Almannaheillanefnd

41. fundur 30. nóvember 2012 kl. 10:00 - 12:00 Rósenborg

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar
Anna Marit Níelsdóttir, búsetudeild
Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri
Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild
Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild
Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslan 

Aðrir
Gunnar Jóhann Jóhannsson, lögreglan
Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja
Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn
Heimir Kristinsson, Byggiðn
Sigmundur Sigfússon, FSA
Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA

1. Staða mála
Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

Bæjarstjóri – fjárhagsáætlunarvinna hefur gengið vel. Fyrirhuguð er samræða við Geðverndarfélag Akureyrar um mögulegt samstarf.

Rósenborg – Virkið - virknisetur fyrir ungt atvinnulaust fólk fór aftur í gang í haust eftir sumarfrí.

Rauði krossinn – Unnið er að því að skerpa á viðbrögðum við náttúruhamförum. Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Hjálpræðisherinn hafa nú samstarf um að veita aðstoð fyrir jólin. Gengið hefur vel og fólk lýst yfir ánægju með fyrirkomulagið. Auglýst hefur verið í staðarmiðlum og nýja útfærslan kynnt. Úthlutað verður fyrir miðjan desember auk þess sem Rauði krossinn úthlutar fatnaði 11. des og 18. des.
Verkefni sem Rauði krossinn kemur að þ.e. Fjölsmiðjan og Lautin hafa verið vel nýtt.

Lögreglan – Gengið hefur vel að halda sjó. Það sem af er árinu er fjöldi brota í öllum málaflokkum mjög svipaður og áður og enga aukningu að sjá, ekki heldur í fíkniefnamálum. Innbrotum og þjófnuðum virðist fækka.

FSA – Tekist hefur að halda viðunandi þjónustu á flestum sviðum nema geðdeild. Eftirspurn eftir göngudeildarþjónustu eykst og  löng bið er eftir þjónustu. Aldurshópurinn 18 til 25 ára er áberandi og mikið um nýja einstaklinga. Geðheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk á svæðinu er allt of lítil. Áhrif efnahagshrunsins á ungmenni virðist vera að birtast núna. Skv. fjárlagafrumvarpi á að auka fé til geðheilbrigðismála.

HAK – Beðið er eftir niðurstöðu fjárlagavinnu. Meira fjármagn vantar til að sinna verkefnum og ráða fleira fólk. Á svæðinu eru 4000 manns sem vantar heimilislækna. Heilsuverndin gengur ágætlega að öðru leyti.

Búsetudeild – Verkefnum hefur verið hagrætt á milli heimaþjónustu og heimahjúkrunar og teymi starfa í kringum ákveðin mál en það hefur í för með sér miklar kröfur til starfsfólks. Aukning hefur verið í þungum málum í heimaþjónustu. Sótt hefur verið um styrk til að geta betur sinnt ungu fólki. Miklar breytingar hafa verið í búsetumálum hjá fötluðu fólki, verið er að loka herbergjasambýlum og breyta búsetuformi.

Stéttarfélögin – Ekkert lát er á ásókn í sjúkrasjóði. Biðlistar hafa myndast hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði. Stéttarfélögin munu veita styrk til þeirra sem sjá um jólaúthlutun. Atvinnuleysi fer minnkandi heilt yfir en hækkar þó eins og venjulega yfir vetrartímann. Eitthvað hefur verið um uppsagnir en þó minna en búast mátti við. Ástandið í byggingageiranum hér er nokkuð gott miðað við höfuðborgarsvæðið.

Glerárkirkja – Ánægja er með samstarf um jólaaðstoð en þó eftirsjá í að prestar hitta ekki lengur þá sem leita slíkrar aðstoðar. Kirkjan á landsvísu er í uppnámi rekstrarlega.

Fjölskyldudeild – Barnaverndartilkynningum hefur farið fjölgandi sem og tilkynningum um heimilisofbeldi. Mikið er að gera í félagsþjónustunni og útgjöldin há. Það sem af er ári hafa á annað hundrað milljónir verið veittar í framfærslustyrki. Fyrirsjáanlegt er að fjárhagsáætlun muni þess vegna ekki standast. Starfsfólk félagsþjónustunnar hefur áhyggjur af ungu fólki sem ekki virðist finna sig í tilverunni.
Eitt af stóru verkefnunum framundan er að taka þátt í stórátaki með ríkinu, sveitarfélögunum og almennum vinnumarkaði um að bjóða þeim sem eru að detta út af atvinnuleysisbótum vinnu í hálft ár. Á svæðinu eru þetta um 100 manns. Akureyrarbær þarf að útvega um 30% af þeim störfum sem bjóða á. Mikinn stuðning þarf við fólk sem tekur þátt í átakinu. Mikilvægt er að almenni vinnumarkaðurinn taki virkan þátt.

VMA – Áhyggjur eru af geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks á svæðinu. Þetta er ein af þeim ógnunum sem steðja að framhaldsskólunum. Mikið brottfall hefur verið úr skólanum í vetur. Ástæður eru skráðar og í ljós hefur komið að óvenjumargir nýnemar hafa hætt vegna andlegra veikinda. Svo virðist sem engin bjargráð séu og baklandið ekki sterkt. Sálfræðingur er nú í hlutastarfi við skólann. Skólastarfið gengur vel að öllu jöfnu.
VMA hefur áhuga á samstarfi við Akureyrarbæ vegna vinnustaðanáms yngsta hópsins.

2. Heilbrigðismál, geðheilbrigði
Fram kom að fulltrúar Akureyrarbæjar, VMA og FSA hafa rætt við þingmenn kjördæmisins um þann vanda sem upp er í heilbrigðismálum, ekki síst geðheilbrigðismálum.

 Mikilvægt er að bæjarstjórn, fulltrúar FSA, heilsugæslunnar, fjölskyldudeildar og jafnvel fleiri aðila fundi um ástandið í heilbrigðismálum, ekki síst geðheilbrigðismálum, á svæðinu.

3. Almannaheillanefnd
Almannaheillanefnd mun hér eftir hittast fast tvisvar á ári. Þess á milli getur hver sem er úr hópnum óskað eftir að boðað verði til fundar.