Almannaheillanefnd

17537. fundur 02. september 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Anna Marit Níelsdóttir, búsetudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

 

Aðrir

Álfheiður Kristjánsdóttir, Rauði krossinn

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Herdís Zophoníasdóttir, MA

Gunnar Jóhannsson, lögreglan

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

 

1. Staða mála

Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir. 

 • VMA - Skólinn er fullsetinn og nemendur alls 1360. Nýnemar eru um 200 en í skólanum eru einnig um 300 aðrir nýir nemendur. Um 100 nemendur voru teknir inn í verkefnið Nám er vinnandi vegur sem unnið er í samstarfi við Vinnumálastofnun. Mest ásókn er í stúdentsbrautir og hrun er í námi í byggingagreinum. Aukið álag verður á kennara í vetur vegna stærri nemendahópa.
 • MA - Skólastarfið fer í gang um miðjan september. Í vetur er sami nemendafjöldi og verið hefur. Minna fall en áður var hjá nemendum í 1. bekk sl. vor sem þýðir að meiri fjöldi er í 2. bekk nú en verið hefur. Ný námskrá virðist skila þessum bætta árangri nemenda.
 • Leikskólar, grunnskólar, dagforeldrar - Hægt verður að uppfylla flestar óskir foreldra um þjónustu. Alls eru 1080 börn í leikskólunum núna. Aukið fjármagn hefur fengist til að sinna börnum með sérþarfir í leik- og grunnskólum. Skólastarf virðist fara vel af stað.
 • Fjölskyldudeild - Fjárhagsaðstoð hefur aukist verulega.
 • Búsetudeild - Nýtt og öflugra úrræði fyrir geðfatlaða er að fara af stað. Veita á meiri þjónustu inn á einn þjónustukjarna. Verið er að skoða hvort sparnaður á deildinni sem m.a. hefur falist í minni afleysingum í veikindaforföllum birtist í meiri veikindum starfsfólks.
 • Rósenborg - Vetrarstarfið er að fara í gang.
 • Rauði krossinn - Virknisetrið Virkið er nýfarið í gang í Rósenborg. Virkið er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Vinnumálastofnunar og Rauða krossins. Allir 16-25 ára atvinnuleitendur mæta þangað og þurfa að skila 10 tímum í virkni á viku. Verkefnastjóri Virkisins er starfsmaður Rauða krossins og Akureyrarbær leggur einnig til starfsfólk. Hjálparsími Rauða krossins verður á Akureyri eina helgi í mánuði í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
 • Lögreglan - Ekki hefur mælst aukning í neinum brotaflokkum. Stóru helgarnar í sumar gengu ágætlega. Lögreglan finnur fyrir því að samdráttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu hafi orðið þar sem fólk leitar nú til lögreglunnar með hin ýmsu mál. Nýtt á borði lögreglunnar eru kærur vegna þess að tryggingagjald sem greitt hefur verið vegna húsaleigu skilar sér ekki til baka.
 • Stéttarfélögin - Í byggingaiðnaðinum er allt að braggast og fáir iðnaðarmenn á atvinnuleysisskrá núna. Þeir sem eru á skrá eru í úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar. Tugir iðnaðarmanna hafa farið í vinnu til Noregs. Stéttarfélögin í Skipagötunni verða vör við minna atvinnuleysi en á sama tíma í fyrra. Enn er mikið sótt í sjúkrasjóði félaganna. Hjá Kili er frekar rólegt og vonast er til að frekari niðurskurður hjá sveitarfélögunum leiði ekki til uppsagna starfsfólks.
 • Glerárkirkja - Ásókn í aðstoð hefur minnkað töluvert. Enn virðist þó vera mikil þörf hjá einstæðum mæðrum. Kirkjan tók upp breytt fyrirkomulag í vor og kom á formlegri tengslum við skjólstæðinga sem þurfa neyðarstuðning. Lögð er áhersla á að starf á vegum kirkjunnar sé notendum að kostnaðarlausu.
 •  

2. Atvinnuleysi

Í dag eru án atvinnu á Norðurlandi eystra 745 manns. Á atvinnuleysisskrá á Akureyri eru 504, 230 karlar og 274 konur. Um 23% eru í hlutastarfi. Að fullu án atvinnu eru 388 manns, 201 karl og 187 konur.  Í aldurshópnum 18-25 ára eru 115 manns á skrá, þar af er stór hópur í virkni. Á aldrinum 18-29 ára eru 192 á skrá, 89 karlar og 103 konur. Á aldrinum 30-55 ára eru 224 á skrá, 178 karlar og 135 konur og í aldurshópnum 56-70 ára eru 88 manns, 52 karlar og 36 konur á skrá.

 

3. Vímuefnaneysla

Framhald umræðu frá fundi 20. maí sl. Lögreglan telur stöðuna svipaða núna og í vor og að neysla hafi ekki aukist frá því þá. Áhyggjuefni er að ungt fólk metur skaðsemi marijuana litla og mun minni en af hassi. Fulltrúar í almannaheillanefnd telja að halda þurfi umræðunni um skaðsemi kannabisefna gangandi og ekki megi sofna á verðinum. 

 

4. Fundaáætlun

Fastur fundartími almannaheillanefndar verður fyrsti föstudagur í mánuði kl. 10. Næsti fundur verður hjá Vinnumálastofnun og stéttarfélögunum í Skipagötu.