Almannaheillanefnd

39. fundur 03. febrúar 2012

Fundur haldinn í húsnæði Einingar-Iðju við Skipagötu, kl. 10-12.

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar
Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild
Gunnar Gíslason, skóladeild
Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild
Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslan
Soffía Lárusdóttir, búsetudeild

Aðrir
Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja
Ásdís Birgisdóttir, VMA
Gunnar Jóhannesson, lögreglan
Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn
Heimir Kristinsson, Fagfélagið
Hildur Eir Bolladóttir, Akureyrarkirkja
Margrét Árnadóttir, Kjölur
Sigmundur Sigfússon, FSA
Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun
Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

1. Atvinnuleysi
Á Norðurlandi eystra eru án atvinnu 867 manns, 457 karlar og 410 konur. Á Akureyri eru 545 manns á atvinnuleysisskrá, 280 karlar og 265 konur. Að fullu án atvinnu eru 428. Í aldurshópnum 16-25 ára eru 110 án atvinnu, 99 á aldrinum 26-30 ára, 222 á aldrinum 31-55 ára og 114 á aldrinum 56-70 ár

Í janúar árið 2011 var atvinnuleysi á Akureyri 8% og í desember var hlutfallið 6,4%. Á síðasta ári var mestur fjöldi atvinnulausra í aldurshópnum 20-29 ára.

Á árinu 2011 voru 63% þeirra sem voru á ská búnir að vera án atvinnu í 0-6 mánuði, 13% í 6-12 mánuði og 24% í meira en ár.

Vegna fjölda háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá er verið að vinna sérstaklega með þann hóp.

1. Staða mála
Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

 • Búsetudeild – Unnið er að því að koma á fót tveimur búsetuúrræðum og þar með styttast biðlistar. Áfram er aukið álag í heimaþjónustu.
 • Heilsugæslan – Staðan er svipuð og verið hefur. Viðfangsefnið verður æ þyngra, starfsfólk er færra og sparnaður líka í gangi þetta árið. Ekki verður ráðið í nýjar læknisstöður á þessu ári. Vart hefur orðið við meira óþol í fólki sem leitar þjónustu.
 • Rósenborg – Allt við það sama og síðast.
 • Fjölskyldudeild – Óbreytt staða frá því síðast. Útibú frá Umboðsmanni skuldara verður opnað á mánudaginn 6. febrúar.
 • Skóladeild – Fylgst er með nýtingu leikskóla og Frístundar grunnskólanna eftir þær gjaldskrárhækkanir sem áttu sér stað um áramót. Engar stórar breytingar eru sjáanlegar ennþá. Mikill þrýstingur er frá foreldrum um aukna gæslu og lengingu tíma. Dagforeldrum hefur verið fjölgað til að mæta þörfinni en hætt er við að mikill fjöldi þeirra verði verkefnalaus þegar stór árgangur kemst á leikskóla. Vinnuhópur er að fara í gang um íþrótta- og tómstundaskóla sem yrði liður í heilsdagsskóla. Óþol, þreyta og álag er það sem helst er kvartað yfir í skólakerfinu.
 • Lögreglan – Á árinu 2011 fækkaði innbrotum og þjófnuðum frá því árið áður. Umferðarslysum fækkar milli ára sem og ölvunarakstri og umferðarlagabrotum. Akstur undir áhrifum fíkniefna jókst um 15-20% og fíkniefnamálum fjölgaði um 20%. Meira ber á e-töflum núna en áður.
 • Rauði krossinn – Verkefnin Virkið, Lautin og Fjölsmiðjan sem Rauði krossinn kemur að ganga vel. Starfsmenn Rauða krossins voru Mæðrastyrksnefnd til aðstoðar við úthlutun fyrir jól. Rauði krossinn sinnir ýmsum sjálfboðaliðaverkefnum svo sem heimsóknum til aldraðra og svörun í hjálparsímann 1717.
 • Stéttarfélögin í Skipagötu – Allt við það sama og síðast.
 • Fagfélagið – Nokkuð stöðugt atvinnuástand hefur verið meðal félagsmanna í heilt ár. Eitthvað er um árstíðabundið atvinnuleysi. Skortur á fólki í byggingagreinum er fyrirsjáanlegur á næstu árum þar sem fáir skila sér í nám.
 • Kjölur – Allt gengur sinn vana gang. Frekar rólegt þótt alltaf komi upp einhver vandamál. Fólk er meðvitaðra en áður um rétt sinn og er farið að nýta sjóði félagsins betur.
 • Akureyrarkirkja – Barna- og unglingastarfið dafnar vel og þar fjölgar þátttakendum. Verið er að setja upp söngleik með unglingum úr öllum grunnskólum bæjarins. Alls koma um 60 unglingar að verkefninu. Svipaður fjöldi og áður leitaði eftir jólaúthlutun, eitthvað hefur þó fækkað vegna nýs fyrirkomulags.
 • Glerárkirkja – Gott starf í gangi.
 • FSA – Geðdeild vonast eftir auknu fé til að sinna betur þeim verkefnum sem hafa bæst við.
 • VMA – Samvinna við Vinnumálastofnun um Nám er vinnandi vegur og einnig sérstakur stuðningur við brothættan hóp nemenda. Samstarf er að fara í gang við meistaranema í sálfræði um hópmeðferð fyrir ákveðinn nemendahóp. Í byrjun vorannar var töluvert um að nemendur skiluðu sér ekki í skólann. Mætingar nemenda eru almennt lélegar og brottfall mikið þessar fyrstu vikur ársins. Erfitt að finna úrræði fyrir 16-18 ára ungmenni sem þurfa á aðstoð að halda.

2. Tilgangur og markmið nefndarinnar, tíðni funda
Umræður voru um tilgang og markmið nefndarinnar sem sett var á stofn í október 2008. Ákveðið var að fækka reglulegum fundum. Næsti fundur verður föstudaginn 23. mars.