Bæjarráð

6594. fundur 17. nóvember 2005
3033. fundur
17.11.2005 kl. 9:00: - 11:48
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Jakob Björnsson formaður
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Þóra Ákadóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Valgerður H. Bjarnadóttir
Oktavía Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
Kristján Þór Júlíusson
Dan Jens Brynjarsson
Karl Guðmundsson
Jón Bragi Gunnarsson
Brynja Björk Pálsdóttir og
Heiða Karlsdóttir rituðu fundargerð


1 Yfirvinna - vinnuhópur um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ
2005040109
Lagt fram minnisblað dags. 15. nóvember 2005 frá vinnuhópi um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ.
Fulltrúar úr yfirvinnunefndinni gerðu grein fyrir framvindu verkefnisins.
Bæjarfulltrúi Oktavía Jóhannesdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Það hefur frá upphafi verið skilningur minn að tilgangurinn með skipan starfshóps um yfirvinnumál hjá Akureyrarbæ væri að auka gegnsæi og jafnræði í launamálum bæjarins en ekki að lækka laun starfsmanna.
Ég get því ekki fallist á tillögur sem leiða til beinnar kjaraskerðingar og geta valdið atgerfisflótta hjá reyndu og traustu starfsfólki."

Bæjarstjóri Kristján Þór Júlíusson lagði fram svohljóðandi bókun:
"Tilgangurinn með breytingum á fyrirkomulagi yfirvinnu og annara aukagreiðslna er að auka gegnsæi, draga úr misræmi og kynbundnum launamun meðal starfsmanna bæjarfélagsins. Að þessu verki hefur verið unnið í hartnær 2 ár í góðri samstöðu bæjarfulltrúa fram til þessa."

Bæjarfulltrúi Oktavía Jóhannesdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Vegna bókunar bæjarstjóra vil ég taka fram að sjónarmið mín varðandi tekjuskerðingu starfsmanna hafa legið fyrir frá upphafi og ávallt komið fram í umræðum um málið."2 Íslensku sjónlistaverðlaunin
2005100077
1. liður í fundargerð menningarmálanefndar dags. 3. nóvember 2005:
Farið var yfir þá undirbúningsvinnu sem átt hefur sér stað vegna hinna Íslensku sjónlistaverðlauna sem stofnað verður til á Akureyri á næsta ári. Ljóst er að verkefnið er umfangsmikið, en hugmyndin er að stofna félag um verðlaunin með þátttöku bæjarins og fleiri aðila.
Vegna þess undirbúnings sem fram þarf að fara á yfirstandandi ári óskar menningarmálanefnd eftir því við bæjarráð að kr. 850.000 verði bætt við heimildir nefndarinnar í fjárhagsáætlun ársins 2005.
Bæjarráð samþykkir aukna fjárveitingu til verkefnisins á árinu 2005 að upphæð kr. 850.000. Útgjöldum þessum verði mætt með skerðingu veltufjár.


3 Samband íslenskra sveitarfélaga - afmælisráðstefna
2005110029
Erindi dags. 7. nóvember 2005 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem boðið er til afmælisráðstefnu sambandsins um staðbundið lýðræði í framtíðarljósi, sem haldin verður föstudaginn 2. desember nk. á Grand Hótel Reykjavík og hefst hún kl. 10:00.
Lagt fram til kynningar.


4 Byggðakvóti handa Hrísey - fiskveiðiárið 2005/2006
2005060085
Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneytinu dags. 11. nóvember 2005 þar sem ráðuneytið tilkynnir að það hafi fallist á tillögur um úthlutunarreglur um byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2005/2006.
Lagt fram til kynningar.


5 Jarðskjálftar í Pakistan
2005110014
Tölvupóstur dags. 2. nóvember 2005 frá Elínu M. Hallgrímsdóttur þar sem óskað er eftir því að bæjarfélagið styrki hjálparstarf á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan um kr. 500.000.
Bæjarráð samþykkir framlag til hjálparstarfs Rauðakrossins að upphæð kr. 500.000. Upphæðin greiðist af gjaldliðnum - styrkveitingar bæjarráðs.


6 Landsvirkjun - endurfjármögnun á veltiláni
2005110042
Erindi dags. 11. nóvember 2005 frá Landsvirkjun þar sem óskað er eftir samþykki Akureyrarbæjar vegna endurfjármögnunar á veltiláni (Revolving Credit Facility) fyrirtækisins sem tekið var í júlí 2003.
Bæjarráð samþykkir framkomna beiðni í erindi Landsvirkjunar.


7 Búðargil - orlofshúsabyggð - gatnagerðargjöld
2005110033
Erindi dags. 9. nóvember 2005 frá Njáli T. Friðbertssyni f.h. Sæluhúsa Akureyrar ehf. þar sem hann óskar eftir því við bæjarráð að gatnagerðargjöld af efri hluta lóðarinnar séu greidd í samræmi við það byggingarmagn sem fram hefur komið á skýringarmynd við það deiliskipulag sem samþykkt hefur verið. Einnig óskar hann eftir því að fá að greiða gatnagerðargjöldin í áföngum í samræmi við þá áfangaskiptingu sem lóðarhafi áætlar að verði á framkvæmdinni.
Bæjarráð telur að álagning gatnagerðargjalda eins og hún hefur verið reiknuð út sé í samræmi við gildandi gjaldskrá Akureyrarbæjar. Bæjarráð bendir einnig á að svigrúm er innan ramma gjaldskrárinnar til að verða við óskum um greiðslu gjaldanna í áföngum.


8 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga - endurskoðun
2005110019
Erindi dags. 7. nóvember 2005 frá félagsmálaráðuneytinu þar sem sveitarstjórnum er gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar varðandi endurskoðun á III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ábendingar/athugasemdir þurfa að berast Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir 7. desember nk.
Bæjarráð felur sviðsstjóra stjórnsýslusviðs vinnslu málsins og að leggja drög að svari Akureyrarbæjar fyrir bæjarráð.


9 Álagning gjalda árið 2006 - útsvar
2005110049
Bæjarráð leggur til að útsvarsprósenta í staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2006 í Akureyrarkaupstað verði óbreytt frá fyrra ári eða 13.03% af álagningarstofni.
Bæjarráð vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.


10 Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2006
2005050085
2. liður í fundargerð bæjarstjórnar dags. 8. nóvember 2005:
Fyrir var tekið að nýju frumvarp að fjárhagsáætlun 2006, sem bæjarstjórn vísaði til bæjarráðs og síðari umræðu á fundi sínum þann 8. nóvember sl.
Bæjarstjóri gerði grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram á milli umræðna svo og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.
Endanleg ákvörðun um álagningu fasteignagjalda árið 2006 verður tekin þegar álagningargrunnur liggur fyrir í janúar nk. Jafnframt fari þá fram endurskoðun tekjuviðmiðunar vegna afsláttar til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.


Áætlunin tekur til eftirfarandi þátta:
Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A og B-hluti
Rekstraryfirlit samstæðureiknings
Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar

A-hluta stofnanir:
Aðalsjóður
Fasteignir Akureyrarbæjar
Framkvæmdamiðstöð
Eignasjóður gatna o.fl.

B-hluta stofnanir:
Félagslegar íbúðir
Fráveita Akureyrar
Strætisvagnar Akureyrar
Öldrunarheimili Akureyrar
Framkvæmdasjóður Akureyrar
Norðurorka hf.
Bifreiðastæðasjóður Akureyrar
Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar
Gjafasjóður Hlíðar og Skjaldarvíkur
Hafnasamlag Norðurlands
Heilsugæslustöðin á Akureyri

Tillögur að bókunum:

a) Starfsáætlanir
Bæjarráð felur nefndum og ráðum að yfirfara starfsáætlanir í samráði við stjórnendur og gera á þeim þær breytingar sem nauðsynlegar eru með tilliti til fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar. Stefnt skal að því að ljúka yfirferðinni fyrir lok janúar 2006. Bæjarráð og bæjarstjórn munu þá taka áætlanirnar til umræðu og afgreiðslu.

b) Leikskólar
Frá 1. ágúst 2006 eigi börn frá og með 18 mánaða aldri kost á leikskólaplássi á Akureyri.

c) Miðbær
Bæjarráð lýsir yfir vilja til þess að niðurstöður hugmyndasamkeppni í framhaldi íbúaþingsins Akureyri í Öndvegi nái fram að ganga. Í því skyni verði í upphafi næsta árs hafin skipulagsgerð og unnar samþykktir um fjárhagslega þátttöku bæjarsjóðs í uppbyggingu miðbæjarins.


d) Gjaldskrár
Bæjarráð leggur til að gjaldskrá vegna leikskólagjalda verði óbreytt milli áranna 2005 og 2006.
Gjaldskrá vegna sorphirðugjalda verði eftirfarandi:
Sorphreinsigjald fyrir hverja íbúð kr. 9.600.
Vegna urðunar framleiðsluúrgangs verði gjaldið:
- Sláturúrgangur 5.10 kr./kg.
- Almennur úrgangur óflokkaður kr. 4.20 kr./kg.
- Timbur kr. 2.80 kr./kg.
Þá leggur bæjarráð til að öðrum þjónustugjaldskrám verði breytt til að mæta áhrifum launahækkana og verðlagsbreytinga á rekstrarkostnað. Nefndum, hverri á sínu sviði, verði falið að gera tillögur um gjaldskrárbreytingarnar til staðfestingar bæjarráðs og miðað verði við að þær komi til framkvæmda 1. janúar 2006.

e) Kaup á vörum og þjónustu
Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið til að nýta skatttekjur sveitarfélagins eins vel og kostur er skv. Innkaupastefnu Akureyrarbæjar. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.

Meirihluti bæjarráðs vísar frumvarpinu ásamt framangreindum tillögum til bæjarstjórnar til síðari umræðu og afgreiðslu og lítur svo á að með afgreiðslu frumvarpsins hafi verið afgreidd erindi og tillögur um fjárveitingar sem borist hafa bæjarráði og vísað hefur verið til gerðar fjárhagsáætlunar.


Sigrún Björk Jakobsdóttir og Oktavía Jóhannesdóttur viku af fundi kl. 11.37.


Fundi slitið.