Bæjarráð

2128. fundur 21. júní 1999

Bæjarráð 21. júní 1999.

2749. fundur.
Ár 1999, mánudaginn 21. júní kl. 10.00 kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar að Geislagötu 9, 4. hæð.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamaður sátu fundinn ásamt bæjarstjóra.
Þetta gerðist:
1. Sviðsstjóri félagssviðs.
BR990508
Lögð voru fram til kynningar drög að erindisbréfi fyrir sviðsstjóra félagssviðs.
Til fundar við bæjarráð kom Karl Guðmundsson umsækjandi um starf sviðsstjóra félagssviðs.
Meiri hluti bæjarráðs samþykkir að ráða Karl Guðmundsson í starf sviðsstjóra félagssviðs.
Oktavía Jóhannesdóttir formaður félagsmálaráðs sat fundinn undir þessum lið.
2. Starfsmannastefna bæjarstjórnar Akureyrar.
BR990537
Frestað í bæjarstjórn 15. júní s.l. og samþykkt að bæjarráð fái heimild til fullnaðarafgreiðslu.
Lögð er til eftirfarandi breyting - í stað 7.2. í fyrirliggjandi drögum komi:
7.2 að almennir starfsmenn Akureyrarbæjar láti af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára.
7.3. að það sé meginstefna að forstöðumenn og deildarstjórar stærstu málasviða og sviðsstjórar láti af þeim störfum þegar þeir verða 65 ára en eigi þess þá kost að fá önnur störf og jafnframt möguleika á að minnka við sig starfshlutfall. Þau störf sem hér um ræðir verða tilgreind samkvæmt lista sem bæjarráð samþykkir og endurskoðar reglulega og verður hluti af ráðningarsamningi í viðkomandi starf. Samkomulag um nýtt starf skal liggja fyrir a.m.k. 6 mánuðum áður en framangreint ákvæði kemur til framkvæmda.
7.4. Sviðsstjórar verði ráðnir til 5 ára í senn með möguleika á endurráðningu.
Bæjarráð staðfestir Starfsmannastefnu bæjarstjórnar Akureyrar með framangreindum breytingum.
3. Framkvæmdanefnd. Fundargerð dags. 14. júní 1999.
BR990585
Fundargerðin er í 13 liðum.
3. liður: Flutningur bæjarstofnana að Rangárvöllum.
Einnig lagðar fram 1.-10. fundargerð í verkefnisstjórn vegna flutninga Rafveitu Akureyrar að Rangárvöllum og tillaga að heildarlausn og lauslegt kostnaðarmat frá Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf.
Bæjarráð frestar ákvörðun um eignarform bygginga að Rangárvöllum, en samþykkir liðinn að öðru leyti.
6. liður: Framkvæmdir í Ketilhúsi.
Bæjarráð samþykkir liðinn.
Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar.
4. Stjórn veitustofnana. Fundargerð dags. 16. júní 1999.
BR990584
Fundargerðin er í 3 liðum.
1. liður: Tillaga frá veitustjórunum Franz Árnasyni og Svanbirni Sigurðssyni um að stofnað verði hlutafélag er eigi og reki húseignir á vegum veitna og Bæjarsjóðs við Rangárvelli, sem stjórn veitustofnana vísaði til umræðu í bæjarráði.
Sjá afgreiðslu bæjarráðs við 3. lið í fundargerð framkvæmdanefndar hér að framan.
Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar.
5. Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar h.f. Aðalfundarboð 22. júní 1999.
BR990577
Með bréfi dags. 11. júní s.l. boðar Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar h.f. til aðalfundar fyrir árið 1998 þriðjudaginn 22. júní 1999 að Fosshóteli KEA kl. 16.00.
Bæjarráð samþykkir að formaður bæjarráðs sæki fundinn.
6. Markaðsskrifstofa Akureyrar. Götusala í miðbæ á Halló Akureyri 1999.
BR990488
Með bréfi dags. 18. maí s.l. óskar Ferðamálafélag Eyjafjarðar eftir því að fá heild til þess að fella götu- og torgsölu í miðbænum undir skipulag hátíðarinnar Halló Akureyri 1999. Er í bréfinu vísað til heimildar í 8. gr. reglna bæjarstjórnar um götu- og torgsölu, en samkvæmt henni getur Akureyrarbær með viku fyrirvara tekið umrædd svæði frá ef sérstakir viðburðir gera það nauðsynlegt.
Bæjarráð samþykkir að nýta 8. gr. samþykktar um götu- og torgsölu og taka frá alla sölureiti sem ekki eru í fastri útleigu í göngugötunni í Hafnarstræti og á Ráðhústorgi dagana 29. júlí til og með 2. ágúst n.k., jafnframt því er Ferðamálafélagi Eyjafjarðar heimilað að ráðstafa þeim til einstakra söluaðila og fella þá þar með undir skipulag hátíðarinnar "Halló Akureyri 1999". Í heimildinni felst einnig að Ferðamálafélagið skal hafa eftirlit með því að söluaðilar uppfylli skilyrði þeirra laga og reglugerða sem við eiga, hafi tilskilin leyfi og þrífi umrædd svæði og umhverfi þeirra í lok hvers söludags.
Bæjarverkfræðingi er falið að auglýsa framanritað með venjubundnum hætti.
7. Launanefnd sveitarfélaga. Fundargerð dags. 21. maí 1999.
BR990569
Fundargerðin er í 8 liðum og er lögð fram til kynningar.
8. Félag íslenskra leikskólakennara. Samþykktir og ályktanir fulltrúaráðsþings.
BR990571
Með bréfi dags. 21. maí s.l. frá Félagi íslenskra leikskólakennara fylgja samþykktir og ályktanir sem samþykktar voru á 11. fulltrúaráðsþingi félagsins sem haldið var 14. og 15. maí s.l.
Bæjarráð vísar erindinu til skólanefndar.
9. Íþróttasamband fatlaðra. Styrkumsókn.
BR990581
Erindi dags. 5. júní s.l. frá Íþróttasambandi fatlaðra þar sem sótt er um styrk vegna þátttöku 4ra einstaklinga frá Akureyri í alþjóðaleikum Special Olympics fyrir þroskahefta sem fram fer í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum 21. júní til 5. júlí n.k.
Bæjarráð samþykkir að veita styrk að upphæð kr. 100.000.
10. Reynsluverkefnanefnd. Fundargerð dags. 14. júní 1999.
BR990579
Fundargerðin er í 2 liðum og er lögð fram til kynningar.
11. Sumarvinna. Staða ráðninga.
BR990503
Samkvæmt ákvörðun bæjarráðs frá 27. maí s.l. var starfsmannastjóra falið að gera könnun á atvinnuhorfum námsmanna 17 ára og eldri.
Samkvæmt greinargerð starfsmannastjóra hafa 29 ekki fengið vinnu, 15 karlar og 14 konur.
Bæjarráð samþykkir að þessu atvinnulausa skólafólki verði boðin 6 vikna (eða 240 klst.) vinna í sumar á vegum Akureyrarbæjar.
Gert er ráð fyrir að fjármögnun rúmist innan ramma fjárhagsáætlunar.
Sigríður Stefánsdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs sat fundinn undir þessum lið.
Fundi slitið kl. 12.25.

Ásgeir Magnússon
Sigurður J. Sigurðsson
Jakob Björnsson
Valgerður Hrólfsdóttir
Kristján Þór Júlíusson
Heiða Karlsdóttir
-fundarritari-