Almannaheillanefnd

17539. fundur 02. desember 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Soffía Lárusdóttir, búsetudeild

 

Aðrir

Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Rauði krossinn

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, FSA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

1. Staða mála

Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

Aðstoð fyrir jól:

 • Rauði krossinn - Jólafatasöfnun í gangi núna. Samstarf verður milli Rauða krossins og fjölskyldudeildar vegna úthlutana til þeirra sem á þurfa að halda. Mæðrastyrksnefnd verður með úthlutun fyrir jólin.
 • Glerárkirkja - Eins og áður hefur komið fram hjá Almannaheillanefnd þá eru breytt vinnubrögð við úthlutanir á vegum kirkjunnar. Kirkjan veitir fyrst og fremst neyðaraðstoð.
 • Fjölskyldudeild - Óvenjurólegt er enn vegna óska um sérstaka aðstoð fyrir jól.

Staðan almennt:

 • Bæjarstjóri – Verið er að ljúka við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2012. Reynt var að skera eins lítið niður og mögulegt er og horfa frekar í að auka tekjur. Fjölgun farþega á skemmtiferðaskipum er fyrirsjáanleg, tekjur aukast vonandi vegna þess. Vaðlaheiðargöng eru mikilvæg fyrir sveitarfélagið. Tekjur sveitarfélagsins hafa aukist á þessu ári og útgjöld líka. Samstaða er í bæjarstjórninni um að efla stöðu bæjarins. Sameining Byrs og Íslandsbanka nú nýverið hafði þau áhrif að 9 störf á Akureyri verða lögð niður. Frekari fækkun starfa liggur fyrir í febrúar. Enn fjölgar bæjarbúum á þessu ári. Samþykkt hefur verið í bæjarráði að setja í gang klasasamstarf um að auka millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Verið er að skoða viðbótarkostnað sem hlýst af flutningi á starfsemi á vegum Öldrunarheimila Akureyrarbæjar frá Kjarnalundi í nýtt húsnæði við Vestursíðu.
 • FSA – Fyrstu fjárlagadrög ríkisins gerðu ráð fyrir miklum niðurskurði og skerðingu á þjónustu. Eftir aðra umferð er gert ráð fyrir mun minni niðurskurði. Beðið er eftir niðurstöðu úr þriðju umferð. Yfirlýst stefna er að skera ekki niður í þjónustu geðdeildar. Á geðdeild voru innlagnir í nóvember orðnar jafnmargar og allt árið í fyrra.
 • Fagfélagið og Eining-Iðja – Nokkuð bjart útlit er hjá byggingamönnum og vinna hjá þeim að aukast. Verkefni á vegum bæjarins eru mikil og skipta máli. Félagið fór í vinnustaðaheimsóknir í síðustu viku. Á Akureyri kvarta menn helst yfir launum en á höfuðborgarsvæðinu er aðaláhyggjuefnið að halda vinnu. Mjög mikil ásókn er í sjúkrasjóði félaganna. Fólk er meðvitað um rétt sinn og mikið er spurt um útreikninga á desemberuppbót þessa dagana. Samkvæmt nýrri könnun kemur svæðið vel út í samanburði við aðra landshluta sé horft til heildarlauna.
 • Rósenborg – Nóg í gangi frá morgni til kvölds. Félagsmiðstöðvarnar eru að sanna sig sem mikilvægur þáttur í stuðningi við unglinga. Starf Virkisins – virknimiðstöðvar fyrir ungt atvinnulaust fólk sem starfrækt er í samvinnu Akureyrarbæjar, Rauða krossins og Vinnumálastofnunar gengur mjög vel.
 • Fjölskyldudeild – Fjárhagsáætlanavinnan gekk vel. Millifærsla vegna góðs rekstrar á árinu 2010 verður að hluta notuð í sérstakt verkefni félagsþjónustunnar sem snýst um að veita barnafjölskyldum stuðning heima. Í haust hefur orðið aukning í tilvísunum til sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla, einkum skólasálfræðinga. Verið er að skoða með hvaða hætti hægt er að bregðast við því. Umboðsmaður skuldara hefur auglýst eftir starfsmanni vegna opnunar útibús á Akureyri.
 • Búsetudeild – Verið er að breyta því hvernig fjármunum vegna málefna fatlaðra er deilt út til sveitarfélaga og er nú horft til einstaklingsmats. Áhrif þessa á fjárveitingar til Akureyrarbæjar eru í skoðun hjá deildinni. Starfsmannavelta er lítil hjá deildinni. Mikil veikindi hafa verið hjá starfsfólki undanfarið líkt og hjá fleiri deildum bæjarins.
 • Glerárkirkja – Hjá þjóðkirkjunni er mikill niðurskurður á fjárframlögum ríkisins sem hefur áhrif víða. Góð staða er hjá Glerárkirkju og engar uppsagnir. Kirkjan tekur þátt í umræðum og vinnu gegn kynbundnu ofbeldi.
 • Rauði krossinn – Hefðbundið starf í gangi. Sinna m.a. sálrænum stuðningi vegna áfalla. Í slíkum sjálfboðaliðastörfum er gott að vera með fagfólk.
 • Heilsugæslan – Leitað er leiða til að sinna fólki á skilvirkari hátt.
 • Lögreglan – Nokkuð gott jafnvægi á málum.

2. Atvinnuleysi

Norðurland eystra er það svæði sem hefur náð hröðustum bata. Þar er nú 4,5% atvinnuleysi miðað við 6,8% á landsvísu.

Alls eru 808 manns á Norðurlandi eystra án atvinnu, 391 karl og 417 konur. Án atvinnu á Akureyri eru 537, 258 karlar og 279 konur. Að fullu án atvinnu eru 410 manns, 227 karlar og 183 konur. Alls eru 127 manns, 76 karlar og 51 kona, á aldrinum 18-25 ára án atvinnu. Allt það fólk er í virkni, þar af yfir 100 manns í Virkinu í Rósenborg. Á aldrinum 26-29 ára eru 79 manns án atvinnu, 34 karlar og 45 konur. Til stendur að vinna sérstaklega með þann hóp. Samtals 226 á aldrinum 30-55 ára eru án atvinnu, 90 karlar og 136 konur. Á aldrinum 56-70 ára eru 105 án vinnu, 58 karlar og 47 konur. Námskeið var haldið fyrir 60-70 ára í síðustu viku og var afar vel sótt.

Samanburður sem gerður var á menntunarstöðu fólks á atvinnuleysisskrá sýnir að frá október 2009 til október 2011 hefur hlutfallið breyst. Háskólamenntuðum fjölgar úr 11% í 19%. Á Akureyri eru um 100 háskólamenntaðir án atvinnu. Iðnaðarmenn voru 14% en eru nú 9%. Flestir þeirra sem eru á skrá eru úr verslunar- og þjónustugeiranum.