Bæjarráð

5648. fundur 13. janúar 2005
2998. fundur
13.01.2005 kl. 09:00 - 11:50
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Jakob Björnsson formaður
Þórarinn B. Jónsson
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Hermann Jón Tómasson
Jón Erlendsson áheyrnarfulltrúi
Dan Jens Brynjarsson
Ármann Jóhannesson
Karl Guðmundsson
Jón Bragi Gunnarsson
Jón Birgir Guðmundsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 Vinnuhópur um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ
2004040054
Teknar fyrir að nýju tillögur vinnuhóps um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ, sem bæjarráð frestaði afgreiðslu á 6. janúar sl. Einnig lagður fram gátlisti vegna fjölskyldumats í Fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar sem vinnuhópurinn fyllti út. Gerður Jónsdóttir, Valgerður H. Bjarnadóttir og Halla Margrét Tryggvadóttir sátu fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillögur verði samþykktar.
Jafnframt leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að skipaður verði starfshópur um innleiðingu nýs fyrirkomulags á yfirvinnu skv. nýjum verklagsreglum stjórnenda hjá Akureyrarbæ svo og vinnufyrirkomulag starfsmanna Akureyrarbæjar skv. sömu reglum.
Starfshópinn skipi Þórarinn B. Jónsson sem verði formaður, Gerður Jónsdóttir og Valgerður H. Bjarnadóttir ásamt Höllu Margréti Tryggvadóttur starfsmannastjóra og Karli Guðmundssyni sviðsstjóra félagssviðs.
Starfshópurinn skal stýra innleiðingu nýrra verklagsreglna, halda fundi með stjórnendum og skera úr í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma.
Bæjarstjóri setur starfshópnum erindisbréf á grundvelli ofangreindra tillagna.
Hermann Jón Tómasson og Jón Erlendsson óska bókað:
"Við erum sammála þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram í tillögum vinnuhópsins en leggjum áherslu á mikilvægi þess að eftirfarandi verði haft að leiðarljósi þegar kemur að því að vinna að þeim:
Tillögunum er ekki ætlað að lækka laun starfsmanna bæjarins heldur að auka gagnsæi og jafnrétti hvað varðar ákvarðanir um laun einstaklinga og hópa.
Nauðsynlegt er að hafa náið samráð við einstaka starfsmenn eða fulltrúa stéttarfélaga þeirra við framkvæmd tillagnanna og þegar leysa þarf úr ágreiningi sem upp getur komið.
Nýta þarf vel þau færi sem gefast í kjarasamningum til þess að leysa ágreiningsmál sem tengjast framkvæmd tillagnanna t.d. til að færa umsamda fasta yfirvinnu inn í grunnlaun þar sem það á við.
Áhersla verði lögð á að starfsmönnum sé gefinn rúmur tími til þess að laga sig að þeim breytingum sem í tillögunum felast."2 Borgarsíða 19 - sala
2005010052
Lagt fram kauptilboð í Borgarsíðu 19.
Bæjarráð samþykkir kauptilboðið.3 Náttúrulækningafélag Íslands - þakkarbréf
2002030112
Lagt fram bréf dags. 5. janúar 2005 frá Gunnlaugi K. Jónssyni f.h. Náttúrulækningafélags Íslands þar sem tilkynnt er um sölu Kjarnalundar, fast.nr. 215-2246. Jafnframt þakkar hann f.h. félagsins fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum við Akureyrarbæ.
Lagt fram til kynningar.


4 Brautargengi 2005
2005010047
Erindi dags. 7. janúar 2005 frá Impru nýsköpunarmiðstöð þar sem óskað er fjárstuðnings Akureyrarbæjar vegna námskeiðsins Brautargengi 2005.
Bæjarráð samþykkir að styrkja þátttöku allt að 15 kvenna sem lögheimili eiga á Akureyri til þátttöku í námskeiðinu Brautargengi 2005 með kr. 50.000 fyrir hvern þátttakanda eða allt að kr. 750.000 sem greiðast úr Framkvæmdasjóði.


5 Norðurskel ehf. - verðmat á Sævari 1541 og aðkoma að félaginu
2004120022
Tekið fyrir að nýju erindi dags. 6. desember 2004 frá Norðurskel ehf., sem bæjarráð frestaði afgreiðslu á 9. desember sl.
Bæjarráð heimilar bæjarstjóra að ganga til samninga við væntanlega hluthafa Norðurskeljar ehf. um hlutafjárþátttöku Framkvæmdasjóðs Akureyrarbæjar í fyrirtækinu.


6 Álagning fasteignagjalda árið 2005
2004110039
Gerð er tillaga um að á árinu 2005 verði eftirtalin gjöld lögð á fasteignir á Akureyri:

a) Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis verði 0,35% af fasteignamati húsa og lóða.
b) Fasteignaskattur atvinnuhúsnæðis verði 1,55% af fasteignamati húsa og lóða.
c) Lóðarleiga verði 0,5% af fasteignamati lóða fyrir íbúðarhúsnæði.
d) Lóðarleiga verði 2,8% af fasteignamati lóða vegna atvinnuhúsnæðis.
e) Vatnsgjald verði 0,16% af fasteignamati húsa og lóða.
f) Holræsagjald verði 0,20% af fasteignamati húsa og lóða.

Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2005 eru átta, 1. dagur hvers mánaðar frá febrúar til september.


Reglur um afslátt af fasteignaskatti hjá Akureyrarbæ

1. gr.
Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili á Akureyri er veittur afsláttur af fasteignaskatti, samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

2. gr.
Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur á Akureyri sem búa í eigin íbúð og:
a) eru 67 ára á árinu eða eldri
eða
b) hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar.
Afsláttur nær einungis til þeirrar íbúðar sem viðkomandi býr í.

3. gr.
Hjón og samskattað sambýlisfólk fær fullan afslátt þó einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2. gr.
Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.

4. gr.
Afsláttur af fasteignaskatti er tekjutengdur og er allt að kr. 33.600. Afsláttur er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekna síðastliðins árs, samkvæmt skattframtali. Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og samskattaðs sambýlisfólks.

5. gr.
Tekjumörk eru sem hér segir:

Fyrir einstaklinga
a) með tekjur allt að kr. 1.552.500 fullur afsláttur skv. 4. gr.
b) með tekjur yfir kr. 2.277.000 enginn afsláttur.

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk
a) með tekjur allt að kr. 2.200.000 fullur afsláttur skv. 4. gr.
b) með tekjur yfir kr. 3.000.000 enginn afsláttur.

Ef tekjur eru á framangreindu bili er veittur hlutfallslegur afsláttur.

6. gr.
Hafi orðið veruleg breyting á högum umsækjanda er fjárreiðudeild heimilt að víkja frá 2. og 4 gr. þessara reglna varðandi búsetu í íbúð og viðmið um tekjumörk sl. árs.
Hér er einkum átt við sérstök tilvik, s.s.:
a) þegar maki hefur fallið frá á árinu og tekjur lækkað verulega.
b) ef um skyndilega örorku er að ræða sem hefur veruleg áhrif til lækkunar tekna.
c) einnig er heimilt að lækka fasteignaskatt í allt að 3 ár hjá þeim sem flutt hafa úr eigin íbúð á öldrunarstofnun en eiga áfram íbúð, sem ekki er leigð út eða nýtt af skyldmennum.
Lækkun samkvæmt þessari grein skal staðfest af sviðsstjóra stjórnsýslusviðs.

7. gr.
Sækja skal um afslátt af fasteignaskatti á eyðublöðum sem liggja frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 1. hæð. Eyðublöðin má einnig nálgast á heimasíðu Akureyrarbæjar www.akureyri.is. Með umsókn skal skila afriti af skattframtali síðastliðins árs, staðfestu af skattstjóra ásamt örorkuskírteini þegar það á við.

8. gr.
Bæjarstjórn Akureyrar endurskoðar tekjumörk í desember ár hvert.

Bæjarráð vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.Fundi slitið.