Bæjarráð

2656. fundur 19. febrúar 1998

Bæjarráð 19. febrúar 1998.


2682. fundur.

Ár 1998, fimmtudaginn 19. febrúar kl. 09.00, kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar í Geislagötu 9.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamaður sátu fundinn ásamt formanni bæjarráðs, bæjarritara, bæjarverkfræðingi, félagsmálastjóra og fræðslumálastjóra.

Þetta gerðist:

1. Stjórn veitustofnana. Fundargerð dags. 3. febrúar. Reglugerð fyrir HVA.
BR980164
Í fundargerðinni, sem er í 1 lið, afgreiðir veitustjórn frumvarp að reglugerð fyrir Hita- og Vatnsveitu Akureyrar.
Bæjarráð frestar afgreiðslu til næsta fundar.

2. Eyþing. Aðalfundur 1998.
BR980159
Með bréfi frá framkvæmdastjóra Eyþings dags. 10. febrúar er boðað til aðalfundar
Eyþings 1998, sem haldinn verður á Húsavík fimmtudaginn 3. og föstudaginn 4. september næstkomandi.

3. Gjaldskrár leikskóla.
BR980168
Lagt var fram bréf dags. 12. febrúar frá fræðslumálastjóra og deildarstjóra leikskóla-deildar. Í bréfinu greina þau frá samanburði á gjaldskrám leikskóla á Akureyri og í Reykjavík og birta meðaltalstölur nokkurra kaupstaða. Meðfylgjandi er bréf frá Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri dags. 11. febrúar ásamt könnun á dagvistunar- og húsnæðismálum námsmanna við H.A., sem félagið hefir gert.
Í öðru bréfi fræðslumálastjóra og deildarstjórans dags. 16. febrúar er spurst fyrir um hvernig bregðast skuli við um afslátt, þegar systkini eru annars vegar í leikskóla eða skólavistun hjá Akureyrarbæ og hinsvegar í einkareknum leikskóla eða hjá dagmóður.
Bæjarráð samþykkir sem vinnureglu, að liggi fyrir staðfesting á því að yngsta barn sé í vistun hjá dagmóður með starfsleyfi frá Akureyrarbæ, skuli Akureyrarbær veita afslátt vegna systkina í leikskóla/skólavistun bæjarins.
Einnig samþykkir bæjarráð að styrkir til einkarekinna leikskóla skuli fylgja sömu viðmiðunum um systkinaafslátt og á leikskólum sem reknir eru af Akureyrarbæ.
Að öðru leyti frestar bæjarráð afgreiðslu málsins.

4. Sumarvinna hjá Akureyrarbæ 1998.
BR980169
Bæjarráð samþykkir að öll sumarstörf fyrir 17 ára og eldri hjá deildum og stofnunum bæjarins verði auglýst af starfsmannastjóra og ráðningar fari fram í samráði við starfsmannadeild. Sömu reglur skulu gilda um ráðningarnar og undanfarin ár.
Jafnframt ákveður bæjarráð, að 16 ára unglingum fæddum 1982 verði gefinn kostur á 6 vikna vinnu í sumar, 7 tíma á dag, samtals 210 vinnustundir.
Vinna unglinga 14 og 15 ára verði 122,5 vinnustundir á 7 vikum.
Starfsmannastjóra er einnig falið að auglýsa eftir umsóknum um þessi störf.

5. Húsnæðisnefnd Akureyrar. Viðræðufundur.
BR980120
Að ósk húsnæðisnefndar komu á fund bæjarráðs 3 fulltrúar úr nefndinni, Gísli Kr. Lórenzson, Guðmundur Ómar Guðmundsson og Hilmir Helgason ásamt forstöðumanni húsnæðisskrifstofunnar Guðríði Friðriksdóttur.
Til umræðu voru áframhaldandi íbúðabyggingar við Snægil og aukin eftirspurn eftir leigu í félagslegum kaupleiguíbúðum.
Bæjarráð heimilar að samið verði við byggingafélagið Hyrnu ehf. um byggingu 16 félagslegra íbúða við Snægil, sem byrjað verður á í vor.
Bæjarráð óskar eftir að húsnæðisnefnd og félagsmálaráð móti tillögur að samræmdum reglum um leigu á íbúðum bæjarins.

6. Brekkugata 8. Bótakrafa vegna meintra galla á húseigninni.
BR980093
Lagt var fram bréf dags. 7. janúar frá Reyni Adolfssyni f.h. Ferðaþjónustu Akureyrar ehf., þar sem farið er fram á lækkun á verði húseignarinnar Brekkugötu 8 vegna meintra galla, sem reyndust vera á húsinu og "ekki vitað um eða kaupanda sagt frá" þegar kaupin fóru fram. Að hans tilhlutan voru dómkvaddir menn til að meta hina meintu galla og fylgir matsgjörð þeirra bréfinu.
Bæjarráð samþykkir tillögu frá bæjarstjóra um bótagreiðslu að upphæð kr. 600.000.

7. Bifreiðastöð Norðurlands h.f. Óskað viðræðna um stuðning við rekstur.
BR980150
Með ódags. bréfi frá Bifreiðastöð Norðurlands h.f. er greint frá starfsemi stöðvarinnar og því hlutverki, sem hún gegnir á sviði ferðamála, en vegna rekstrarerfiðleika er óskað viðræðna við bæjaryfirvöld.
Bæjarráð tilnefnir Dan Brynjarsson, Berglindi Hallgrímsdóttur og Guðmund Birgi Heiðarsson til viðræðna við stjórnendur Bifreiðastöðvar Norðurlands.

8. Skrifstofa atvinnulífsins Norðurlandi. Fyrirspurn um iðnaðarmannavinnu á vegum Akureyrarbæjar. Stofnun "útboðsbanka".
BR980140 og BR980166
Lögð voru fram tvö bréf frá Skrifstofu atvinnulífsins Norðurlandi.
Í bréfi dags. 6. febrúar eru fyrirspurnir um rekstur trésmíðaverkstæðis bæjarins, ráðningu og vinnu iðnaðarmanna til starfa hjá bænum og stefnu bæjaryfirvalda í þessum málum.
Í bréfi dags. 13. febrúar er kynnt stofnun "útboðsbanka" á vegum skrifstofunnar til þjónustu fyrir atvinnulífið á Norðurlandi.
Bæjarráð vísar erindunum til framkvæmdanefndar og óskar umsagnar hennar um fyrra erindið. Að fenginni þeirri umsögn felur bæjarráð bæjarstjóra og bæjarverkfræðingi að svara erindinu.

9. Leikskóli Guðnýjar Önnu ehf. Leikráð ehf. yfirtekur rekstur leikskólans.
BR980142
Með bréfi dags. 20. janúar tilkynnir Leikskóli Guðnýjar Önnu ehf. að Leikráð ehf.,
kt. 701195-2489, hafi yfirtekið rekstur og húsnæði Leikskólans Ársólar ásamt samningum og skuldbindingum honum tilheyrandi.

10. Uppsögn starfs. Valgarður Baldvinsson.
BR980171
Lagt var fram bréf dags. 17. febrúar frá Valgarði Baldvinssyni, þar sem hann tilkynnir þá ákvörðun sína að láta af starfi bæjarritara frá og með 1. júní n.k., en honum ber að láta af starfinu við sjötugsaldur síðar á árinu.

11. Ketilhúsið. Skipun matsmanns til úttektar á framkvæmdum.
BR980170
Með vísan til ákvæða í samningi Akureyrarbæjar við Gilfélagið um framkvæmdir í "ketilhúsinu" fer formaður félagsins þess á leit í bréfi dags. 6. febrúar að skipuð verði matsnefnd til að taka út framkvæmdirnar og meta frávik, sem orðið hafa frá upphaflegri áætlun.
Bæjarráð samþykkir að tilnefna af sinni hálfu Magnús Garðarsson tæknifræðing í matsnefndina.

12. Þriggja ára áætlun um rekstur, fjármál og framkvæmdir Bæjarsjóðs
árin 1999-2001.
BR980126
Hagsýslustjóri kom á fundinn og lagði fram frekari gögn um áætlunargerðina og fór yfir þau með bæjarráði.

Fundi slitið kl. 12.30.

Jakob Björnsson
Þórarinn E. Sveinsson
Heimir Ingimarsson
Ásta Sigurðardóttir
Sigurður J. Sigurðsson
Gísli Bragi Hjartarson

Valgarður Baldvinsson
- fundarritari -.