Bæjarráð

3710. fundur 17. desember 2020 kl. 08:15 - 09:31 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Eva Hrund Einarsdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

1.Reglur Akureyrarbæjar um meðferð tölvupósts og netnotkun - endurskoðun 2019-2020

Málsnúmer 2019110087Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingum á reglum um meðferð tölvupósts og netnotkun.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir reglurnar fyrir sitt leyti með fimm samhljóða atkvæðum og vísar þeim til afgreiðslu í bæjarstjórn.

2.Tillögur um styttingu vinnuviku dagvinnufólks

Málsnúmer 2020110775Vakta málsnúmer

Umfjöllun um tillögur um fyrirkomulag styttingar vinnuvikunnar hjá starfsfólki í dagvinnu hjá Akureyrarbæ.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð staðfestir hér með niðurstöðu samtals um skipulag vinnutíma dagvinnufólks hjá eftirtöldum:

Heimaþjónusta A, hópstjórar

Hlíðarfjall

Lundarskóli

Punkturinn

Skógarlundur

Umhverfismiðstöð, áhaldahús

Umhverfis- og mannvirkjasvið, ráðhús

3.Samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Akureyrarbæjar um þjónustu Öldrunarheimila Akureyrar

Málsnúmer 2020040564Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki við samning Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga Íslands um þjónustu Öldrunarheimila Akureyrar.

Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð harmar þann drátt sem orðið hefur á yfirtöku ríkisins á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Með bréfi dagsettu 5. maí sl. var heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) tilkynnt að sveitarfélagið myndi ekki óska eftir endurnýjun á rekstrarsamningi um ÖA, með gildistíma til 31. desember 2020. Var bréf þetta byggt á ákvörðun bæjarráðs frá 30. apríl. Í kjölfarið hófust viðræður milli aðila og á fundi forstjóra SÍ og forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN), þann 18. ágúst, með fyrirsvarsmönnum Akureyrarbæjar og ÖA ásamt trúnaðarmönnum og forsvarsmönnum stéttarfélaga starfsmanna, var tilkynnt formlega að HSN hefði verið falið að taka yfir rekstur ÖA frá og með næstu áramótum. Nú þegar árið er að renna sitt skeið hefur lítið þokast í málinu af hálfu ríkisins þrátt fyrir ítrekanir og eftirrekstur af hálfu Akureyrarbæjar. Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin telur bæjarráð rétt, með hagsmuni skjólstæðinga og starfsfólks ÖA í huga, að samþykkja framlagðan viðauka við þjónustusamning um tímabundna framlengingu þjónustu til loka aprílmánaðar 2021. Bæjarráð ítrekar hins vegar að hér er um tímabundinn samning að ræða og væntir þess að með því gefist SÍ færi á að ljúka yfirtöku rekstrar ÖA með sómasamlegum hætti. Bæjarráð felur bæjarstjóra og rekstrarráði ÖA að fylgja málinu eftir.

4.Akureyrarbæ boðið að neyta forkaupsréttar vegna sölu Margretar EA-710

Málsnúmer 2020120322Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 13. desember 2020 frá Friðriki J. Arngrímssyni f.h. Samherja Ísland ehf. þar sem Akureyrarbæ er boðinn forkaupsréttur að Margreti EA-710, skipaskrárnúmer 2903.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að nýta ekki forkaupsréttinn.

5.Davíðshagi 6-10 - fyrirspurn um fjölgun bílastæða

Málsnúmer 2020061170Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. desember 2020 frá Jóni Heiðari Daðasyni fyrir hönd húsfélaganna í Davíðshaga 6, kt. 680319-0810, Davíðshaga 8, kt. 460519-0390 og Davíðshaga 10, kt. 580718-0430, þar sem þess er óskað að bæjarráð endurskoði afgreiðslu skipulagsráðs á erindi sem þessi húsfélög sendu ráðinu í júní varðandi það að húsfélögin fái leyfi til að gera bílastæði á móti húsunum og norðan við götuna Davíðshaga á svæði sem er á skipulagi skilgreint sem grænt svæði. Málið var tekið til afgreiðslu á fundi skipulagsráðs 8. júlí sl.

Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð sér ekki ástæðu til að endurupptöku málsins.

6.Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra SSNE - fundargerðir stjórnar 2019-2020

Málsnúmer 2020020650Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 19. fundar stjórnar SSNE dagsett 9. desember 2020.

Fundargerðir stjórnarinnar er að finna á eftirfarandi slóð: https://www.ssne.is/is/fundargerdir/stjorn-ssne

7.Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - fundargerðir 2020

Málsnúmer 2020020118Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 11. desember 2020.

Fundargerðina má finna á eftirfarandi vefslóð: https://www.samband.is/um-sambandid/skipulag/fundargerdir/

8.Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál.

Málsnúmer 2020120336Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 11. desember 2020 frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál 2020.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 1. febrúar nk. á netfangið nefndasvid@althingi.is.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/151/s/0461.html

Fundi slitið - kl. 09:31.