Bæjarráð

5109. fundur 24. júní 2004
2972. fundur
24.06.2004 kl. 09:00 - 11:33
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Jakob Björnsson formaður
Þórarinn B. Jónsson
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Oktavía Jóhannesdóttir
Jón Erlendsson áheyrnarfulltrúi
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 SVA endurskoðun rekstrar
2002100002
1. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 18. júní 2004.
Lögð fram greinargerð vinnuhóps um endurskoðun rekstrar SVA "Allir með strætó".
Framkvæmdaráð gerði stefnumarkandi tillögur í greinargerð vinnuhópsins að sínum og vísaði þeim til afgreiðslu bæjarráðs.
Guðmundur Sigvaldason verkefnastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir afgreiðslu framkvæmdaráðs. Einnig staðfestir bæjarráð þær aðgerðir á árinu 2004 sem fram koma á bls. 14 og 15 í greinargerðinni varðandi einföldun leiðakerfis og upplýsingar um það, markaðsátak og minnkaðan kvöldakstur. Þá samþykkir bæjarráð viðbótarframlag til reksturs SVA á árinu 2004 vegna markaðsátaks að upphæð 2 milljónir króna.


2 Umsóknir um sumarstörf 2004
2003070033
2. liður í fundargerð framkvæmdaráðs dags. 18. júní 2004 varðandi fjölda umsókna í unglingavinnu, sumarvinnu skólafólks 16 ára og sumarvinnu fatlaðs skólafólks. Miðað við fjölda umsókna og fyrirliggjandi ákvarðanir bæjarstjórnar um launagreiðslur og vinnumagn sumarvinnu 2004 er þörf á aukafjárveitingu að upphæð 11.9 milljónir króna.
Framkvæmdaráð vísaði beiðni um aukafjárveitingu til bæjarráðs.
Bæjarráð heimilar ráðningu umsækjenda um sumarstörf 2004 í samræmi við fyrri samþykktir, en frestar afgreiðslu hugsanlegrar viðbótarfjárveitingar þar til endanleg uppgjör liggja fyrir.


3 Sala félagslegra íbúða - 2004
2004010015
Lögð fram kauptilboð í Fögrusíðu 11A og Fögrusíðu 11E.
Bæjarráð samþykkir kauptilboðin.


4 Greið leið ehf. - aðalfundur 2004
2004060048
Erindi dags. 7. júní 2004 frá Greiðri leið ehf. þar sem boðað er til aðalfundar þann 28. júní nk. að Strandgötu 29 kl. 15:00. Einnig lagður fram ársreikningur fyrir árið 2003.
Bæjarráð felur Dan Jens Brynjarssyni sviðsstjóra stjórnsýslusviðs að fara með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.


5 Útleiga húsnæðis í grunnskólum og æskulýðs- og íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar
2003050072
2. liður í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs dags. 12. maí 2004 og 9. liður í fundargerð skólanefndar dags. 7. júní 2004 varðandi tillögu að endurskoðuðum reglum og gjaldskrá fyrir leigu húsnæðis til gistihópa í grunnskólum og æskulýðs- og íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar. Skólanefnd og íþrótta- og tómstundaráð samþykktu tillöguna fyrir sitt leyti.
Bæjarráð samþykkir reglurnar og gjaldskrárnar með áorðnum breytingum.
Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu.6 Öldrunarþjónusta - samningar við nágrannasveitarfélög
2004010001
11. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 14. júní 2004.
Lögð fram drög að samningum við nágrannasveitarfélög þ.e. Þingeyjarsveit, Arnarneshrepp, Eyjafjarðarsveit, Grímseyjarhrepp, Grýtubakkahrepp, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhrepp um aðgang íbúa þeirra að Öldrunarstofnun Akureyrarbæjar.
Félagsmálaráð leggur til við bæjarráð að samningarnir verði samþykktir.
Bæjarráð samþykkir samningana.


7 Austurbyggð 17 - Hlíð - breyting á AS - deiliskipulag
2003100026
2. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 23. júní 2004.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að nýju tillögu að deiliskipulagi lóðar dvalarheimilisins Hlíðar og nágrennis, sem auglýst var 5. mars 2004 skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, með þeirri breytingu að við bætist gangstétt austan Þórunnarstrætis frá Hrafnagilsstræti að FSA. Jafnframt verði ítrekað svar við athugasemd frá VMA eins og það er bókað í fundargerð ráðsins 28. apríl 2004. Umhverfisdeild verði falið að annast staðfestingar- og gildistökuferli deiliskipulagsins.
Bæjarráð samþykkir tillögu umhverfisráðs. Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 3. lið fundargerðar bæjarstjórnar dags. 15. júní 2004.


8 Sumarstörf hjá Akureyrarbæ 2004
2004020056
Lagðar fram niðurstöður könnunar á atvinnuhorfum 17 ára og eldri með lögheimili á Akureyri sumarið 2004, í framhaldi af bókun bæjarráðs 27. maí 2004 svohljóðandi: "Bæjarráð felur starfsmannastjóra að láta gera könnun í byrjun júní nk. á því hversu margir eru þá enn án atvinnu og hefja undirbúning að því að tryggja 17 ára og eldri með lögheimili á Akureyri 6 vikna vinnu í sumar. Niðurstaða könnunarinnar verði lögð fyrir bæjarráð og í framhaldi tekin ákvörðun um átaksverkefni í sumar."
Einnig var lögð fram á fundinum afgreiðsla á úthlutun Atvinnuleysistryggingasjóðs á styrkumsókn um átaksverkefni á Akureyri.
Bæjarráð samþykkir að þeim einstaklingum, sem samkvæmt könnuninni höfðu ekki fengið sumarstarf, verði boðin störf í 6 vikur. Ákvörðun um hugsanlega viðbótarfjárveitingu er frestað þar til uppgjör liggur fyrir.


9 Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðis 2004-2007
2004060081
Erindi dags. 16. júní 2004 frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þar sem kynnt eru lokadrög Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðis 2004-2007.
Bæjarráð frestar afgreiðslu.


10 Félag harmonikuunnenda við Eyjafjörð - styrkbeiðni
2004060060
Erindi dags. 14. júní 2004 frá Sigurði Indriðasyni f.h. F.H.U.E. þar sem óskað er eftir styrk vegna Færeyjarferðar í júlí nk.
Bæjarráð samþykkir styrk að upphæð kr. 200.000 vegna norræns samstarfs. Fjárveiting verði tekin af liðnum "styrkveiting bæjarráðs".


11 Framkvæmdaáætlun ÍTA 2005-2008
2004060019
1. liður í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs dags. 22. júní 2004.
Fyrir fundinum lágu drög að samningum vegna framkvæmdaáætlunar ÍTA 2005-2008. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti fyrirliggjandi samninga.
Ráðið óskar eftir afstöðu bæjarráðs til fyrirliggjandi samninga.
Bæjarráð frestar afgreiðslu.


12 Vátryggingafélag Íslands - ósk um viðræður
2004060066
Lagt fram erindi dags. 11. júní 2004 þar sem óskað er eftir að VÍS fái að koma að viðræðum um nýjan vátryggingasamning Akureyrarbæjar frá og með næstu áramótum 2004/2005.
Í gildi er vátryggingasamningur milli Akureyrarbæjar og Sjóvá Almennra trygginga. Sá samningur rennur út 31. desember 2005. Akureyrarbær mun því á næsta ári gera nýjan vátryggingasamning er taki gildi frá 1. janúar 2006, að undangengnu útboði í samræmi við innkaupareglur Akureyrarbæjar. Bæjarráð getur því ekki orðið við erindi bréfritara um viðræður.
Þórarinn B. Jónsson tók ekki þátt í afgreiðslunni.13 Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga - sala og leiga fasteigna
2004060070
Lagt fram dreifibréf sem sent er til allra sveitarfélaga frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga þar sem vakin er athygli á ákvæðum 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 um sölu á fasteignum sem nauðsynlegar eru til að sveitarfélög geti rækt lögskyld verkefni sín.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið.