Almannaheillanefnd

17538. fundur 07. október 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslan

Soffía Lárusdóttir, búsetudeild

 

Aðrir

Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn

Hildur Eir Bolladóttir, Akureyrarkirkja

Gunnar Jóhannsson, lögreglan

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun 

Gestur:

Halldór Guðmundsson, HÍ

1. Afleiðingar langtíma atvinnuleysis

Halldór Guðmundsson lektor við Háskóla Íslands var gestur fundarins og kynnti upplýsingar og rannsóknir um áhrif langtíma atvinnuleysis á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið. Hér á landi er miðað við langtíma atvinnuleysi þegar fólk hefur verið án vinnu í 6 mánuði. Um 60% þeirra sem nú eru á skrá á landinu öllu hafa verið án vinnu svo lengi. Á Akureyri er hlutfall þeirra sem verið hafa án atvinnu í ár eða lengur um 31%. Á landsvísu eru flestir langtíma atvinnulausir í aldurshópnum 25-29 ára.

Fram kom í máli Halldórs að afleiðingar atvinnuleysis séu félagslegar, heilsufarslegar (sálrænar, geðrænar, líkamlegar) sem og fjárhagslegar. Þeir þættir sem hafa áhrif á alvarleika afleiðinga atvinnuleysis eru lengd atvinnuleysis, umfang atvinnu, félagsleg tengsl í og utan vinnu, umhverfi og fjölskylda, persónuleikaþættir og fordómar.

Halldór benti á að skoða þyrfti stöðu og líðan atvinnulausra karlmanna þar sem rannsóknir sýna að líðan þeirra er slæm og verri en kvenna. Sýnt hefur verið fram á góð áhrif starfsendurhæfingar á líðan þátttakenda. Ný rannsókn sem gerð var meðal langtíma atvinnulausra á Akureyri sýnir að þegar fólk hefur verið á skrá í u.þ.b. 20 mánuði þá hættir ástandið að versna og viðkomandi virðist vera búinn að gefast upp. Því ættu úrræði að beinast að tímanum fyrir 20 mánuði.

Í umræðum um erindi Halldórs kom fram að atvinnuleitendum í aldurshópnum 25-29 ára fjölgar. Þar er gjarnan um að ræða fólk með börn á framfæri. Hætta er á að fólk einangrist og eigi erfitt með að komast í úrræði. Horfa þarf sérstaklega til þessa hóps núna. Fram kom að fólk sem ekki hefur bótarétt kemur ekki fram í tölum um atvinnuleysi.

2. Staða mála

Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

 • Búsetudeild – Niðurskurður hjá ríkisstofnunum sem sinna velferðarmálum getur haft bein áhrif til aukningar á þjónustu deildarinnar t.d. ef fólk er útskrifað fyrr en áður af sjúkrahúsi og ef heimahjúkrun minnkar verður aukin þörf á heimaþjónustu.
 • Skóladeild - Sölutímum í frístund grunnskólanna hefur fjölgað sem og seldum tímum í leikskólum. Allt er fullt hjá dagforeldrum. Ekki hefur orðið vart við meiri uppsöfnun skulda vegna gjalda sem tengjast skólagöngu barna. Á leikskólum hefur orðið meira vart við vanrækslu eða sinnuleysi gagnvart börnum.
 • Lögreglan - Rólegra hefur verið í haust en áður. Vinnuálag eykst samt sem áður hjá lögreglumönnum vegna þess að ekki er ráðið í stað þeirra sem veikjast eða hætta.
 • Rauði krossinn -  Kemur m.a. að rekstri Lautarinnar og Fjölsmiðjunnar og þar er verið að skoða framtíðina. Rauði krossinn kemur einnig að rekstri Virkisins – virknimiðstöðvar fyrir ungt fólk í atvinnuleit sem nú er nýfarið í gang í Rósenborg.
 • Glerárkirkja – Breytt fyrirkomulag á aðstoð er etv. þröskuldur sem fólki finnst erfitt að stíga yfir þar sem veruleg fækkun hefur orðið meðal þeirra sem leita sér aðstoðar. Betri eftirfylgd virðist vera hjá foreldrum fermingarbarna en áður hefur verið.
 • Akureyrarkirkja – Fólk hefur verið duglegt að nýta sér mannræktartilboð kirkjunnar s.s. bæna- og kyrrðarstundir. Þátttakendum í 12 spora vinnu fjölgar. Samstarf er við grunnskólana og Leikfélag Akureyrar um uppsetningu söngleiks.
 • Bæjarstjóri – Vinna við fjárhagsáætlun bæjarins er í fullum gangi. Unnið er að því að standa vörð um framlög ríkisins til svæðisins.
 • VMA – Skólinn er þéttsetinn. Efla þarf persónulega ráðgjöf til þeirra sem koma inn í skólann í gegnum átakið Nám er vinnandi vegur. Ekki hafa fengist svör frá ríkinu um hvort fjármagn fáist í ráðgjöfina og því er farið að bera á brottfalli. Skoða þyrfti hvort hægt væri að efna til samstarfs við nemendur HA um aðstoð. Nemendur VMA eru þó yfirleitt jákvæðir og duglegir.
 • FSA – Mikil þörf er á einni stöðu sálfræðings til viðbótar og ef hún fengist gæti geðdeildin komið sterkar inn t.d. í vinnu við stuðning við þá nemendur framhaldsskólanna sem á því þurfa að halda.
 • Fjölskyldudeild – Málefni fólks sem þarf að leita til félagsþjónustunnar eru ofarlega á baugi. Verið er að horfa til þess að koma virkni í gang fyrir þann hóp. Hjá velferðarráðuneytinu er verið að skoða hvort opna megi úrræði Vinnumálastofnunar fyrir bótalausum einstaklingum. Bjartsýni ríkir um að útibú frá Umboðsmanni skuldara verði opnað á Akureyri fljótlega.
 • Rósenborg – Virkið - virknimiðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit gengur vel og þátttakendur eru jákvæðir. Skoða þarf með fjölskyldudeild hvernig hægt er að mæta ungum bótalausum einstaklingum með virknitilboðum. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna kemur ásamt grunnskólum og fjölskyldudeild að ýmsum málefnum unglinga í vanda og hefur samstarf á því sviði aukist til muna.
 • Heilsugæslan – Niðurskurður blasir við og framundan eru eingöngu vondar ákvarðanir.
 • Kjölur – Frekar rólegt er hjá félaginu.

3. Atvinnuleysi

Þann 6. október voru alls án atvinnu á Norðurlandi eystra 707 einstaklingar, 310 karlar og 397 konur. Af þessum 707 voru 538 að fullu án atvinnu eða 76%. Á Akureyri voru alls 483 einstaklingar í atvinnuleit, 214 karlar og 269 konur. Að fullu án atvinnu eru 364 eða 75%. Í aldurshópnum 16-29 ára eru 178 án atvinnu, 87 karlar og 91 kona. Á aldrinum 30-55 ára eru 216 á skrá, 80 karlar og 136 konur og á aldrinum 56-70 ára eru 89 án vinnu, 47 karlar og 42 konur.

Í ágúst var atvinnuleysi 4,3% á Norðurlandi eystra en á Akureyri var atvinnuleysið 5,3%. Á sama tíma í fyrra var atvinnuleysi á Norðurlandi eystra 5,4% en á Akureyri 6,6%.

Greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til einstaklinga á Akureyri voru í ágúst sl. kr. 54.041.920. Á sama tíma í fyrra voru greiddar kr. 76.495.984.