Bæjarráð

3112. fundur 27. september 2007
Bæjarráð - Fundargerð
3112. fundur
27. september 2007   kl. 09:00 - 11:00
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Anna Halla Emilsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason áheyrnarfulltrúi
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Háskólinn á Akureyri - gjöf í tilefni 20 ára afmælis skólans
2007090051
Í tilefni 20 ára afmælis HA færði  bæjarstjóri f.h.  Akureyrarbæjar  Háskólanum á Akureyri 2 millj. kr. að gjöf til ráðstöfunar að eigin vali.  
Borist hefur bréf frá Háskólanum dags. 11. september 2007, undirritað af Þorsteini Gunnarssyni rektor þar sem þakkað er fyrir gjöfina.
Bæjarráð óskar HA til hamingju með 20 ára afmæli skólans.


2.          Viðtalstímar bæjarfulltrúa október 2007 - maí 2008
2007090056
Lögð fram áætlun um viðtalstíma bæjarfulltrúa frá október 2007 - maí 2008.
Viðtalstímarnir verða að jafnaði 2. og 4.  fimmtudag hvers mánaðar.
Lagt fram til kynningar.


3.          Verslunarmannahelgin 2007 - skýrsla starfshóps ofl.
2007030205
Lögð fram skýrsla dags. 17. september 2007 frá starfshópi sem bæjarráð skipaði vegna verslunarmannahelgar 2007.
Ennfremur lögð fram gögn frá eftirtöldum:
Lögreglunni á Akureyri dags. 13. september 2007
Hömrum - útilífs og umhverfismiðstöð dags. 28. ágúst 2007
Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri dags. 10. ágúst 2007
Forstöðumanni Akureyrarvallar dags. 21. ágúst 2007
Einnig lagðar fram stuttar umsagnir frá ýmsum aðilum.
Margrét Kristín Helgadóttir fulltrúi í starfshópi mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar starfshópi sem skipaður var af ráðinu fyrir góð störf við undirbúning og framkvæmd hátíðarhalda um verslunarmannahelgina. Bæjarráð þakkar jafnframt þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu sitt af mörkum til þess að gera dvölina í bænum ánægjulega fyrir gesti fjölskylduhátíðarinnar.
Ráðið leggur eins og áður áherslu á að forsendan fyrir aðkomu bæjarins að skipulögðum hátíðarhöldum í bænum um þessa helgi er að samkomulag sé um að hátíðin sé fjölskylduhátíð og dagskrá og framkvæmd miðist alfarið við það. Bæjarráð gerir ráð fyrir því að í samningum við rekstraraðila tjaldsvæða sem fyrirhugað er að gera verði völd þeirra og ábyrgð á rekstrinum skilgreind, þar á meðal heimild þeirra til að takmarka aðgang að tjaldsvæðunum. Sá samningur mun koma til afgreiðslu bæjarráðs þegar þar að kemur.  Bæjarráð felur Akureyrarstofu umsjón með aðkomu Akureyrarbæjar að hugsanlegum hátíðarhöldum næsta árs.

       
Bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar gæns framboðs Baldvin Halldór Sigurðsson óskar að bókuð verði athugasemd við þá aðskilnaðarstefnu sem fram kom í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar hjá meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar um að meina hópi fólks aðgang að tjaldsvæðum Akureyrar.
Baldvin Halldór Sigurðsson óskar jafnframt bókað að hann sat hjá afgreiðslu.

4.          Fjárlaganefnd Alþingis - fundur með sveitarstjórnarmönnum í september 2007
2007090045
Formaður bæjarráðs greindi frá fundi sem hann ásamt bæjarstjóra áttu með fjárlaganefnd Alþingis 20. september sl.  Í erindi bæjarstjóra og formanns bæjarráðs við fjárlaganefnd var farið yfir ýmiskonar ágreiningsefni sem uppi eru milli ríkisins og Akureyrarbæjar um kostnaðarskiptingu verkefna. Jafnframt var bent á mikilvæg verkefni í sveitarfélaginu sem full ástæða er til að ríkið komi að með myndarlegri hætti en það gerir nú.
Bæjarráð tekur undir þær áherslur sem fram komu í erindinu og felur bæjarstjóra að vinna áfram að því að koma þessum skilaboðum Akureyrarbæjar vegna fjárlagagerðar á framfæri við stjórnvöld.


5.          Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. - niðurstöður skiptastjórnar
2006060082
Lagðar fram niðurstöður skiptastjórnar Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. dags. 14. september 2007.
Bæjarráð samþykkir niðurstöður skiptastjórnar.


6.          Flokkun ehf. - hluthafafundur 2007
2007090070
Erindi, ódags., móttekið 18. september 2007 frá framkvæmdastjóra Flokkunar ehf. þar sem boðað er til hluthafafundar Flokkunar ehf. sem haldinn verður 28. september nk. í Ráðhúsi Akureyrar, bæjarstjórnarsal, 4. hæð, Geislagötu 9 og hefst hann kl. 15.00.
Bæjarráð samþykkir að Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri fari með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.
Bæjarráð samþykkir að leggja eignarhlut bæjarins í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. fram sem hlutafé í Flokkun ehf. Jafnframt samþykkir ráðið að greiða viðbótarhlutafé til Flokkunar, allt að kr. 29.285.026, úr Framkvæmdasjóði til að standa straum að stofnun jarðgerðarstöðvar í Eyjafirði.


7.          Skerðing á aflaheimildum - mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar
2007070046
Bæjarráð Akureyrar ræddi á fundi sínum í dag mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar Íslands vegna niðurskurðar aflaheimilda.
Bæjarráð lýsir ánægju sinni með að flýting lengingar Akureyrarflugvallar og endurnýjunar á aðflugsbúnaði vallarins skuli vera hluti af mótvægisaðgerðunum. Þessi ákvörðun mun gagnast jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum á Norðurlandi. Niðurstaða umræðu bæjarráðs er engu að síður sú að boðaðar aðgerðir duga engan veginn til þess að vega upp þau neikvæðu áhrif sem þessi ákvörðun mun hafa á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. Bæjarráð skorar á ríkisstjórnina að leita áfram leiða til þess að koma til móts við einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög sem verst verða úti vegna niðurskurðarins.
Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ýmsar stofnanir sem nú þegar sinna atvinnu- og menntunarmálum stofni til verkefna til að draga úr áhrifum niðurskurðarins. Bæjarráð lýsir yfir vilja til að taka þátt í þessari vinnu og mun núna í október boða til samráðsfundar stofnana á Akureyri sem möguleika eiga á að nýta sér þetta.Fundi slitið.