Bæjarráð

3854. fundur 27. júní 2024 kl. 10:00 - 13:36 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason formaður
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir varaformaður
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Sindri Kristjánsson
  • Jón Hjaltason áheyrnarfulltrúi
  • Sif Jóhannesar Ástudóttir vara-áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia fundarritari
Fundargerð ritaði: Elín Dögg Guðjónsdóttir skjalastjóri
Dagskrá
Sindri Kristjánsson S-lista sat fundinn í forföllum Hildu Jönu Gísladóttur.
Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista sat fundinn í forföllum Ásrúnar Ýrar Gestsdóttur.

1.Húsnæðismál félags eldri borgara

Málsnúmer 2023090472Vakta málsnúmer

Rætt um húsnæðismál Félags eldri borgara á Akureyri. Málið var áður á dagskrá bæjarráðs þann 20. júní sl. undir liðnum fundargerðir öldungaráðs.

Karl Guðmundsson og Valgerður Jónsdóttir úr stjórn Félags eldri borgara sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð telur þörf á að kostnaðargreina málið betur og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram í samvinnu við EBAK.

2.Glerárgata 26 - endurbætur og nýr leigusamningur 2024

Málsnúmer 2024031281Vakta málsnúmer

Lagður fram til samþykktar nýr húsaleigusamningur við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26 þar sem velferðarsvið og fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins eru með aðstöðu. Samningurinn er til 15 ára og er gert ráð fyrir að húsnæðið verði uppfært og endurbætt.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Hulda Sif Hermannsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra sátu fundinn undir þessum lið.

Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagðan leigusamning við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26.

Sindri Kristjánsson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista sitja hjá.


Sindri Kristjánsson S-lista og Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista óska bókað:

Fyrir rétt tæpum þremur árum birtist á vef bæjarins tilkynning um að niðurstaða væri komin í hugmyndasamkeppni um viðbyggingu og endurbætur á ráðhúsinu á Akureyri. Þar var endahnútur bundinn á verkefni þar sem óskað var eftir tillögum að framtíðarsýn um að koma allri stjórnsýslu bæjarins fyrir á einum og sama staðnum. Tilkynningin er enn aðgengileg á vef Akureyrarbæjar. Málið sem hér er til umræðu er afleiðing ákvörðunar meirhluta L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins um að hætta við þessi áform. Þeirri ákvörðun erum við alfarið ósammála. Ljósið í myrkrinu er að í staðinn verður ráðist í bráðnauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu á Glerárgötu 26 starfsfólki og notendum til mikilla hagsbóta.

3.Hafnarstræti Göngugatan - sumarlokun frá júní - ágúst

Málsnúmer 2024050988Vakta málsnúmer

Umræður um frekari götulokanir í miðbænum.

Halldór Kristinn Harðarson rekstraraðili sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til frekari umræðu til skipulagsráðs.

4.Reglur um afslátt af leikskóla- og eða frístundagjöldum

Málsnúmer 2023111010Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 13. júní 2024:

Lagðar fram endurskoðaðar reglur um afslátt af leikskóla- og/eða frístundagjöldum. Málið var á dagskrá fræðslu- og lýðheilsuráðs 27. maí sl. Samþykkti meirihluti ráðsins tillögur að breyttum tekjuviðmiðum og fól sviðsstjóra að vinna áfram með kaflann um meðferð gagna í samráði við bæjarlögmann.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið. Þá sat Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð frestar málinu til næsta fundar.


Liður 3 úr fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 24. júní 2024:

Ný tillaga um reglur um afslátt af leikskóla- og/eða frístundagjöldum var lögð fram til samþykktar.

Áheyrnarfulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna María Agnarsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra, Harpa Hjartardóttir fulltrúi leikskólakennara, Pollý Rósa Brynjólfsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Helga Jónasardóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna og Alexía María Gestsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir framlagðar reglur og vísar þeim til samþykktar í bæjarráði. Gunnar Már Gunnarsson B-lista situr hjá.


Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Meirihluti bæjarráðs samþykkir framlagðar reglur um afslátt af leikskóla- og eða frístundagjöldum.

Sindri Kristjánsson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista sitja hjá.


Sindri Kristjánsson óskar bókað:

Ég sýni því fullan skilning að endurskoða þurfi reglur um afslátt á leikskóla- og frístundagjöldum og að umrædda afslætti þurfi að endurskoða að fengnum nýjum og betri upplýsingum um tekjur bæjarbúa. Þessar breytingar fela aftur á móti í sér að eingöngu gjöld sem tekjulægstu hópar samfélagsins greiða fyrir leikskóladvöl og frístund hækka. Það get ég ekki stutt.

5.Skráningardagar í leikskólum

Málsnúmer 2023040631Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 24. júní 2024:

Kristín Jóhannesdóttir kynnti minnisblað um stöðuna á skráningardögum í leikskólum Akureyrarbæjar. Þar sem ár er að verða liðið af tilraunaverkefni um skráningardaga þurfti að taka ákvörðun um framhaldið.


Áheyrnarfulltrúar: Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna María Agnarsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra, Harpa Hjartardóttir fulltrúi leikskólakennara, Pollý Rósa Brynjólfsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Helga Jónasardóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna og Alexía María Gestsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.



Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir að skráningardagar verði áfram í leikskólum Akureyrarbæjar með sama sniði og verið hefur, með fyrirvara um breytingar á forsendum, t.d. vegna kjarasamninga og ákvæða um styttingu vinnuviku. Málinu vísað til bæjarráðs til samþykktar.


Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að skráningardagar verði áfram í leikskólum og felur fræðslu- og lýðheilsuráði að endurskoða reglur um skráningardaga með tilliti til breyttra forsenda.


Sindri Kristjánsson S-lista situr hjá og óskar bókað:

Þó skráningardagar hafi reynst vel við að hrinda í framkvæmd vinnutímastyttingu á leikskólum bæjarins sem og að auðvelda stjórnendum að verða við óskum starfsfólks um orlof er ekki hægt horfa fram hjá því óhagræði sem þetta fyrirkomulag býr til hjá foreldrum og forráðamönnum leikskólabarna. Þess vegna tel ég ekki rétt að taka ákvörðun um framlengingu verkefnisins án þess að leitað hafi verið eftir viðhorfum sjálfra notenda þjónustunnar. Gögn málsins gefa ekki til kynna að það hafi verið gert, t.d. með viðhorfs- eða þjónustukönnun. Þá hefði átt að nýta tækifærið sem nú gefst og gaumgæfa framkvæmd gjaldtökunnar, en Akureyrarbær er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem tekið hefur upp skráningardaga þar sem gjaldtakan fer fram í formi sérstakrar álagningar fyrir hvern nýttan skráningardag.

6.Íþróttabandalag Akureyrar - samskipta- og samstarfssamningur Akureyrarbæjar og ÍBA

Málsnúmer 2015010126Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 24. júní 2024:

Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála lagði fram drög að endurnýjuðum samstarfssamningi milli ÍBA og Akureyrarbæjar.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir framlagðan samstarfssamning ÍBA og Akureyrarbæjar fyrir sitt leyti og vísar málinu afram til samþykktar í bæjarráði.

Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Bæjarráð samþykkir framlögð drög að samstarfssamningi við ÍBA og felur forstöðumanni íþróttamála að ganga frá samningnum.

7.Hjúkrunarheimilið Hlíð - húsnæðismál

Málsnúmer 2023031362Vakta málsnúmer

Umræða um stöðuna á húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fundinn undir þessum lið
Meirihluti bæjarráðs telur nauðsynlegt að klára eins fljótt og auðið er allar endurbætur og viðgerðir á húsnæðinu því ófært er að loka tugum hjúkrunarrýma á Hlíð þegar talsverð bið er eftir plássum þar. Meirihlutinn leggur á það höfuðáherslu að þessar framkvæmdir verði unnar hratt og örugglega. Okkur er það mikið kappsmál að allir búi við sem bestan aðbúnað og öryggi. En samkvæmt lögum er rekstur hjúkrunarheimila í landinu alfarið á ábyrgð ríkisins.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Sindri Kristjánsson S-lista og Sif Jóhannesar Ástudóttir V-lista óska bókað:

Mörg atriði hér gefa til kynna að hið opinbera, ríki og sveitarfélag, sé að valda töfum á þessu mikilvæga mál í karpi um krónur og aura, þó vissulega sé ekki um litlar upphæðir að ræða. Hér bitnar það mest á þeim sem síst skyldi, í þessu tilfelli öldruðum og hrumum einstaklingum sem eru í brýnni þörf fyrir pláss á hjúkrunarheimili sem og aðstandendum þeirra.

8.Greið leið ehf - hlutafjáraukning 2024

Málsnúmer 2024061592Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. júní 2024 frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur formanni stjórnar Greiðrar leiðar ehf. Í erindinu kemur fram að stjórn félagsins hafi ákveðið að nýta sér að hluta nýfengna heimild aðalfundar til þess að auka hlutafé félagsins en fyrirhugað er að hækka hlutafé félagsins um 2 milljónir kr. á genginu 1 til þess að fjármagna áfallinn rekstrarkostnað á þessu ári sem og áætlaðan rekstrarkostnað á næsta ári.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Bæjarráð samþykkir að Akureyrarbær sem hluthafi skrái sig fyrir auknu hlutafé að upphæð kr. 996.617 í samræmi við eignarhlut sinn í félaginu.

Bæjarráð felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna málið áfram.

9.Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla

Málsnúmer 2024061290Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. júní 2024 frá Jafnréttisstofu þar sem Jafnréttisstofa vekur athygli á ábyrgð og hlutverki sveitarfélaga til að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla.
Bæjarráð þakkar fyrir erindið.

10.Ein með öllu - samstarfssamningur

Málsnúmer 2022101154Vakta málsnúmer

Lagður fram til samþykktar samningur um stuðning Akureyrarbæjar við fjölskylduhátíðina Eina með öllu um verslunarmannahelgina á árinu 2024. Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 21. mars 2024.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssvið og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í júlí og ágúst 2024 sbr. bókun í 1. lið fundargerðar bæjarstjórnar 18. júní sl.


Bæjarráð samþykkir framlagðan samning um stuðning Akureyrarbæjar við fjölskylduhátíðina Eina með öllu um verslunarmannahelgina á árinu 2024.

11.Hverfafundir 2024-2025

Málsnúmer 2024040868Vakta málsnúmer

Niðurstöður hverfafunda sem haldnir voru í Brekkuskóla og Síðuskóla 22. og 23. maí kynntar.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagssvið og Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar fyrir kynninguna.

Fundi slitið - kl. 13:36.