Bæjarráð

8165. fundur 14. desember 2006
3080. fundur
14.12.2006 kl. 09:00 - 11:35
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Hermann Jón Tómasson formaður
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Elín M. Hallgrímsdóttir
Baldvin H. Sigurðsson
Jóhannes G. Bjarnason
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi
Kristján Þór Júlíusson
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 Snorraverkefnið - styrkbeiðni 2007
2006120029
Erindi dags. 5. desember 2006 frá verkefnisstjóra Snorraverkefnisins árið 2007 þar sem óskað er eftir stuðningi frá Akureyrarbæ við verkefnið.
Bæjarráð samþykkir að styðja verkefnið á sömu nótum og árið 2006 og felur Sigríði Stefánsdóttur deildarstjóra markaðs- og kynningarmála að svara bréfritara.

Þegar hér var komið mætti Jóhannes G. Bjarnason á fundinn kl. 09.05.

2 Melateigur 1-41
2003060015
Lögð fram drög að samkomulagi við íbúa við Melateig.
Bæjarráð frestar afgreiðslu.


3 Hrísey - ferjugjöld
2006120041
Erindi dags. 11. desember 2006 frá hverfisráði Hríseyjar þar sem fram koma hugmyndir um tilhögun og framkvæmd á fríum fargjöldum með Hríseyjarferjunni.
Ferjugjöld í Hríseyjarferju verða felld niður frá og með áramótum fyrir þá íbúa sveitarfélagsins sem hafa lögheimili í Hrísey. Bæjarráð felur bæjarstjóra að hrinda þessari breytingu í framkvæmd og þakkar hverfisráði Hríseyjar ágætar ábendingar.


4 Félagsmálaráðuneytið - þjónustusamningur 2007-2012
2006120042
5. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 11. desember 2006:
Lögð fram drög að samningi við félagsmálaráðuneytið vegna málefna fatlaðra.
Félagsmálaráð samþykkir drögin fyrir sitt leyti.
Bæjarráð felur bæjarstjóra og bæjarritara að vinna áfram að málinu.


5 Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2007
2006060029
4. liður í fundargerð bæjarstjórnar dags. 5. desember 2006:
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2007 til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram á milli umræðna svo og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.
Endanleg ákvörðun um álagningu fasteignagjalda árið 2007 verður tekin þegar álagningargrunnur liggur fyrir í janúar nk. Jafnframt fari þá fram endurskoðun tekjuviðmiðunar vegna afsláttar til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.


Áætlunin tekur til eftirfarandi þátta:
Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A og B-hluti
Rekstraryfirlit samstæðureiknings
Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar

A-hluta stofnanir:
Aðalsjóður
Fasteignir Akureyrarbæjar
Framkvæmdamiðstöð
Eignasjóður gatna o.fl.

B-hluta stofnanir:
Félagslegar íbúðir
Fráveita Akureyrar
Strætisvagnar Akureyrar
Öldrunarheimili Akureyrar
Framkvæmdasjóður Akureyrar
Norðurorka hf.
Bifreiðastæðasjóður Akureyrar
Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar
Gjafasjóður Hlíðar og Skjaldarvíkur
Hafnasamlag Norðurlands
Heilsugæslustöðin á Akureyri

Tillögur að bókunum:

a) Starfsáætlanir
Bæjarráð felur nefndum og ráðum að yfirfara starfsáætlanir í samráði við stjórnendur og gera á þeim þær breytingar sem nauðsynlegar eru með tilliti til fjárhagsáætlunar Akureyrarkaupstaðar. Stefnt skal að því að ljúka yfirferðinni fyrir lok janúar 2007. Bæjarráð og bæjarstjórn munu þá taka áætlanirnar til umræðu og afgreiðslu.

b) Gjaldskrár
Til að mæta áhrifum verðlagshækkana á launum og þjónustu í rekstri Akureyrarkaupstaðar eru tillögur nefnda um gjaldskrárbreytingar í fyrirliggjandi frumvarpi að fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar fyrir árið 2007. Yfirlit yfir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á gjaldskrám var lagt fram undir þessum lið og koma þær tillögur til umræðu og afgreiðslu þegar fjárhagsáætlun verður tekin til seinni umræðu í bæjarstjórn.

c) Kaup á vörum og þjónustu
Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið til að nýta skatttekjur sveitarfélagins eins vel og kostur er skv. Innkaupastefnu Akureyrarkaupstaðar. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.

Bæjarráð vísar frumvarpinu ásamt framangreindum tillögum til bæjarstjórnar til síðari umræðu og afgreiðslu og lítur svo á að með afgreiðslu frumvarpsins hafi verið afgreidd erindi og tillögur um fjárveitingar sem borist hafa bæjarráði og vísað hefur verið til gerðar fjárhagsáætlunar.

Jóhannes G. Bjarnason óskar bókað:
"Framsóknarflokkurinn fagnar þeirri breytingu á fjárhagsáætlun sem varðar undirbúning Landsmóts UMFÍ. Jafnframt skorum við á meirihlutann í bæjarstjórn að endurskoða þá stefnu að leggja af Akureyrarvöll og byggja tvo keppnisvelli í hans stað. Æfingasvæði íþróttafélaganna eru nú þegar of lítil og bera ekki nýja keppnisvelli með tilheyrandi áhorfendaaðstöðu. Öllum ætti að vera það ljóst, að verði ekki ráðist í endurbyggingu Akureyrarvallar er óhjákvæmilegt að byggja tvo keppnisvelli og stækka æfingasvæði."6 Bílaklúbbur Akureyrar - ökugerði
2003020118
Erindi dags. 13. desember 2006 frá Kristjáni Þ. Kristinssyni f.h. Bílaklúbbs Akureyrar varðandi samstarf um uppbyggingu ökugerðis.
Pétur Bolli Jóhannesson skipulags- og byggingafulltrúi mætti á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð lýsir yfir vilja um samstarf við Bílaklúbb Akureyrar vegna umsóknar um ökugerði og felur íþróttaráði að ganga til viðræðna við klúbbinn um framtíð akstursíþrótta og uppbyggingu fyrir Bílaklúbbinn.


7 Kynbundið ofbeldi - áskorun til bæjarstjórnar

2006120052

Lagt fram erindi dags. 13. desember 2006 sem barst í tölvupósti frá Valgerður H. Bjarnadóttur þar sem óskað er eftir fjárveitingu í aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
Erindinu vísað til félagsmálaráðs.Fundi slitið.