Bæjarráð

3091. fundur 15. mars 2007

Bæjarráð - Fundargerð
3091. fundur
15. mars 2007   kl. 09:00 - 11:30
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


 

Nefndarmenn Starfsmenn   Hermann Jón Tómasson formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi
  Sigrún Björk Jakobsdóttir
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari

 
1.          Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2006
2007030119
Lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2006.  
Arnar Árnason og Þorsteinn Þorsteinsson endurskoðendur frá KPMG mættu á fundinn og skýrðu ársreikninginn og svöruðu fyrirspurnum.  Einnig sátu bæjarfulltrúi Kristján Þór Júlíusson og starfsmannastjóri Halla Margrét Tryggvadóttir fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð vísar ársreikningnum til fyrri umræðu í bæjarstjórn.


2.          Félag heyrnarlausra - viðurkenning 2006
2007030043
Félag heyrnarlausra veitti þann 9. mars sl. Akureyrarbæ viðurkenningu fyrir frábært samstarf og styrk vegna Norrænu menningarhátíðar heyrnarlausra sem haldin var á Akureyri í júlí 2006.
Bæjarráð þakkar þeim starfsmönnum bæjarins sem þátt tóku i undirbúningi og framkvæmd menningarhátíðarinnar þeirra stóra þátt í vel heppnaðri hátíð.


3.          Sveitarstjórnarkosningar 27. maí 2006
2006030068
Lagt fram bréf dags. 8. mars 2007 frá formanni kjörstjórnar á Akureyri Helga Teiti Helgasyni.  Þar kemur fram að í bréfi dags. 30. maí 2006 var gerð grein fyrir kjörsókn á Akureyri í bæjarstjórnarkosningum 2006 og var atkvæðum sem greidd voru í Hrísey 83 atkvæði, ekki getið sérstaklega og kom fram munur á tilgreindum atkvæðum og greiddum atkvæðum.  Réttar tölur eru að utan kjörfundar kusu 1245 en á kjördag sjálfan 8216 þar af 83 í Hrísey, samtals 9461.  Úrslit kosninganna standa eftir sem áður óhögguð.
Lagt fram til kynningar.


4.          Gistiheimili - álagning fasteignagjalda
2007030117
3. liður í fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dags. 12. mars 2007:
Elín Antonsdóttir mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa.  Hún telur misræmi í álagningu fasteignagjalda á gistiheimili og telur samkeppnisstöðu sína slaka vegna þessa.   Hún telur ástæðuna fyrir því vera að hún býr ekki á gistiheimilinu, þ.e. hefur ekki lögheimili á vinnustað.
Við álagningu fasteignagjalda á gistiheimili fylgir Akureyrarbær í einu og öllu ákvæðum laga og reglugerðar um það hvernig beri að flokka gististaði.


5.          Jarðgerðarstöð - stofnun undirbúningsfélags
2006110019
Lögð fram tillaga um að Akureyrarbær taki þátt í að stofna félag sem vinna mun að undirbúningi þess að koma á fót jarðgerðarstöð fyrir lífrænan úrgang.
Bæjarráð fagnar því að lausn er nú í sjónmáli varðandi meðhöndlun og endurnýtingu lífræns úrgangs sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu. Bæjarráð samþykkir að leggja eina milljón króna til undirbúningsfélagsins. Upphæðin greiðist úr Framkvæmdasjóði.


6.          Ferðakostnaður íþróttafélaga
2007030124
Rætt um jöfnun ferðakostnaðar íþróttafélaga.
Um alllangt skeið hefur verið rætt um nauðsyn þess að jafna þann kosnað sem íþróttafélög þurfa að greiða vegna keppnisferða. Nefnd sem fékk það hlutverk að vinna tillögur um það hvernig að þessu skuli staðið hefur lokið störfum og tillögur hennar eru nú á borði ríkisstjórnarinnar.
Bæjarráð Akureyrar leggur þunga áherslu á að þessar tillögur verði samþykktar og þannig stigið skref í átt til jöfnunar á aðstöðu þeirra sem stunda íþróttir á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Umræða um mikilvægi þessa máls hefur staðið allt of lengi. Nú er kominn tími til aðgerða.


7.          Hlíðarskóli - húsnæðismál
2007020067
Tekið fyrir að nýju, bæjarráð fól þann 22. febrúar sl. bæjarstjóra að taka saman upplýsingar um þá kosti sem til greina koma varðandi framtíð húsnæðis Hlíðarskóla og leggja fyrir ráðið.  Minnisblað bæjarstjóra dags. 12. mars 2007 lagt fram.
Bæjarráð samþykkir að bíða með að ráðstafa húsnæðinu í Skjaldarvík þar til niðurstaða varðandi framtíðaruppbyggingu öldrunarheimila á Akureyri liggur fyrir.


8.          Akureyrarvöllur - tillögur vinnuhóps
2007010204
Tekið fyrir að nýju, bæjarráð frestaði afgreiðslu þann 8. mars sl.
Bæjarráð vísar málinu til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.


9.          Hafnarstræti 26 - umsókn um styrk vegna keiluhúss
2007030058
Erindi dags. 7. mars 2007 frá Þorgeiri Jónssyni og Dagnýju Ingólfsdóttur þar sem sótt er um styrk vegna keiluhúss að Hafnarstræti 26 á Akureyri.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara um mögulegar leiðir til að koma til móts við erindið.


10.          Hafnarstræti 26 - umsókn um lækkun fasteignagjalda
2007030059
Erindi móttekið 7. mars 2007 frá Þorgeiri Jónssyni og Dagnýju Ingólfsdóttur þar sem sótt er um lækkun á fasteignagjöldum.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.


11.          Skólaþróunarsvið HA - samstarf
2006100094
Lagt fram bréf dags. 2. mars 2007 frá Guðmundi Heiðari Frímannssyni staðgengli rektors Háskólans á Akureyri þar sem vísað er í bréf dags. 25. október 2006 frá þáverandi bæjarstjóra þar sem leitað var eftir hugmyndum og tillögum Háskólans um með hvaða hætti best væri staðið að samstarfi sem hefði það að leiðarljósi að gera gott skólastarf leik- og grunnskóla Akureyrar enn betra. Leggur Háskólinn til að hvor um sig tilnefni sinn fulltrúa til að vinna úr tillögum.
Bæjarráð er sammála þeirri leið sem lögð er til í bréfinu og felur skólanefnd að tilnefna fulltrúa til að sinna þessu verkefni.


12.          Svifryk við leikskóla
2007030015
3. liður í fundargerð skólanefndar dags. 5. mars 2007:
Skólanefnd lýsir áhyggjum sínum vegna þess háa gildis svifryks sem mælist í bænum og beinir því til bæjarráðs að það beiti sér fyrir því að fenginn verði sem fyrst annar færanlegur mælir til bæjarins, svo hægt verði að gera nauðsynlegar mælingar við skólamannvirki. Skólanefnd fagnar því að nú þegar skuli hafa verið gripið til aðgerða.
Bæjarráð er sammála því að mikilvægt sé að fá færanlegan svifryksmæli til bæjarins þannig að betur sé hægt að fylgjast með þessum málum en nú er. Bæjarstjóri mun funda með fulltrúum umhverfisráðuneytis vegna þessa máls innan skamms og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um það með hvaða hætti staðið verður að kaupum á slíku tæki.

Þegar hér var komið vék bæjarstjóri af fundi.


13.          Lánasjóður sveitarfélaga - ársfundur 2007 og stofnfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.
        2007030060
        Erindi dags. 7. mars 2007 frá Lánasjóði sveitarfélaga, þar sem boðað er til ársfundar Lánasjóðsins og einnig til stofnfundar Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. föstudaginn 23. mars nk. í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, Reykjavík. Ársfundurinn hefst kl. 15.30 og stofnfundurinn verður haldinn í beinu framhaldi.
        Óskað er eftir að Akureyrarbær tilnefni formlega fulltrúa sem fari með atkvæðisrétt sveitarfélagsins á stofnfundinum og undirriti stofnsamning félagsins f.h. sveitarfélagsins.
        Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á fundunum.14.  Íþróttahöllin og íþróttahús KA - endurnýjun á gólfum
        2007030177
        Bæjarfulltrúi Jóhannes Gunnar Bjarnason spurðist fyrir um endurnýjun á gólfum í Íþróttahöllinni og íþróttahúsi KA.
        Fram fóru umræður um málið.
Fundi slitið.