Bæjarráð

2649. fundur 24. september 1998

Bæjarráð 24. september 1998.


2710. fundur.

Ár 1998, fimmtudaginn 24. september kl. 09.00 kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar að Geislagötu 9, 4. hæð.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamenn sátu fundinn ásamt bæjarstjóra.

Þetta gerðist:

1. Skólanefnd. Fundargerð dags. 14. september 1998.
BR980927
Fundargerðin er í 3 liðum.
2. liður: Lögð fram greinargerð sem unnin er af deildarstjóra leikskóladeildar og fræðslumálastjóra í ágúst s.l., um leikskólarými á Akureyri og væntanlegar þarfir á auknu rými.
Bæjarráð fellst á tillögu skólanefndar og vísar málinu til framkvæmdanefndar.
Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar.

2. Stofnsamningur Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar b.s. Drög.
BR980934
Lögð fram greinargerð - Kynning á Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar - og drög að stofnsamningi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar b.s.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Akureyrarbær gerist stofnaðili og tilnefni fulltrúa í stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar skv. fyrirliggjandi hugmyndum.
Bæjarstjóri fari með umboð bæjarins á stofnfundinum.

3. Kísiliðjan h.f. Fundargerð aðalfundar dags. 10. júní 1998.
BR980923
Lögð fram til kynningar.

4. Rekstur og Ráðgjöf ehf. Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn.
BR980924
Með bréfi dags. 10. september 1998 er kynnt að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert samstarfssamning við Rekstur og Ráðgjöf ehf. um undirbúning, skipulagningu og umsjón með námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn. Markmið námskeiðsins er fyrst og fremst að veita yfirsýn yfir málasvið sveitarstjórna, starfsemi þeirra og skipulag, stjórnunaraðferðir, verkefni og fjármál. Ennfremur verður reynt að varpa ljósi á stöðu sveitarfélaganna í stjórnkerfi landsins.
Bæjarstjóra falið að kanna áhuga á að senda bæjarfulltrúa á námskeiðið.

5. Sjávarútvegsráðuneytið. Rekstur matvælagarðs í tengslum við Háskólann á Akureyri.
BR980933
Með bréfi dags. 10. september 1998 er tilkynnt að sjávarútvegsráðherra hafi ákveðið að höfðu samráði við rektor Háskólans á Akureyri að setja á fót starfshóp til að gera tillögur um uppbyggingu og rekstur matvælagarðs í tengslum við Háskólann á Akureyri. Er þess farið á leit að Akureyrarbær tilnefni mann til setu í starfshópnum. Auk fulltrúa Akureyrarbæjar er fyrirhugað að sæti í starfshópnum eigi fulltrúi Háskólans á Akureyri, aðili er tengist atvinnurekstri varðandi matvælaframleiðslu á Norðurlandi og fulltrúi ráðuneytisins.
Bæjarráð vísar erindinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

6. Verkmenntaskólinn á Akureyri. Óskar eftir styrk vegna ferðar nemenda á hagfræðibraut til Randers.
BR980935
Erindi dags. 15. september 1998 frá nemendum í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem óskað er eftir styrk frá Akureyrarbæ í tengslum við ferð þeirra til Randers Handelskole í Danmörku.
Bæjarráð samþykkir að veita 100.000 kr. styrk til ferðar nemendanna.
Oddur H. Halldórsson óskar bókað að hann tók ekki þátt í afgreiðslu erindisins vegna tengsla.

7. Kristján Sverrisson og Flugfélagið Loftur.
BR980936
Erindi dags. 16. september 1998 frá Kristjáni Sverrissyni og Flugfélaginu Lofti, þar sem sótt er um styrk að upphæð kr. 5.000.000 vegna uppsetningar á nýju íslensku leikriti, Bjallan, eftir Ólaf Hauk Símonarson, á Renniverkstæðinu. Ráðgert er að frumsýna leikritið í nóvember n.k.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

8. Launanefnd sveitarfélaga. Fundargerð dags. 7. september 1998.
BR980925
Fundargerðin er í 8 liðum og er lögð fram til kynningar.

9. Arcticfilm ehf. Aldahvörf - sjávarútvegur á tímamótum.
BR980940
Með ódags. bréfi (móttekið 17. september 1998) fer Páll Benediktsson f.h. Arcticfilm ehf. fram á styrk frá Akureyrarbæ til gerðar sjónvarpsþáttaraðar um sjávarútveg, sem sýnd verður í Ríkisútvarpinu-Sjónvarpi aldamótaárið 2000, sem framlag þess til höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar á liðinni öld. Sýndir verða átta u.þ.b. 50 mínútna langir þættir um öll helstu svið sjávarútvegs á Íslandi.
Bæjarráð vísar erindinu til aldamótanefndar til skoðunar.

10. Félag íslenskra leikara. Málefni Leikfélags Akureyrar.
BR980945
Erindi dags. 16. september 1998 frá Félagi íslenskra leikara þar sem vakin er athygli á þeirri neikvæðu þróun sem orðið hefur hjá Leikfélagi Akureyrar, að fastráðnum leikurum hefur fækkað mjög á undanförnum árum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara.

11. Félag eldri borgara.
BR980946
Með bréfi dags. 17. september 1998 sækir Félag eldri borgara á Akureyri um styrk frá Akureyrarbæ til starfsemi kórs félagsins.
Bæjarráð vísar erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar næsta árs.

12. Skipun fræðslunefndar.
BR980950
Bæjarráð samþykkir að skipuð verði fræðslunefnd bæjarins, sem vinni að fræðslu-málum starfsmanna. Nefndin verði eins og áður skipuð einum fulltrúa tilnefndum af bæjarráði og fjórum tilnefndum af sviðunum og verði fyrst um sinn skipuð til eins árs.
Eftirtaldir hafa verið tilnefndir af sviðunum:
Árni Ólafsson, skipulagsstjóri
Eiríkur Björn Björgvinsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi
Sigríður Stefánsdóttir, sviðsstjóri
Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri búsetu- og öldrunardeildar.
Bæjarráð tilnefnir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra, sem sinn fulltrúa.

13. Skipun stýrihóps vegna breytinga á stjórnsýslu bæjarins.
BR980951
Með vísan til samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar frá fundi hennar þann 15. september s.l. um nýtt stjórnskipurit ásamt greinargerð, leggur bæjarstjóri til við bæjarráð að skipaður verði fimm manna stýrihópur til að hafa yfirumsjón með því verki sem framundan er.
    Stýrihópnum er ætlað að hafa yfirumsjón og verkstjórn með höndum í þeim breytingum sem fyrir höndum eru og gert er ráð fyrir að hann skipi m.a. í vinnuhópa um einstök afmörkuð verkefni sem varða breytingar á stjórnsýslu og starfsháttum hjá Akureyrarbæ.
    Loks er lagt til að stýrihópurinn gegni hlutverki framkvæmdanefndar um reynslusveitarfélagsverkefni Akureyrarbæjar.
Bæjarráð skipar eftirtalda aðal- og varamenn í stýrihópinn:
Aðalmenn:
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, sem jafnframt verði formaður hópsins
Ásgeir Magnússon, formaður bæjarráðs
Jakob Björnsson, bæjarfulltrúi
Sigríður Stefánsdóttir, sviðsstjóri
Þorgerður Guðlaugsdóttir, aðstoðarskólastjóri
Varamenn:
Sigurður J. Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar
Oktavía Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi
Ásta Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi
Valgerður Magnúsdóttir, sviðsstjóri
Árni Ólafsson, skipulagsstjóri.
Starfsmaður hópsins verður Gunnar Frímannsson.
Oddur H. Halldórsson óskar bókað:
"Ég tel að vanda beri vel til breytinga í stjórnskipulagi bæjarins. Því tel ég mikilvægt að fulltrúar allra stjórnmálaafla í bæjarstjórn eigi sæti í stýrihópnum.
    Þar sem L-listinn á engan fulltrúa í tillögu bæjarstjóra í skipan í stýrihópinn get ég ekki stutt þessa tillögu og sit því hjá við atkvæðagreiðslu."
Sigfríður Þorsteinsdóttir óskar bókað að hún styður bókun Odds.

14. Tilfærsla starfs.
BR980952
Bæjarráð samþykkir að Gunnar Frímannsson, sem starfað hefur sem fjármálastjóri Tónlistarskólans og starfsmaður menningardeildar flytjist yfir á þjónustusvið til áramóta. Gunnar sinni ýmsum verkefnum vegna breytinga á stjórnkerfi og starfsháttum Akureyrarbæjar og uppbyggingar þjónustusviðs.
Við endurskoðun fjárhagsáætlunar var kostnaður vegna 75% starfs Gunnars fluttur yfir á þjónustusvið.
Lagt er til að 25% af launakostnaði verði færður á jafnréttis- og fræðslumál (02 605) og að menningarfulltrúi fái heimild til að ráðstafa því 25% starfshlutfalli sem enn er fært á menningarmál.

15. Leikfélag Akureyrar. Upplýsingar frá fræðslumálastjóra.
BR980743
Lögð fram greinargerð frá fræðslumálastjóra, með viðbótarupplýsingum vegna bókunar menningarmálanefndar um Leikfélag Akureyrar 12. september s.l.

16. Det Danske Kulturinstitut.
BR980928
Lagt fram erindi dags. 18. september 1998 frá fræðslumálastjóra vegna Det Danske Kulturinstitut og vitnað til bókunar í 4. lið fundargerðar menningarmálanefndar 12. september s.l. varðandi stofnun útibús frá stofnuninni. Staðsetning þessarar skrifstofu hér á landi er ennþá á umræðustigi, en æskilegt að fyrir liggi í þeim viðræðum hvort stjórnendur Akureyrarbæjar vilji styðja við skrifstofuna í formi skrifstofuaðstöðu á reynslutíma í fjögur ár.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa afgreiðslu málsins og leggja fyrir bæjarráð.

17. Knattspyrnufélag Akureyrar.
BR980941
Með bréfi dags. 18. september 1998 óskar aðalstjórn Knattspyrnufélags Akureyrar eftir heimild til veðsetningar á eign sinni við Dalsbraut, til tryggingar láni til greiðslu skammtímaskulda og er liður í endurskipulagningu á fjármálum og rekstri þess.
Til viðræðna við bæjarráð undir þessum lið mætti Gunnar Jónsson framkvæmdastjóri KA.
Bæjarráð heimilar 25.000.000 kr. veðsetningu á húseign KA við Dalsbraut.

18. Forsendur fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar 1999.
BR980953
Lagðar voru fram forsendur fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar fyrir árið 1999, unnar af Dan Brynjarssyni, fjármálastjóra.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu fjármálastjóra og felur honum að senda út sem tilkynningu til stofnana bæjarins. Jafnframt samþykkir bæjarráð að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 1999 verði unnin sem rammafjárhagsáætlun.

19. Önnur mál.
BR980953
a) Tekinn var fyrir 5. liður a) úr fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 16. september s.l., sem vísað var til bæjarráðs, þ.e. ósk Golfklúbbs Akureyrar um styrk vegna ferðar A-sveitar GA í Liðakeppni Evrópu á Ítalíu 4.- 7. nóvember n.k., en sveitin fer sem fulltrúi Íslands vegna sigurs í sveitakeppni á Íslandsmótinu í golfi.
Bæjarráð samþykkir að veita Golfklúbbnum viðurkenningu fyrir Íslandsmeistaratitil í sveitakeppni.


Fundi slitið kl. 11.15.

Ásgeir Magnússon
Sigurður J. Sigurðsson
Sigfríður Þorsteinsdóttir
Þórarinn B. Jónsson
Oddur H. Halldórsson
Kristján Þór Júlíusson

Heiða Karlsdóttir
-fundarritari-