Almannaheillanefnd

16506. fundur 18. mars 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

 

Aðrir

Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Jón Knutsen, Rauði krossinn

Sigmundur Sigfússon, FSA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

 

1. Atvinnuleysi

Á Norðurlandi eystra eru nú 1105 manns án atvinnu, þar af 838 að fullu. Á Akureyri eru 722 skráðir án atvinnu, 406 karlar og 316 konur. Atvinnulausir að fullu á Akureyri eru 532, 334 karlar og 198 konur. Áfram er stærsti hópur atvinnulausra á aldrinum 16-29 ára, 134 karlar og 82 konur. Í aldurshópnum 30-55 ára eru án atvinnu 131 karl og 88 konur og í aldurshópnum 56-70 ára 69 karlar og 28 konur. Í Hrísey eru 23 án atvinnu, þar af 19 að fullu. Í hópnum eru 11 karlar og 12 konur.

 

2. Umboðsmaður skuldara

Á fundi almannaheillanefndar 17. desember 2010 var rætt um mikilvægi þess að opnuð yrði starfsstöð Umboðsmanns skuldara á Akureyri. Bæjaryfirvöld hafa komið á framfæri formlegri ósk þar um. Enn hafa ekki borist svör og lýsir almannaheillanefnd yfir áhyggjum af stöðu mála þar sem brýn þörf virðist vera fyrir þjónustu Umboðsmanns á Akureyri.

 

3. Starfsendurhæfing Norðurlands

Á fundinum komu fram upplýsingar um að framtíð Starfsendurhæfingar Norðurlands sé ótrygg þar sem samningur við ríkið renni út í maí. Almannaheillanefnd lýsir áhyggjum af stöðunni en falli starfsemi Starfsendurhæfingar Norðurlands niður er fjöldi fólks sem ekki hefur tök á neinum endurhæfingarúrræðum og hætt við að álag á félagsþjónustu bæjarins aukist.

 

4. Staða mála

Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir.

  • Aukning hefur orðið á fjárhagsaðstoð og var febrúarmánuður þyngri en áður hefur sést, fyrir utan jólamánuðinn. Vart hefur orðið við áberandi þreytu hjá starfsfólki félagsþjónustunnar.
  • Í Rósenborg er áfram unnið að undirbúningi virkniseturs fyrir ungt fólk í samstarfi við Vinnumálastofnun.
  • Hjá búsetudeild og heilsugæslustöð eykst álag hjá heimaþjónustu og heimahjúkrun vegna lokunar öldrunarrýna. Mikið er að gera hjá heilsugæslunni og álag eykst jafnt og þétt. Töluvert ber á því að fólk hafi ekki efni á komugjöldum.
  • Hjá skóladeild er unnið að mögulegri hagræðingu í góðu samráði við foreldra og starfsfólk skóla. Vart hefur orðið við aukna skuldasöfnun hjá foreldrum skólabarna vegna leikskólagjalda, frístundar og skólafæðis.
  • Nýting á fatamarkaði Rauða krossins hefur aukist mikið. Mæðrastyrksnefnd úthlutaði í desember til 450 einstaklinga og fjölskyldna. Í febrúar nutu 76 aðstoðar nefndarinnar.
  • Bæjarstjóri upplýsti að Akureyrarbær hafi ákveðið að leggja 2 milljónir í hlutafjárframlag til endurreisnar skelræktar í Hrísey. Mánudaginn 21. mars verður haldinn opinn fundur um framtíð atvinnumála í Hrísey. Heilsugæslumál í Hrísey eru til skoðunar. Tekjur Akureyrarbæjar hafa verið að aukast m.a. vegna minnkandi atvinnuleysis. Þrátt fyrir fækkun öldrunarrýma hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar verður starfsfólki ekki sagt upp. Ýmis verkefni sem hafa áhrif á atvinnuástandið eru að fara í gang s.s. bygging hjúkrunarheimilis og gerð Vaðlaheiðarganga. Sveitarfélagið hefur unnið að atvinnumálum með ýmsum hætti og m.a. komið að fundum um atvinnumál. Stuðningur við ungt atvinnulaust fólk á Akureyri hefur vakið athygli.
  • Hjá félögum byggingarmanna eru nú erfiðustu atvinnuleysismánuðurnir. Stéttarfélögin auglýsa námskeið af ýmsu tagi fyrir félagsfólk sitt og eru þau vel sótt.
  • Hjá FSA er uggur í starfsfólki vegna fækkunar á öldrunarrýmum. Til þyrfti að koma sérstök fjárveiting til að efla geðdeildir í landinu enda sýnir reynsla Finna af kreppuástandi að slíkt er nauðsynlegt. Áhyggjur eru af kannabisfaraldri meðal 20-35 ára fólks hérlendis.