Bæjarráð

2614. fundur 05. mars 1998

Bæjarráð 5. mars 1998.


2685. fundur.

Ár 1998, fimmtudaginn 5. mars kl. 09.00, kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar í Geislagötu 9.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamenn sátu fundinn ásamt formanni bæjarráðs, bæjarritara, bæjarverkfræðingi, félagsmálastjóra og fræðslumálastjóra.

Þetta gerðist:

1. Héraðsnefnd Eyjafjarðar. Fundargerðir, fjárhagsáætlanir o.fl.
BR980210
Lagt var fram bréf dags. 26. febrúar frá héraðsnefnd Eyjafjarðar. Bréfinu fylgja:
Fundargerð héraðsnefndar dags. 3. desember 1997.
Fundargerðir héraðsráðs dags. 10. desember 1997 og 28. janúar 1998.
Skýrsla oddvita héraðsnefndar.
Fjárhagsáætlun héraðsnefndar árið 1998.
Fjárhagsáætlun Sorpeyðingar Eyjafjarðar b.s. 1998.
Kostnaðaráætlun Ferðamálamiðstöðvar Eyjafjarðar 1998.

2. Eyþing. Fundargerðir stjórnar dags. 6. og 23. febrúar.
BR980194
Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

3. Hafnasamlag Norðurlands b.s. Fundargerð stjórnar dags. 2. mars.
BR980217
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.
Bæjarráð getur ekki fallist á bókun stjórnarinnar í 2. lið og felur bæjarstjóra að koma sjónarmiðum bæjarráðs á framfæri við stjórnina.

4. Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Fundargerðir stjórnar dags. 14. nóvember 1997
og 7. febrúar 1998.
BR980206
Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

5. Framlag til byggingar skautahúss.
BR980195
Lagt var fram bréf dags. 25. febrúar frá Vetraríþróttamiðstöð Íslands, þar sem tilkynnt er sú ákvörðun stjórnarinnar að leggja fram á næstu árum kr. 50 milljónir
til byggingar skautahúss, enda náist samningar milli Akureyrarbæjar og Skautafélags Akureyrar um rekstur, uppbyggingu og eignarhald á mannvirkjum.

6. Skýrsla með tillögum um unglingavinnu á vegum Akureyrarbæjar.
BR980218
Lögð var fram skýrsla ásamt tillögum um unglingavinnu á Akureyri, unnin af starfshópi, sem bæjarráð skipaði 11. desember s.l. til þess að gera tillögur um framtíðarskipan unglingavinnu á vegum bæjarins.
Á fundinn komu Eiríkur B. Björgvinsson og Jóhann Thorarensen, sem unnu að skýrslugerðinni. Skýrðu þeir skýrsluna og þær tillögur, sem þar koma fram.
Fram fóru umræður um tillögur starfshópsins og komu fram ábendingar við nokkur atriði í þeim.
        Bæjarráð felur Eiríki og Jóhanni að gera áætlun um framkvæmd tillagnanna og kostnað við þær og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarritara er falið að senda umhverfisnefnd skýrsluna til umfjöllunar.

7. Aðgengi nágrannasveita að öldrunarstofnunum Akureyrarbæjar.
BR980219
Lagðir voru fram nokkrir minnispunktar frá fundi, sem félagsmálastjóri og deildarstjóri búsetu- og öldrunardeildar áttu með fulltrúum þriggja sveitarfélaga í nágrenni Akureyrar.
Á fundinum voru ræddar nýjar hugmyndir að samningi um aðgengi nágranna-
sveitarfélaga að öldrunarstofnunum Akureyrarbæjar.

8. Samræmdar reglur um leigu á íbúðum Akureyrarbæjar.
BR980220
Með tilvísun til bókunar bæjarráðs 19. febrúar, þar sem óskað er eftir að húsnæðis-nefnd og félagsmálaráð móti samræmdar reglur um leigu á íbúðum bæjarins, lagði félagsmálastjóri fram bréf dags. 2. mars. Í bréfinu er greint frá fundi, sem formenn nefndanna o.fl. héldu um málið. Töldu fundarmenn réttast að bíða átekta þar til afgreitt hefði verið á Alþingi frumvarp, sem félagsmálaráðherra hefir nýlega lagt fram um húsnæðismál.
Bæjarráð leggur áherslu á nánara samstarf nefndanna um leigu á íbúðum bæjarins og óskar eftir að tillögur að samræmdum reglum geti legið fyrir áður en langt um líður.

9. Fæðingarorlof karla.
BR980212
Lagt var fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til sveitarstjórna, þar sem minnt er á breytingu á lögum um fæðingarorlof á þann veg að feður eiga rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi frá og með 1. febrúar 1998. Bréfinu fylgir tillaga að leiðbeinandi reglum um greiðslur vegna lögboðins fæðingarorlofs feðra, sem mælt er með að teknar verði upp hjá sveitarfélögum landsins og nái til allra starfsmanna óháð stéttarfélagsaðild.
Bæjarráð óskar umsagnar kjarasamninganefndar og starfsmannastjóra um tillöguna.

10. Aksjón ehf. Sjónvarpsútsendingar frá bæjarstjórnarfundum.
BR980158 og BR980222
Lagt var fram bréf dags. 13. febrúar frá Aksjón ehf. um sjónvarpsútsendingar frá bæjarstjórnarfundum. Þar er lagt til í ljósi reynslusendinga að horfið verði frá hugmyndum um beina útsendingu frá fundunum, en þess í stað verði fundirnir teknir upp og sjónvarpað að kvöldi fundardagsins. Akureyrarbær fær ótakmarkaðan aðgang að upptökum, en greiði þess í stað mánaðarlegan styrk til verksins.
Á fundinn kom bæjarlögmaður og lagði fram drög að samningi við Aksjón ehf. um heimild til sjónvarpsupptöku á bæjarstjórnarfundum og um kaup bæjarins á mynd- og hljóðupptökum.
Bæjarráð fellst á samningsdrögin í meginatriðum og heimilar bæjarstjóra að ganga frá samningi við Aksjón ehf. að teknu tilliti til nokkurra athugasemda, sem fram komu.

11. Bygging félagslegra íbúða við Snægil.
BR980120, BR980196, BR980227
Tekinn var fyrir 5. liður í fundargerð bæjarráðs 19. febrúar, sem bæjarstjórn vísaði aftur til bæjarráðs. Um er að ræða heimild til húsnæðisnefndar til að semja án útboðs við Byggingafélagið Hyrnu ehf. um byggingu 16 félagslegra íbúða við Snægil.
Jafnframt var lagt fram bréf dags. 2. mars frá Skrifstofu atvinnulífsins Norðurlandi, þar sem mótmælt er þeim vinnubrögðum að bjóða verkið ekki út og þess krafist að
bæjarstjórn taki ákvörðun þessa til endurskoðunar.
Vegna framkominna athugasemda við ákvörðun húsnæðisnefndar vísar bæjarráð liðnum aftur til nefndarinnar til frekari umfjöllunar.
Jafnframt óskar bæjarráð eftir að bæjarlögmaður taki saman greinargerð um málið.

12. Atvinnuátaksverkefni. Umsögn um styrkumsóknir til Atvinnuleysis-tryggingasjóðs.
BR980221
Í bréfi dags. 2. mars frá félagsmálastjóra kemur fram að Atvinnuleysistrygginga-sjóður hefir óskað umsagnar bæjarráðs um 4 umsóknir til sjóðsins um styrk til atvinnuátaksverkefna. Leitað hefir verið álits atvinnumálaskrifstofu bæjarins og atvinnudeildar á umsóknunum. Umsagnir þeirra eru sammála og fylgja þær bréfinu.
Bæjarráð er samþykkt þeirri afstöðu, sem fram kemur í umsögnunum.

13. Minjasafnið á Akureyri. K.E.A. óskar viðræðna um breytta rekstraraðild.
BR980200
Með bréfi dags. 24. febrúar frá Kaupfélagi Eyfirðinga er óskað eftir viðræðum við fulltrúa Akureyrarbæjar og héraðsnefndar Eyjafjarðar um breytingar á aðild félagsins að rekstri Minjasafnsins.
Bæjarráð felur fræðslumálastjóra að taka þátt í viðræðunum fyrir bæjarins hönd.

14. Uppsögn starfs. Ragnhildur Vigfúsdóttir.
BR980204
Lagt var fram bréf dags. 27. febrúar frá Ragnhildi Vigfúsdóttur jafnréttis- og fræðslu-fulltrúa, þar sem hún segir lausu starfi sínu og óskar eftir að láta af störfum um páska
(8. apríl), en hún hefir verið ráðin í tímabundna stöðu íslensks lektors við Nordens folkliga akademi í Gautaborg.

15. Húseignin Ás 2 boðin til kaups.
BR980213
Lagt var fram bréf dags. 2. mars undirritað af Arnari E. Helgasyni f.h. Ara Jökulssonar eiganda húseignarinnar Ás 2 við Hörgárbraut, þar sem óskað er eftir viðræðum við Akureyrarbæ um kaup á húseigninni.
Bæjarráð felur bæjarlögmanni að eiga viðræður við bréfritara um kaup á eigninni.

16. Tónlistarskólinn á Akureyri. Tillögur um breyttar áherslur í starfi og skipulagi.
BR980190
Teknar voru að nýju fyrir tillögur um breyttar áherslur í starfi og skipulagi Tónlistar-skólans á Akureyri, sem lagðar voru fram á síðasta fundi bæjarráðs.
Á fundinn kom Atli Guðlaugsson skólastjóri Tónlistarskólans og ræddi við bæjarráð um tillögurnar og svaraði fyrirspurnum.
Bæjarráð vísar tillögunum til umsagnar hjá skólanefnd Tónlistarskólans og skólanefnd grunnskólanna.Fundi slitið kl. 12.35.

Jakob Björnsson
Oddur H. Halldórsson
Sigríður Stefánsdóttir
Sigfríður Þorsteinsdóttir
Sigurður J. Sigurðsson
Gísli Bragi Hjartarson

Valgarður Baldvinsson
-fundarritari-