Bæjarráð

2664. fundur 26. febrúar 1998

Bæjarráð 26. febrúar 1998.


2683. fundur.

Ár 1998, fimmtudaginn 26. febrúar kl. 09.00, kom bæjarráð Akureyrar saman til fundar í fundasal bæjarstjórnar í Geislagötu 9.
Neðanritaðir bæjarráðsmenn og varamaður sátu fundinn ásamt formanni bæjarráðs, bæjarritara, bæjarverkfræðingi, félagsmálastjóra og fræðslumálastjóra.

Þetta gerðist:

1. Stjórn veitustofnana. Fundargerð dags. 3. febrúar.
BR980164
Í fundargerðinni, sem er í einum lið, afgreiðir stjórn veitustofnana frá sér frumvarp að Reglugerð fyrir Hita- og Vatnsveitu Akureyrar.
Bæjarráð leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
1. gr. Þriðja orðið í nafni veitunnar verði ritað með stórum staf:
Hita- og Vatnsveita Akureyrar.
4. gr. Síðasta málsgrein orðist svo:
Rétt til setu á fundum veitustjórnar með málfrelsi og tillögurétti hafa sviðsstjóri tækni-, umhverfis- og veitusviðs og veitustjóri, sbr. 6. grein.
7. gr. orðist svo:
HVA skal hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald, þar sem fram kemur rekstur Hitaveitu annars vegar og Vatnsveitu hins vegar.
Fjármála- og stjórnsýslusvið bæjarskrifstofunnar hefur með höndum greiðslu reikninga, bókhald og launagreiðslur. Reikningsár HVA er almanaksárið og skulu reikningar hennar vera hluti af samstæðureikningi Akureyrarbæjar og vera áritaðir af endurskoðendum Akureyrarbæjar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.
Tekjum HVA skal varið til að standa straum af nauðsynlegum rekstri og stofnkostnaði, þannig að tryggður sé öruggur rekstur veitunnar, svo og til greiðslu afborgana og vaxta af skuldum hennar vegna stofnkostnaðar. Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af bæjarstjórn að fengnum
tillögum veitustjórnar.
Bæjarráð vísar frumvarpinu ásamt breytingartillögunum til bæjarstjórnar til fyrri umræðu.

2. Íþrótta- og tómstundaráð. Fundargerð dags. 18. febrúar, 1. liður.
BR980185
Bæjarráð vísar liðnum til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 1999.

3. Kjaranefnd. Fundargerð dags. 18. febrúar, 2. og 4. liður.
BR980186
2. lið samþykkir bæjarráð.
4. lið samþykkir bæjarráð. Bæjarráðsmaður Sigfríður Þorsteinsdóttir sat hjá.

4. Viðtalstímar bæjarfulltrúa. Fundargerð dags. 23. febrúar.
BR980187
Bæjarráð felur fræðslumálastjóra að svara erindinu.

5. Áfengis- og vímuvarnanefnd. Fundargerð dags. 11. febrúar.
BR980176 og BR971317
Fundargerðin er í 6 liðum.
Í 2. lið er veitt umsögn um leyfi til vínveitinga að Fosshótel KEA og veitingastað að Hafnarstræti 87-89, og leggst nefndin ekki gegn veitingu leyfisins.
Bæjarráð er samþykkt afstöðu nefndarinnar.
Fundargerðin gefur að öðru leyti ekki tilefni til ályktunar.

6. Hafnasamlag Norðurlands. Fundargerð dags. 23. febrúar.
BR980189
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

7. Skautafélag Akureyrar. Greinargerð vegna styrkumsóknar.
BR980148
Lögð var fram greinargerð frá fræðslumálastjóra og íþrótta- og tómstundafulltrúa vegna erindis frá Skautafélagi Akureyrar um styrk til greiðslu kostnaðar við viðhald á tækjum og búnaði skautasvæðisins, sbr. bókun bæjarráðs 18. desember s.l.
Bæjarráð vísar erindi Skautafélagsins til afgreiðslu íþrótta- og tómstundaráðs.

8. Gjaldskrá leikskóla. Breytingartillaga.
BR980168
Tekið var fyrir bréf fræðslumálastjóra og deildarstjóra leikskóladeildar, sem lagt var fram á fundi bæjarráðs 19. febrúar. Jafnframt var lögð fram tillaga um breytingar á gjaldskrá leikskóla, sem felur í sér aukinn afslátt fyrir börn einstæðra foreldra og foreldra í námi svo og aukinn systkinaafslátt. Áætlað er að breytingar samkvæmt tillögunni hafi í för með sér tekjulækkun hjá leikskólum bæjarins um kr. 6 milljónir á árinu. Tillagan fylgir fundargerð þessari til bæjarfulltrúa.
Bæjarráð vísar afgreiðslu breytingartillögunnar til bæjarstjórnar.

9. Hollustuvernd ríkisins. Beiðni um afkastaaukningu Krossanesverksmiðju hafnað.
BR980177 og BR980202
Lagt var fram bréf dags. 16. febrúar frá Hollustuvernd ríkisins. Þar er greint frá afstöðu Hollustuverndar til umsóknar Krossaness h.f. um nýtt starfsleyfi og heimild til þess að auka afköst Krossanesverksmiðjunnar úr 550 í 750 tonn á sólarhring, sbr. bókun bæjarráðs 8. janúar s.l. Hollustuvernd hrekur rök stjórnenda verksmiðjunnar að afkastaaukning geti ekki leitt til minnkandi mengunar en síðan segir "því aðeins er heimilt að leyfa að afköst verksmiðjunnar verði aukin með auknum tækjabúnaði, að sýnt sé fram á að það leiði ekki til aukinnar mengunar í umhverfi hennar". Fram á slíkt hafi ekki verið sýnt og því er beiðni um heimild til afkastaaukningar hafnað.
Þá var einnig lagt fram bréf dags. 25. febrúar frá Krossanesi h.f. Þar er því haldið fram að Hollustuvernd geri aðrar og mun strangari kröfur til Krossaness en samkeppnisaðila og óskað áframhaldandi stuðnings bæjarstjórnar við málið.
Bæjarráð beinir því til Krossaness h.f. að fá að fylgjast með áframhaldandi gangi þessa máls.

10. Tónlistarskólinn á Akureyri. Tillögur um breyttar áherslur í starfi og skipulagi.
BR980190
Lagðar voru fram tillögur um breyttar áherslur í starfi og skipulagi Tónlistarskólans á Akureyri. Tillögurnar eru unnar af starfshópi, sem bæjarráð skipaði á árinu 1996 og eru framhald skýrslu hópsins um úttekt á rekstri og starfsemi skólans dags. í júlí 1997.
Tillögurnar voru ræddar en afgreiðslu frestað.

11. Lóðir fyrir atvinnuhúsnæði auglýstar.
BR980191
Bæjarráð samþykkir að fela byggingafulltrúa að auglýsa til umsóknar lóðir fyrir atvinnuhúsnæði syðst í Krossaneshaga austan Hörgárbrautar.

12. Húsfriðunarnefnd ríkisins. Athugasemdir vegna niðurrifs húsa.
BR980192
Með bréfi dags. 19. febrúar frá húsfriðunarnefnd ríkisins er birt svar nefndarinnar við ósk byggingafulltrúa um heimild til þess að rífa þrjú gömul hús: Lækjargötu 6, Hafnarstræti 103 og Litlu Hlíð.
Nefndin leggst gegn því að Lækjargata 6 verði rifin vegna menningarsögulegs gildis, aldurs, gerðar og umhverfislegs gildis fyrir heildarmynd Búðargils. Frestað verði niðurrifi Hafnarstrætis 103 þar til umhverfi hússins hefir verið skoðað nánar og tekin hefir verið ákvörðun um mótun Skátagilsins. Ekki er gerð athugasemd við niðurrif Litlu-Hlíðar.
Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá skipulagsstjóra og bæjarlögmanni um málið.

13. S.S. Byggir ehf. Umsókn um niðurfellingu bílastæðagjalda.
BR980193
Með bréfi dags. 20. febrúar frá S.S. Byggi ehf. er greint frá þeirri ætlan að byggja 900 fermetra bílastæðahús undir hluta af fyrirhuguðu húsi á byggingarreit nr. 21 í Miðbænum svo og undir götu vestan hússins.
Þess er farið á leit við Akureyrarbæ að felld verði niður bílastæðagjöld af öllu húsinu og gatnagerðargjöld af kjallara hússins.
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur yfirverkfræðingi og bæjarlögmanni að taka upp viðræður við bréfritara um málið.

14. Kærunefnd jafnréttismála. Álit í kærumáli Ragnhildar Vigfúsdóttur gegn Akureyrarbæ.
BR980197
Á fundinn kom bæjarlögmaður og kynnti bæjarráði álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 7/1998 Ragnhildur Vigfúsdóttir gegn Akureyrarbæ vegna launakjara með samanburði við laun atvinnumálafulltrúa bæjarins.
Kærunefndin telur að Akureyrarbæ hafi hvorki "lánast að sýna fram á að sá verulegi munur, sem var á launum og öðrum kjörum kæranda og atvinnumálafulltrúans skýrist af því að störf þeirra hafi ekki verið sambærileg eða jafn verðmæt, né karl sá er gegndi starfi atvinnumálafulltrúa hafi verið hæfari eða verðmætari starfsmaður en kærandi. Verður því að líta svo á að kynferði hafi ráðið þessum mun".
"Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að kæranda verði bættur sá munur sem var á launum og öðrum starfskjörum hennar og atvinnumálafulltrúans fram í mars 1997, að því leyti sem hann verður ekki skýrður með þeim óverulega punktamismun, sem var á störfunum samkvæmt starfsmatinu, eða að fundin verði önnur leið sem kærandi sættir sig við."

15. Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar h.f. Tillaga um stefnumótun.
BR980086
Tekin var fyrir tillaga um stefnumótun Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar h.f., sem lögð var fram á fundi bæjarráðs 5. febrúar s.l.
Bæjarráð vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

16. Tillögur um byggingu íþróttamannvirkja.
BR980172
Lagðar voru fram eftirfarandi tillögur frá bæjarfulltrúunum Þórarni E. Sveinssyni, Oddi Helga Halldórssyni, Gísla Braga Hjartarsyni og Þórarni B. Jónssyni:
   A. Hafin verði bygging fjölnota íþróttahúss (knattspyrnuhúss) á svæði Íþróttafélagsins Þórs. Tekið verði mið af þeim byggingarforsendum, sem unnar hafa verið af VST í des. 96 og síðan endurnýjaðar í okt. 97. Stefnt skal að því að húsið verði tilbúið á árinu.
   B. Hafin verði bygging skautahúss á svæði Skautafélags Akureyrar. Tekið verði mið af þeim byggingarforsendum, sem unnar hafa verið af VST í des. 96 og síðan endurnýjaðar í okt. 97. Stefnt skal að því að húsið verði tilbúið á árinu.
   Framkvæmd og fjármögnun:
     Skipuð verði framkvæmdanefnd undir forystu íþrótta- og tómstundafulltrúa. Í henni sitji auk hans formaður ÍTA og formaður framkvæmdanefndar. Nefndin ráði sér byggingarstjóra en nýti sér auk þess fagþekkingu bæjarstarfsmanna eftir því sem hægt er og þörf er á.
     Bæði húsin verði keypt á kaupleigu t.d. í gegnum Landsbanka Íslands, Akureyri, viðskiptabanka Akureyrarbæjar. Líkleg framkvæmdafjárhæð er 250 milljónir króna. Kaupleigan greidd á næstu 10 árum eftir því hvernig öðrum framkvæmdum til íþrótta- og tómstundamála miðar áfram. (Stærstu fyrirsjáanlegar framkvæmdir á því sviði eru frágangur sundlaugarinnar og bygging íþróttaaaðstöðu fyrir Gilja- og Síðuskóla). Sótt verði um styrk til framkvæmdarinnar frá Vetraríþróttamiðstöð Íslands.
Akureyrarbær verði eigandi bygginganna en geri rekstrarsamninga við Íþróttafélagið Þór annars vegar og Skautafélag Akureyrar hins vegar.
Bæjarráð vísar tillögunum til afgreiðslu bæjarstjórnar.

17. Frumvarp að þriggja ára áætlun.
BR980126
Lögð voru fram drög að frumvarpi að þriggja ára áætlun um rekstur, fjármál og framkvæmdir Bæjarsjóðs Akureyrar árin 1999-2001.
Í drögunum eru lagðar til grundvallar sömu forsendur og undanfarin ár um tekjur bæjarins og álagningu skatta og gert ráð fyrir að skuldsetning verði ekki aukin á tímabilinu. Rekstarútgjöld eru svipað hlutfall af skatttekjum og á þessu ári.
Framkvæmdafé kemur fram óskipt í drögunum.
Bæjarráð vísar frumvarpsdrögunum til bæjarstjórnar til fyrri umræðu.


Fundi slitið kl. 13.15.

Jakob Björnsson
Þórarinn E. Sveinsson
Sigríður Stefánsdóttir
Sigfríður Þorsteinsdóttir
Sigurður J. Sigurðsson
Gísli Bragi Hjartarson

Valgarður Baldvinsson
- fundarritari -