Almannaheillanefnd

16941. fundur 15. apríl 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

 

Aðrir

Gunnar Jóhannsson, lögreglan

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Pétur Maack, FSA

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

1. Virk starfsendurhæfingarsjóður og Starfsendurhæfing Norðurlands
Anna Guðný Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði kynnti sjóðinn og hlutverk hans. Fram kom að hlutverk VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að starfsmenn hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum. 45% af því fjármagni sem farið hefur í kaup á úrræðum hefur verið keypt af Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Á síðasta fundi almannaheillanefndar var áhyggjum lýst af stöðu Starfsendurhæfingar Norðurlands. Nú liggja fyrir upplýsingar um að fjármagn til rekstrar er að klárast og fyrir liggur að starfsfólki verði sagt upp. Málið er komið inn á borð ríkisstjórnarinnar og mun ákvörðun um framhald verða tekin á miðvikudag.

Fundarfólk lýsti áhyggjum af því að þeim sem verst væru staddir og hefðu notið þjónustu Starfsendurhæfingar Norðurlands stæði ekki til boða sú endurhæfing sem þeir þyrftu á að halda félli sú þjónusta niður. Einnig kom fram að eftir lokun dagdeildar geðdeildar FSA hefði sá hópur komist í þjónustu hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Þá var sérstaklega rætt um stöðu ungs fólks sem er án atvinnu og glímir jafnframt við geðræn vandamál og/eða vímuefnaneyslu. Sárlega virðist vanta meðferðarúrræði á Norðurlandi.

Almannaheillanefnd væntir alls hins besta af VIRK sem forvarnaverkefni og hvetur til góðrar samvinnu VIRK og Starfsendurhæfingar Norðurlands. Almannaheillanefnd telur mikilvægt að stutt verði við starf Starfsendurhæfingar Norðurlands og ekki falli niður endurhæfingartilboð til þeirra sem illa eru staddir. Einnig telur nefndin úrræði vanta fyrir geðfatlaða einstaklinga sem og meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vímuefnavanda.

2. Staða mála
Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

  • Vorönnin hjá VMA fór vel af stað en brottfall er þó svipað og áður. Forinnritun er lokið og er aðsókn mikil. Beðið er eftir upplýsingum um hversu miklu fjármagni ríkið hyggst úthluta vegna áherslu á að skólarnir taki við öllum 25 ára og yngri sem sækja um. VMA er með í undirbúningi þróunarverkefni um almennt vinnustaðanám og framhaldsskólaskírteini.
  • Þeim sem leita til Glerárkirkju vegna mataraðstoðar hefur fjölgað.
  • Á FSA stefnir í lágmarksþjónustu í sumar vegna sumarleyfa. Áhyggjur eru af stöðu barna- og unglingageðlækninga og lögð er áhersla á að fá eina stöðu sálfræðings til viðbótar til geðdeildar vegna aukinna og þyngri verkefna.
  • Lögreglan hefur orðið vör við jafna og þétta vímuefnaneyslu. Mikið er um kannabisneyslu og framleiðsla á landa hefur aukist. Vegna niðurskurðar verður ekki hægt að ráða eins marga til sumarafleysinga og áður. Þegar mikið er um að vera í bænum þýðir það að öryggisstig lækkar. Fleiri leita nú til lögreglunnar með margvísleg vandamál.
  • Mikið álag er á fjölskyldudeild eins og áður og fjárhagsaðstoð heldur áfram að vaxa. Verið er að skoða fjölgun félagsráðgjafa. Áfram er unnið að því að fá til starfa fjármálaráðgjafa og enn er þrýst á Umboðsmann skuldara að opna hér útibú.
  • Hjá Heilsugæslustöðinni er mikið að gera. Starfsmenn sinna svipuðum fjölda viðtala og áður þrátt fyrir niðurskurð.
  • Ástandið er svipað og áður hjá stéttarfélögunum í Skipagötu. Ásókn í sjúkrasjóði hefur verið mikil en nú er hægt að sækja um styrki vegna þjónustu geðlækna og sálfræðinga.
  • Virknisetur fyrir ungt fólk án atvinnu er enn í undirbúningi í samstarfi Vinnumálastofnunar og samfélags- og mannréttindadeildar og ætti að geta farið af stað í haust.
  • Mjög vaxandi aðsókn er í þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga á Akureyri.

3. Atvinnuleysi
Á Norðurlandi eystra var atvinnuleysi í mars árið 2009 8,8%, í mars 2010 var það 7,9% og í mars 2011 6,6%. Í dag eru án atvinnu á Norðurlandi eystra 1011 manns. Á Akureyri eru að fullu án atvinnu 477 manns, 300 karlar og 177 konur. Í aldurshópnum 16-29 eru 204 að fullu án atvinnu, 126 karlar og 78 konur. Í hópnum 30-55 ára eru 188 að fullu án atvinnu, 112 karlar og 76 konur og í hópnum 56-70 ára eru 85 manns að fullu án atvinnu, 62 karlar og 23 konur.