Almannaheillanefnd

42. fundur 11. júní 2013

Fundur haldinn í Glerárgötu 26, kl. 10.00 – 12.30

Mætt:
Fulltrúar Akureyrarbæjar
Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri
Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild
Karl Frímannsson, skóladeild
Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild
Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslan
Soffía Lárusdóttir, búsetudeild

Aðrir
Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Vinnumálastofnun og Rauði krossinn
Árni Jóhannesson, FSA
Guðrún Geirsdóttir, FSA
Heimir Kristinsson, Byggiðn
Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA
Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

Gestir fundarins voru Lára Björnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir sem sæti eiga í Velferðarvaktinni.

Lára Björnsdóttir formaður Velferðarvaktarinnar kynnti aðdraganda að stofnun vaktarinnar sem sett var á laggirnar í mars 2009 skv. ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Velferðarvaktin er stýrihópur sem ætlað er að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti og leggja til aðgerðir í þágu heimilanna. Frá árinu 2011 hefur Velferðarvaktin verið skilgreind sem óháður álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka.

Í stýrihópnum eiga sæti í 21fulltrúi m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins, ráðuneytum, ríkisstofnunum, þjóðkirkjunni, hagsmunaaðilum og sveitarfélögum. Velferðarvaktin skipaði  strax í upphafi vinnuhópa um mikilvægustu verkefnin t.d. börn, viðkvæma hópa, fólk án atvinnu, ungt fólk, fjármál heimilanna/skuldavanda heimilanna, heilsufar og heilsugæslu, félagsvísa og grunnþjónustu.

Hópurinn hefur skilað 5 áfangaskýrslum auk fleiri skýrslna m.a. um grunnþjónustu og skilgreiningu á henni og greiningu á félagsvísum. Skýrslurnar má nálgast á vefslóðinni http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/skyrslur/

Einkunnarorð Velferðarvaktarinnar hafa verið þessi: Hreyfing, næring, svefn og félagsskapur; Virkni í leik og starfi. Rauði þráðurinn í starfi vaktarinnar er: A) Að gæta að velferð barna í hvívetna. B) Samráð og samstarf skal haft við sem flesta við úrlausn vekefna. C) Framlag þriðja geirans verði greint og félagsauðurinn nýttur sem best. D) Sparnaður í einu kerfi má ekki leiða til aukins kostnaðar á öðrum sviðum hins opinbera.

Vaktin hefur sent ýmis tilmæli til sveitarfélaga s.s. um skólamáltíðir og um að hugað sé að líðan barna. Vaktin hefur einnig sent tilmæli til ráðherra m.a. um tannheilsu barna, grunnþjónustu og ungt fólk án atvinnu.

Í lok fundarins óskuðu fulltrúar Velferðarvaktarinnar eftir upplýsingum um hverjar eru helstu áskoranir í velferðarmálum á Akureyri núna fjórum árum eftir hrun. Að mati fundarfólks þarf að huga vel að eftirfarandi þáttum:

  • Heilbrigðismál, staða heilsugæslunnar.
  • Skólakerfið, veikindi starfsmanna hafa aukist mikið; aukin vanlíðan hjá börnum m.a. vegna samskiptavanda.
  • Félagsþjónustan, aukinn þungi frá hruni; ungt fólk í vanda; aukin ásókn í félagslegt húsnæði.
  • Framhaldsskólarnir, geðheilbrigði ungs fólks, sérstaklega drengja; brottfall.