Bæjarráð

7629. fundur 17. ágúst 2006
Bæjarráð - Fundargerð
3065. fundur
17.08.2006 kl. 09:00 - 10:40
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Hermann Jón Tómasson formaður
Elín M. Hallgrímsdóttir
Hjalti Jón Sveinsson
Baldvin H. Sigurðsson
Gerður Jónsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson áheyrnarfulltrúi mætti á fundinn kl. 09.30
Kristján Þór Júlíusson
Dan Jens Brynjarsson
Ármann Jóhannesson
Karl Guðmundsson
Inga Þöll Þórgnýsdóttir
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 Verslunarmannahelgin - Ein með öllu 2006
2006060059
Lögð fram eftirtalin gögn vegna liðinnar verslunarmannahelgar:
Álitsgerð vinnuhóps, sem skipaður var af bæjarráði til að hafa umsjón með aðkomu bæjarins að hátíðinni "Ein með öllu", bréf dags. 9. ágúst 2006 frá Úlfari Björnssyni skólastjóra Glerárskóla, tölvupóstur dags. 9. ágúst 2006 frá Jóni Heiðari Daðasyni f.h. Lionsklúbbsins Hængs varðandi gæslu þeirra í miðbænum, bréf dags. 9. ágúst 2006 frá forsvarsmanni SVA, skýrsla dags. 8. ágúst 2006 frá Daníel Guðjónssyni yfirlögregluþjóni f.h. Lögreglunnar á Akureyri, samantekt frá forstöðumanni íþróttamiðstöðvar Glerárskóla, skýrsla ódagsett frá Gunnþóri Hákonarsyni verkstjóra f.h. Framkvæmdamiðstöðvar, skýrsla dags. 9. ágúst 2006 frá Ingimar Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóra f.h. Slökkviliðs Akureyrar, skýrsla dags. 15. ágúst 2006 frá Þóru Ákadóttur f.h. Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, skýrsla ódagsett frá Ölmu Axfjörð f.h. Vímulausrar æsku, tölvupóstur dags. 8. ágúst 2006 frá Svanbirni Sigurðssyni f.h. Flugsafnsins, minnispunktar dags. 14. ágúst 2006 frá Einari Jóhannssyni f.h. Fasteigna Akureyrarbæjar og tölvupóstur dags. 16. ágúst 2006 frá Minjasafninu á Akureyri.
Bæjarráð þakkar vinnuhópi sem það skipaði til að undirbúa og hafa umsjón með framkvæmd hátíðarinnar "Einnar með öllu" af hálfu bæjarins mikið og gott starf. Jafnframt þakkar bæjarráð öllum starfsmönnum bæjarins og öðrum sem lögðu mikið á sig í þágu bæjarbúa og gesta bæjarins um verslunarmannahelgina. Ljóst er að ef framhald á að vera á samkomuhaldi um þessa helgi í bænum verður að koma í veg fyrir að ungmenni safnist saman á tjaldsvæðum bæjarins.
Meiri hluti bæjarráð tekur því undir það álit vinnuhópsins að svokölluð ungmennatjaldsvæði verði alfarið lögð af og öll áhersla lögð á að gestir bæjarins um þessa helgi verði fyrst og fremst fjölskyldufólk.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir óskar bókað að hún er á móti afgreiðslunni og lagði fram eftirfarandi bókun:
"Ég tel engar forsendur lengur fyrir því að umrædd hátíð sé haldin með stuðningi bæjarfélagsins. Auk þess tel ég ómögulegt að boða til slíkrar hátíðar með takmörkuðum aðgangi ungs fólks."2 Námsleyfi sérmenntaðra starfsmanna
2006020041
1. liður í fundargerð fræðslunefndar dags. 15. ágúst 2006:
Lagðar voru fram greinargerðir um stöðu Námsstyrkjasjóðs og ósk um breytingu á fjárframlagi fyrir sérmenntaða starfsmenn annars vegar og embætttismenn hins vegar.
Fræðslunefnd leggur til við bæjarráð að fjárveiting til beggja deilda Námsstyrkjasjóðs verði aukin með vísan til meðfylgjandi greinargerða.
Hrafnhildur Sigurðardóttir nefndarmaður í fræðslunefnd og Ingunn Helga Bjarnadóttir verkefnisstjóri starfsþróunar sátu fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð tekur jákvætt í ósk fræðslunefndar og vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar 2007.

Þegar hér var komið vék Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður af fundi.

3 Hafnasamlag Eyjafjarðar bs. - aðalfundur 2006
2006080030
Boðað er til aðalfundar Hafnasamlags Eyjafjarðar þriðjudaginn 22. ágúst nk. kl. 17:00 í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara með umboð Akureyrarbæjar á aðalfundinum.


4 Bæjarsjóður Akureyrar - yfirlit um rekstur 2006
2006060028
Lagt fram yfirlit um rekstur bæjarsjóðs janúar-júní 2006.
Lagt fram til kynningar.


5 Murmansk - vinabæjasamskipti
2005120078
Erindi móttekið 26. júlí 2006 frá forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra Murmansk, til bæjarstjórans á Akureyri, þar sem er boðið til 90 ára afmælishátíðar borgarinnar dagana 5. til 7. október nk.
Bæjarráð þakkar boðið og felur bæjarstjóra að vera fulltrúi bæjarins á afmælishátíðinni.


6 Prókúruumboð - 2006
2006080028
Lögð fram tillaga um prókúruumboð.
Með vísan í 3. mgr. 55. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 heimilar bæjarráð bæjarstjóra að veita eftirtöldum starfsmönnum Akureyrarbæjar prókúruumboð:
bæjarlögmanni - Ingu Þöll Þórgnýsdóttur,
sviðsstjóra stjórnsýslusviðs - Dan Jens Brynjarssyni,
sviðsstjóra félagssviðs - Karli Guðmundssyni og
sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs - Ármanni Jóhannessyni.
Umboðið nær til að undirrita skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki bæjarráðs og/eða bæjarstjórnar þarf til.
Bæjarráð samþykkir að framangreindum aðilum verði veitt prókúruumboð í samræmi við 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Umboðin gilda meðan viðkomandi gegnir tilteknu starfi fyrir Akureyrarbæ þó ekki lengur en til loka núverandi kjörtímabils bæjarstjórnar. Jafnframt eru eldri umboð úr gildi fallin.7 Skógræktarfélag Eyfirðinga og Akureyrarbær - endurnýjun samnings
2006080004
Erindi dagsett 1. ágúst 2006 frá Jóni Kr. Arnarsyni f.h. Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem óskað er eftir endurnýjun þjónustusamnings milli Akureyrarbæjar og Skógræktarfélags Eyfirðinga um umsjón með skógræktar- og útivistarsvæðum á Akureyri.
Bæjarráð felur sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og formanni bæjarráðs að ræða við forsvarsmenn félagsins.Fundi slitið.