Bæjarráð

2137. fundur 26. ágúst 1999

Bæjarráð 26. ágúst 1999.
2758. fundur.


Ár 1999, fimmtudaginn 26. ágúst kl. 09.00 kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar að Geislagötu 9, 4. hæð.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamaður sátu fundinn ásamt bæjarstjóra og sviðsstjórunum Sigríði Stefánsdóttir og Karli Guðmundssyni.

Þetta gerðist:

1. Skólanefnd. Fundargerðir dags. 16. og 23. ágúst 1999.

   BR990746

   Fundargerðin frá 16. ágúst er í 4 liðum og gefur ekki tilefni til ályktunar.
   Fundargerðin frá 23. ágúst er í 7 liðum.

   1. liður: Vegna bókunar skólanefndar vísar bæjarráð til greinagerðar með endurskoðun fjárhagsáætlunar sem samþykkt var á síðasta fundi bæjarstjórnar, en þar segir undir lið 02 Leikskólar: Bæjarráð samþykkir viðbótarfjárveitingu vegna launaliða og reksturs nýs leikskóla .

   Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og sviðsstjóra félagssviðs að fara ofan í málið.

   4. liður: Leikskólinn Móasíðu - aldurssamsetning.

   Bæjarráð mælist til þess að börn á aldrinum 2ja ára og eldri hafi forgang að plássum leikskólans.

   Oddur H. Halldórsson óskar bókað að hann er á móti því að börn yngri en 2ja ára séu tekinn inn á leikskóla.

   6. liður: Skólavistun og gjaldskrá.

   Bæjarráð samþykkir að vísa breytingum á gjaldskrá fyrir skólavistun til afgreiðslu bæjarstjórnar.

   Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar.

   Sigríður Síta Pétursdóttir deildarstjóri leikskóladeildar sat fundinn undir þessum lið.

    

2. Skipulagsnefnd. Fundargerðir dags. 11. og 13. ágúst 1999.
   BR990748

   Fundargerðin frá 11. ágúst er í 1 lið og gefur ekki tilefni til ályktunar.
   Fundargerðin frá 13. ágúst er í 12 liðum.

   11. lið fundargerðarinnar: 30 km hverfi, áætlun um lækkun umferðarhraða í íbúðarhverfum, er vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.

   Bæjarráð samþykkir aðra liði fundargerðarinnar að svo miklu leyti sem þeir gefa tilefni til ályktunar.

    

3. Húsnæðisnefnd. Fundargerð dags. 19. ágúst 1999.
   BR990758

   Fundargerðin er í 4 liðum og gefur ekki tilefni til ályktunar.

      
4. Félagsmálaráð. Fundargerð dags. 23. ágúst 1999.
   BR990763

   Fundargerðin er í 8 liðum og gefur ekki tilefni til ályktunar.

      
5. Menningarmálanefnd. Fundargerð dags. 19. ágúst 1999.
   BR990759

   Fundargerðin er í 4 liðum.

   1. liður: Endurskoðun fjárhagsáætlunar 1999.
   Lagðar voru fram upplýsingar um fjárhagsstöðu Listasafnsins.

   Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara ofan í málið.

   Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar.

    

6. Framkvæmdanefnd. Fundargerð dags. 23. ágúst 1999.
   BR990761

   Fundargerðin er í 7 liðum.

   5. liður: Amtsbókasafn. Skipun verkefnisliðs.

   Bæjarráð tilnefnir Ásgeir Magnússon í verkefnisliðið.

   Bæjarráð samþykkir aðra liði fundargerðarinnar að svo miklu leyti sem þeir gefa tilefni til ályktunar .

      
7. Áfengis- og vímuvarnanefnd. Fundargerð dags. 17. ágúst 1999.
   BR990750

   Fundargerðin er í 7 liðum og er lögð fram til kynningar.

      
8. Menningarhús.
   BR990039

   Lögð var fram fundargerð starfshóps um menningarhús dags. 17. ágúst 1999 ásamt drögum að þarfagreiningu og rýmisáætlun.
   Fundargerðin er í 5 liðum og er lögð fram til kynningar.

      
9. Eignarhlutur Akureyrarbæjar í Ú.A.
   BR990659

   Aðeins eitt tilboð barst í hlutabréf Akureyrarbæjar í Útgerðarfélagi Akureyringa h.f. innan auglýsts frests, frá Vátryggingafélagi Íslands h.f.

   Bæjarráð hafnar tilboði frá Vátryggingafélagi Íslands h.f. í hlutabréf Akureyrarbæjar í Útgerðarfélagi Akureyringa h.f. að nafnverði 4.000.000 króna.

   Bæjarfulltrúi Þórarinn B. Jónsson óskar bókað að hann tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

   Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita tilboða í hlutabréf bæjarins í Útgerðarfélagi Akureyringa h.f. hjá þeim aðilum sem hafa óskað eftir að kaupa öll bréfin, eftir að auglýstur tilboðsfrestur rann út.

      
10. Birna M. Arnþórsdóttir. Athugasemdir vegna "Halló Akureyri".
   BR990742

   Lagt var fram bréf frá Birnu Margréti Arnþórsdóttur, þar sem hún kemur á framfæri við bæjaryfirvöld athugasemdum vegna "Halló Akureyri".

   Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

      
11. Leikskólastjórar. Vinnuskylda á deild.
   BR990744

   Lögð voru fram ýmis gögn varðandi vinnuskyldu leikskólastjóra á deild. Áður á dagskrá skólanefndar 9. ágúst s.l. og bæjarráðs 12. ágúst s.l.

   Bæjarráð sér ekki ástæðu til breytinga á núverandi vinnufyrirkomulagi leikskólastjóra að svo stöddu.

    

12. Deildarstjóri og leikskólaráðgjafar á leikskóladeild. Mótmæli vegna vinnubragða við breytingar á stjórnsýslukerfi Akureyrarbæjar.
   BR990747

   Lagt fram bréf dags. 16. ágúst s.l. frá deildarstjóra leikskóladeildar og 3 leikskólaráðgjöfum, þar sem mótmælt er harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í þeim skipulagsbreytingum sem eiga sér stað á félagssviði (fyrrverandi fræðslu- og frístundasviði).

   Með samþykkt um stjórnkerfisbreytingar Akureyrarbæjar var leikskólanefnd Akureyrarbæjar sameinuð skólanefnd og málefni leikskólanna þar með felld undir þá nefnd. Breytingar sem samþykktar voru á þessu og s.l. ári um sameinað félagssvið miða að því að einstaklingsráðgjöf verði best samhæfð undir einni yfirstjórn innan fjölskyldudeildar, en skóladeild annist önnur málefni er lúta að leik- og grunnskólunum. Samið hefur verið um að Háskólinn á Akureyri veiti leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar stofnanaráðgjöf.

   Það hefur því verið ljóst um nokkurn tíma að ekki hefur verið gert ráð fyrir að sérstök leikskóladeild verði starfrækt innan félagssviðs og þær tilfærslur á núverandi starfsmönnum leikskóladeildar sem kynntar hafa verið, eru í samræmi við stefnumótun Bæjarstjórnar Akureyrar.

   Tekið skal fram að þrátt fyrir þessar stjórnkerfisbreytingar er gert ráð fyrir að leikskólarnir fái a.m.k. hliðstæða þjónustu og verið hefur hingað til.

      
13. Leikskólastjórar. Athugasemdir vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda að leggja niður leikskóladeild Akureyrarbæjar.
   BR990760

   Erindi dags. 19. ágúst s.l. undirritað af 15 leikskólastjórum með athugasemdum vegna þeirrar ákvörðunar bæjaryfirvalda að leggja niður leikskóladeild Akureyrarbæjar. Sjá bókun við 12. lið.

    

14. Svæðisskipulag Eyjafjarðar 1998-2010.
   BR990572

   Lagðar voru fram athugasemdir skipulagsstjóra Akureyrarbæjar dags. 23. ágúst 1999 við lokadrög að greinargerð Svæðisskipulags Eyjafjarðar dags. 25. maí 1999.

   Bæjarráð vísar drögunum til afgreiðslu bæjarstjórnar.

      
15. Sameining sveitarfélaga.
   BR990163

   Bæjarráð vísar tilnefningu fulltrúa Akureyrarbæjar í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga til afgreiðslu bæjarstjórnar.

      
16. Brunabótafélag Íslands. Ágóðahlutagreiðsla 1999.
   BR990751

   Með bréfi dags. í ágúst tilkynnir Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands um ágóðagreiðslu fyrir árið 1999. Hlutdeild Akureyrarbæjar er kr. 14.088.100 og verður til greiðslu 15. október n.k.

      
17. Fjölskylduráð. Spurningar varðandi fjölskyldustefnu.
   BR990756

   Erindi dags. 20. ágúst s.l. frá Fjölskylduráði, sem félagsmálaráðherra skipaði á síðasta ári, sbr. þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu þessara mála hjá Akureyrarbæ. Meðfylgjandi er spurningablað sem óskast útfyllt og sent Fjölskylduráði fyrir 20. september n.k.

   Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálaráðs.

    

18. Lögver ehf. Eyjafjarðará - ósasvæði.
   BR990755

   Lagt var fram bréf dags. 16. ágúst s.l. frá Jóni Sigfúsi Sigurjónssyni hdl., en hann ásamt Kristni Einarssyni vatnafræðingi voru dómkvaddir sem matsmenn af Héraðsdómi Norðurlands eystra 20. maí s.l., til að framkvæma mat á því hvað teljist vera umráðasvæði Veiðifélags Eyjafjarðarár við ósa árinnar gagnvart veiði á laxi og silungi. Tilkynnt er um vettvangsgöngu til matsgerðar og fund um matsgerðina sunnudaginn 29. ágúst n.k. og Akureyrarbæ gefinn kostur á að senda fulltrúa.

   Bæjarráð tilnefnir bæjarverkfræðing ásamt lögmanni sem fulltrúa Akureyrarbæjar við vettvangsgöngu og fund um matsgerð.

    

19. Önnur mál.
   BR990735
     a) Halló Akureyri . Lagðar voru fram greinargerðir frá ráðgjafardeild Akureyrarbæjar, Ferðamálafélagi Eyjafjarðar, Íslenskri verkefnastjórnun ehf., Héraðslækni Norðurlands, Foreldravaktinni á Akureyri og Friðriki Vagni Guðjónssyni heimilislækni.

     Bæjarráð samþykkir að skipaður verði fimm manna starfshópur sem í verði formenn eftirtalinna nefnda: félagsmálaráðs, atvinnumálanefndar, skólanefnd, íþrótta- og tómstundaráðs, umhverfisnefndar og áfengis- og vímuvarnarnefndar. Starfshópurinn safni saman upplýsingum hver á sínu sviði um framkvæmd hátíðarinnar Halló Akureyri og skili greinargerð og tillögum um framtíð þessa viðburðar til bæjarráðs.

     b) Rætt var um málefni innanlandsflugs.

     c) Oddur H. Halldórsson spurðist fyrir um byggingaframkvæmdir við Strýtu í Hlíðarfjalli

Fundi slitið kl. 12.22.

Ásgeir Magnússon
Þórarinn B. Jónsson
Valgerður Hrólfsdóttir
Jakob Björnsson
Oddur H. Halldórsson
Kristján Þór Júlíusson

Heiða Karlsdóttir
- fundarritari -