Almannaheillanefnd

16940. fundur 20. maí 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristinn H. Svanbergsson, íþróttadeild

 

Aðrir

Árni Jóhannesson, FSA

Hildur Eir Bolladóttir, Akureyrarkirkja

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, MA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

1. Nýting tómstundaávísana
Kristinn H. Svanbergsson íþróttafulltrúi kynnti tómstundaávísanir sem börn á aldrinum 6-11 ára fá sendar árlega. Ávísanirnar jafngilda 10 þús. kr. sem hægt er að nýta til niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi. Nýtingarhlutfall hefur verið að meðaltali 72,5% frá árinu 2007 þegar ávísanirnar voru sendar út í fyrsta sinn. Árið 2010 voru sendar út 1638 ávísanir og alls voru 1132 nýttar.

2. Atvinnuleysi
Atvinnuleysi á svæðinu fer minnkandi. Á Akureyri eru alls 605 manns án atvinnu, 303 karlar og 302 konur. Í hlutastörfum eru 450 manns, 253 karlar og 197 konur. Í aldurshópnum 16-29 ára eru 194 á skrá. Í aldurshópnum 30-55 ára eru 173 á skrá og 83 á aldrinum 56-70 ára. Sérstök áhersla hefur verið á að 25 ára og yngri sæki um sumarstörf. Hafin er kynning á átakinu Nám er vinnandi vegur sem gengur út á að skapa námstækifæri fyrir allt að 1000 atvinnuleitendur á landsvísu. Kynning hefur þegar farið fram á Akureyri í samstarfi Vinnumálastofnunar og Verkmenntaskólans.

3. Staða mála
Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

  • Á geðdeild FSA eru áhyggjur af stöðu langveikra. Verið er að skoða möguleika í samstarfi við búsetudeild Akureyrarbæjar. Starfsemi dag- og göngudeildar hefur vaxið milli ára. Fjöldi sjúklinga sem fékk þjónustu á deildinni jókst lítillega en umtalsverð fjölgun varð á komum sjúklinga á deildina og hafa komur aldrei verið fleiri en árið 2010. Fram kom að mikil þörf er á stöðu sálfræðings til viðbótar. Nokkrar áhyggjur eru af ungu fólki í vímuefnaneyslu.
  • Til Akureyrarkirkju hafa leitað í nokkrum mæli ungir karlmenn í vímuefnaneyslu. Þangað leita líka mikið einstæðar mæður sem búa við erfiðar fjárhagsaðstæður. Kirkjulistaviku er nýlokið og var aðsókn góð. Kirkjusókn hefur verið góð í vetur.
  • Í MA hefur haldist vel á nemendum í vetur. Vart hefur orðið við tilhneigingu meðal nemenda til kvíða og þunglyndis. Í skólanum er reynt að leggja meiri áherslu á lýðheilsu en áður hefur verið.
  • Hjá stéttarfélaginu Kili eru kjarasamningar efstir á baugi. Nokkuð er leitað til skrifstofunnar vegna upplýsingar um réttindi.
  • Í Rósenborg er nú mikil vinna í gangi varðandi sumarstörf ungs fólks á vegum Akureyrarbæjar og Vinnumálastofununar. Grasrótarhópur á Akureyri vinnur að hugmyndum um allsherjar virknimiðstöð.
  • Fulltrúi Glerárkirkju greindi frá því að unnið sé að breyttu verklagi á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar með það að markmiði að auka gæði nálgunar. Miklar niðurskurðarkröfur eru á kirkjunni og hefur það áhrif á þjónustuna.
  • Bæjarstjóri sagði álag vera að aukast á félagsþjónustu bæjarins.
  • Hjá stéttarfélögunum við Skipagötu hafa litlar breytingar orðið.

Almennar áhyggjur voru meðal fundarmanna af vímuefnavanda ungs fólks í bænum og talið mikilvægt að leita sameiginlegra leiða til að vinna gegn honum.