Almannaheillanefnd

16398. fundur 18. febrúar 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Anna Marit Níelsdóttir, búsetudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

 

Aðrir

Gunnar Jóhannsson, lögreglan

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, FSA

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Svavar Jónsson, Akureyrarkirkja

 

1. Staða mála

Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir. Almennt virðist staða mála lítið hafa breyst frá síðasta fundi.

  • Stéttarfélögin finna fyrir meiri áhuga sinna félagsmanna á upplýsingum um réttindi og styrkjamöguleika.
  • Farið er að verða vart við þreytu hjá starfsfólki hjá þeim stofnunum bæjarins þar sem ekki eru kallaðar út afleysingar ef um veikindi eða aðrar fjarverur er að ræða.
  • Fjárhagsaðstoð Akureyrarbæjar heldur áfram að aukast. Starfsfólk í félagsþjónustu finnur fyrir því að tímabundið starf fjármálaráðgjafa er ekki lengur fyrir hendi.
  • Vanskil á gjöldum vegna leik- og grunnskóla hafa farið vaxandi. Það bitnar þó ekki á börnum skuldara því þau njóta áfram þeirrar þjónustu sem foreldrar þeirra hafa óskað eftir.
  • Vegna þess hversu óvenju stór árgangur 2010 er lítur út fyrir að fjölga þurfi dagforeldrum. Plássum á leikskólum bæjarins hefur einnig verið fjölgað.
  • Hjá kirkjunum býst starfsfólk við að beiðnum um aðstoð fari að fjölga. Eins og í fyrrasumar mun Akureyrarkirkja bjóða einstæðum foreldrum í sumarleyfisdvöl að Vestmannsvatni. Einnig verður börnum sem búa við erfiðar aðstæður gert kleift að sækja sumarbúðirnar.
  • Málafjöldi sem kemur inn á borð lögreglu hefur lítið breyst. Ekki hefur orðið vart við fleiri ofbeldismál á heimilum eða barnaverndarmál en áður. Fólk virðist orðið meðvitaðra um bótamöguleika sína t.d. vegna umferðarslysa. Vart hefur orðið við að fólk sem glímir við geðrænan vanda leiti til lögreglunnar í mun meira mæli en áður vegna margvíslegra mála.

 

2. Atvinnuleysi

Án atvinnu á Norðurlandi eystra eru nú 1158 manns. Á Akureyri eru alls 740 á atvinnuleysisskrá. Að fullu án atvinnu eru 539 manns, 351 karl og 188 konur. Karlar eru í meirihluta atvinnulausra í öllum aldurshópum. Stærsti hópur atvinnulausra er á aldrinum 16-29 ára, alls 279 manns. Enn eru í gangi sérstök úrræði fyrir þann aldurshóp.

Nokkur hreyfing hefur verið á vinnumarkaðnum og atvinnlausum á Akureyri hefur fækkað um 100 manns frá því í síðasta mánuði. Akureyri hefur gjarnan fylgt landsmeðaltali í atvinnuleysi en er nú undir þeirri tölu.

 

3. Börn og ungt fólk

Umræða var um stöðu barna á Akureyri m.t.t. skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs. Gæta þarf þess að aðstöðumunur verði ekki til þess að börn hrekjist úr íþrótta- og tómstundastarfi og þar sé ekki eingöngu horft til afreksmennsku. Þá var einnig umræða um ungt atvinnulaust fólk og mikilvægi þess að sá hópur verði ekki að óvirkum samfélagsþegnum eins og rannsóknir benda til að hætta sé á.