Bæjarráð

3546. fundur 02. mars 2017 kl. 08:30 - 10:59 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Matthías Rögnvaldsson
  • Sigríður Huld Jónsdóttir
  • Gunnar Gíslason
  • Preben Jón Pétursson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Dagný Magnea Harðardóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss
Dagskrá

1.Kjarasamningar grunnskólakennara

Málsnúmer 2017010147Vakta málsnúmer

3. liður í fundargerð fræðsluráðs dagsett 17. febrúar 2017:

Fræðslustjóri fór yfir vinnuferli vegna bókunar I í kjarasamningi grunnskólakennara og kynnti verkefnisstjóra sem ráðinn hefur verið til að stýra verkinu.

Kristrún Lind Birgisdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri vegna vinnu við bókun I í kjarasamningi.

Sviðsstjóri fræðslusviðs gerir tillögur um að greiddir verði allt að 10 yfirvinnutímar til hvers kennara í stýrihópi kennara vegna bókunar I í kjarasamningi.

Fræðsluráð samþykkir að greiddar verði allt að 10 klukkustundir í yfirvinnu til fulltrúa kennara í stýrihópnum.

Áætlaður kostnaður vegna vinnunar er kr. 1.800.000.

Erindinu vísað til bæjarráðs.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu fræðsluráðs og vísar henni til viðauka.

2.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2017 - viðauki 3

Málsnúmer 2016050137Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki 3.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagðan viðauka 3 og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

3.Skíðalyfta í Hlíðarfjall

Málsnúmer 2016030107Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju, bæjarráð frestaði afgreiðslu á fundi sínum þann 16. febrúar sl.

1. liður í fundargerð bæjarráðs dagsett 19. janúar 2017:

Tekið fyrir að nýju. Áður á dagskrá bæjarráðs 8. desember 2016 en þá samþykkti bæjarráð að fela fjármálastjóra, forstöðumanni íþróttamála og forstöðumanni skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli að vinna að frekari útfærslu á kostnaðaráætlun og vinna drög að samningi við Vini Hlíðarfjalls um kaup og uppsetningu á lyftu.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Akureyrarbær og ríkisvaldið gerðu með sér samning um Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri árið 1995 og uppbyggingu vetraríþrótta í bæjarfélaginu árið 1997 og aftur 2003. Seinni samningurinn rann út árið 2008 og hefur Akureyrarbær ítrekað óskað eftir því að nýr samningur verði gerður m.a. um frekari uppbyggingu í Hlíðarfjalli en ekkert hefur orðið af slíkum samningi. Akureyrarbær hefur þrátt fyrir það varið verulegum fjárhæðum eða um 120 milljónum króna til uppbyggingar vegna vetraríþrótta í Hlíðarfjalli frá árinu 2008.

Bæjarráð Akureyrar samþykkir að ganga til samninga við Vini Hlíðarfjalls um uppbyggingu nýrrar skíðalyftu í Hlíðarfjalli og felur bæjarstjóra að vinna að málinu en mikilvægt er að samningurinn taki mið af þeirri vinnu sem á sér stað við úthýsingu á rekstri Hlíðarfjalls sem og uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands.



Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óskar bókað:

Ég tel þetta verkefni ekki samræmast skynsamlegri nýtingu á skattfé, ekki síst í ljósi áforma um útvistun rekstrarins. Einnig tel ég í hæsta máta óeðlilegt að íbúar Akureyrar standi einir straum af kostnaði við uppbyggingu í Vetraríþróttamiðstöð Íslands og tel eðlilegt að þátttaka Akureyrarbæjar í verkefninu skilyrðist af þátttöku ríkisins.

4.Álagning gjalda - fasteignagjöld 2017

Málsnúmer 2016120131Vakta málsnúmer

Gunnar Gíslason D-lista óskar eftir umræðu um álagningu fasteignagjalda og þá sérstaklega um breytingu á álagningu fasteignagjalda á verbúðir.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Gunnar Gíslason D-lista lagði fram eftirfarandi tillögu:

Á fundi sínum 3. janúar sl. samþykkti bæjarstjórn tillögu að álagningu fasteignagjalda á árinu 2017. Þar var gert ráð fyrir því að fasteignagjöld á verbúðum færi úr flokki a) II í flokk c) án þess að það væri tilgreint sérstaklega og hvað þessi breyting hefði í för með sér. Þessi breyting hefur það í för með sér að í stað þess að álagt fasteignagjald á verbúðir sé 0,625% af fasteignamati húsa og lóða verður það 1,65%. Þessi breyting leiðir til mikillar hækkunar fasteignagjalda hjá eigendum verbúða á Akureyri. Auk þess að hækkunin er mikil var hún ekki kynnt þeim sem hlut eiga að máli og kom hún því flatt upp á marga, sérstaklega ellilífeyrisþega sem eru að sinna sínu tómstundastarfi í verbúðum og eru með litla báta.

Ég tel að það eigi að vera regla hjá Akureyrarkaupstað að kynna allar breytingar á gjaldskrám með góðum fyrirvara áður en þær taka gildi. Þar sem þessi breyting er í samræmi við lög þá er hæpið að leggjast gegn henni en ég legg til að gildistöku þessarar hækkunar verði frestað um ár í ljósi þess hvernig staðið var að henni.

Tillagan var borin upp og felld með 3 atkvæðum gegn atkvæði Gunnars Gíslasonar D-lista. Preben Jón Pétursson Æ-lista sat hjá við afgreiðslu.



Meirihluti bæjarráðs tekur undir með Gunnari Gíslasyni bæjarfulltrúa um mikilvægi þess að settir verði skýrir verkferlar um framkvæmd breytinga á gjaldskrám. Breyting á álagningu fasteignagjalda á verbúðir sem hér um ræðir var gerð til samræmis við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, og því ekki hægt að fallast á tillögu Gunnars um frestun.

5.Afstaða til fýsileikakönnunar

Málsnúmer 2016120012Vakta málsnúmer

Farið yfir svör nágrannasveitarfélaga vegna bréfs Akureyrarbæjar um gerð fýsileikakönnunar á sameiningu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu.
Bæjarráð harmar þá afstöðu sem meirihluti sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu hefur tekið varðandi möguleika á gerð fýsileikakönnunar. Jafnframt felur bæjarráð forseta bæjarstjórnar að boða til fundar með forsvarsmönnum Dalvíkurbyggðar og Svalbarðsstrandarhrepps um möguleika á útfærslu á slíkri könnun.

6.Brothættar byggðir

Málsnúmer 2015070054Vakta málsnúmer

Rætt um verkefnið brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey.

Gunnar Gíslason D-lista vék af fundi kl. 10:30.

7.Flóttafólk - móttaka

Málsnúmer 2015090017Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá bakhópi um móttöku flóttafólks dagsett 22. febrúar 2017 varðandi húsnæðismál flóttafólks.

Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólks mættu á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir erindi hópsins um að húsaleiga nýrrar fjölskyldu flóttafólks falli undir félagslegar íbúðir bæjarins. Kostnaður vegna þessa rúmast innan fjárhagsáætlunar.

8.Styrktarsjóður EBÍ 2017

Málsnúmer 2017020158Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. febrúar 2017 frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands varðandi umsóknir í styrktarsjóð EBÍ 2017.

Aðildarsveitarfélag sendir aðeins inn eina umsókn sem skila á á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Umsóknir skulu vera vegna sérstakra framfaraverkefna á vegum sveitarfélaganna en ekki vegna almennra rekstrarverkefna þeirra.

Umsóknarfrestur er til loka apríl nk.
Bæjarráð hvetur nefndir og svið bæjarins til að skoða verkefni sem falla undir reglur sjóðsins og senda tillögur til bæjarstjóra fyrir 10. apríl nk.

Fundi slitið - kl. 10:59.