
Erindi dags. 3. október 2007 frá Birgi Björnssyni mótsstjóra og Þorsteini Fr. Sigurðssyni framkvæmdastjóra BÍS f.h. Landsmóts skáta 2008 þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi Akureyrarbæjar við mótið sem haldið verður að Hömrum dagana 22.- 29. júlí 2008.
Áður á dagskrá bæjarráðs 11. október 2007 þar sem bæjarráð fól bæjarstjóra að funda með forsvarsmönnum mótsins.
Lagt fram minnisblað dags. 4. mars 2008.
Bæjarráð samþykkir að styrkja mótshaldið um 1,5 milljónir kr. Upphæðin greiðist af liðnum styrkveitingar bæjarráðs.
Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu.


5.          Norðurorka hf. - aðalfundur 2008
2008030031
Erindi dags 4. mars 2008 frá Franz Árnasyni forstjóra f.h. stjórnar Norðurorku hf., þar sem boðað er til aðalfundar þann 28. mars nk., kl. 17:00 í fundarsal Norðurorku hf., Rangárvöllum, Akureyri.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á aðalfundinum.


6.          Hafnasamlag Norðurlands - Norð austur siglingaleiðin
2008030054
Erindi dags. 6. mars 2008 frá Hafnasamlagi Norðurlands þar sem boðað er til fundar sveitarstjórnarmanna frá öllum sveitar- og bæjarstjórnum á Eyjafjarðarsvæðinu föstudaginn 18. apríl nk. kl. 16:00 á Hótel KEA.
Lagt fram til kynningar.


7.          Landssamband hestamannafélaga - ályktun
2006050092
Lögð fram ályktun frá fundi á vegum Landssambands hestamannafélaga um öryggis- og skipulagsmál sem haldinn var í Brekkuskóla á Akureyri 29. febrúar sl. Í ályktuninni er skorað á bæjaryfirvöld á Akureyri að falla frá hugmyndum um skipulag á svæði í Glerárdal fyrir akstursíþróttir í námunda við hesthúsahverfi Akureyrar.
Lagt fram til kynningar.


8.          Grunnskólakennarar - áskorun vegna kjaramála
2008030040
Erindi dags. 4. mars 2008 frá Daníel Frey Jónssyni f.h. stjórnar Bandalags kennara á Norðurlandi eystra með  áskorun sem samþykkt var á stjórnarfundi BKNE á Akureyri 4. mars 2008. Skorað er á sveitarstjórnir á Norðurlandi eystra að fylgja fordæmi annarra sveitarfélaga og greiða grunnskólakennurum mánaðarlegar álagsgreiðslur eða eingreiðslur til að leiðrétta kjör þeirra.
Lagt fram til kynningar.


9.          Tillaga til þingsályktunar um sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri - 116. mál
2008030032
Erindi dags. 4. mars 2008 frá Unni Kristínu Sveinbjarnardóttur f.h. menntamálanefndar Alþingis þar sem óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri, 116. mál.
Þingskjalið er að finna á slóðinni:  http://www.althingi.is/altext/135/s/0117.html
Bæjarráð tekur heils hugar undir tillöguna. Mikilvægi þekkingar á sjávarlíffræði er augljóst og  á Akureyri eru allar aðstæður fyrir hendi sem styðja vel við starfsemi af þessu tagi. Bæjarráð lýsir miklum áhuga Akureyrarbæjar á að koma að frekari vinnu að þessari hugmynd.


10.          Leið ehf. - skýrsla
2008030064
Bréf dags. 5. mars 2008 frá formanni stjórnar Leiðar ehf. þar sem Akureyrarbæ er send til fróðleiks skýrsla sem Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir Leið ehf. og nefnist "Svínavatnsleið - mat á samfélagslegum áhrifum".
Lagt fram til kynningar.


11.          Jöfnunarsjóður - tillögur um endurskoðun
2008030063
Lögð fram skýrsla nefndar sem skipuð var af félagsmálaráðherra í september 2005 til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nefndin var skipuð að tillögu tekjustofnanefndar og var m.a. ætlað að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og hugsanlega þörf fyrir endurskoðun á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess.
Bæjarráð lýsir miklum vonbrigðum með hugmyndir að breytingum á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs, sérstaklega hvað varðar svokallað tekjujöfnunarframlag. Tillögurnar ganga gegn þeim markmiðum Jöfnunarsjóðs að jafna stöðu sambærilegra sveitarfélaga í landinu. Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að koma rökum bæjarins í málinu á framfæri við ráðherra sveitarstjórnarmála.


12.          Önnur mál
2008010014
Baldvin H. Sigurðsson lagði fram eftirfarandi:
Ég fer þess á leit við bæjarráð að það upplýsi eftirfarandi atriði vegna Saps tölvukerfisins sem bærinn tók í sína þjónustu.
1.   Hvert var upphaflegt tilboð í krónum talið sem tekið var.
2.   Hvað er áætlað að kerfið muni kosta með aukaverkum.
3.   Hvað hefur mikill kostnaður farið í aukaverk.
4.   Hvað mikið er eftir að gera til að kerfið nýtist til fulls.
5.   Nýtist kerfið öllum þeim stofnunum bæjarins sem til stóð.
6.   Er vitað hvað sambærilegt kerfi sem Kópavogsbær notar kostaði (naviation).

Baldvin H. Sigurðsson óskaði einnig bókað:
   "Í tilefni af 28,5 milljarða hagnaði Landsvirkjunar á síðasta ári vil ég taka fram eftirfarandi, ég vil enn og aftur minna á að ég tel að meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hafi haldið afar illa á hagsmunum Akureyringa við sölu á hlut bæjarins í Landsvirkjun.
Það var ítrekað bent á að verðmatið á Landsvirkjun væri allt of lágt, sem síðan sannaðist með sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem var metinn á 55 milljarða, meðan Landsvirkjun var aðeins metin á tæplega 61 milljarð króna og mjög líklegt er að Landsvirkjun sé 80-90% stærra og þess vegna að sama skapi verðmætara fyrirtæki.
Því fer ég fram á að bæjarstjórn Akureyrar athugi hvort rifta megi samningnum eða fá hann endurskoðaðan."

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarráði óska bókað að þeir telji fráleitt að draga þá ályktun að afkoma Landsvirkjunar á sl. ári sýni það að mistök hafi verið gerð í því að selja hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.
Benda má á að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 27.630 milljónum króna sem skýrist aðallega af gengishagnaði af langtímalánum og gangvirðisbreytingum afleiðusamninga.  Gengishagnaðurinn og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins.

Oddur Helgi Halldórsson óskar bókað:
"Ég var alla tíð á móti sölu á hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun og hef alla tíð haldið því fram að hann hafi verið seldur allt of ódýrt."


Fundi slitið.