Almannaheillanefnd

16115. fundur 21. janúar 2011

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

 

Aðrir

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Ingibjörg Jónsdóttir, Vinnumálastofnun

Jón Már Héðinsson, MA

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigríður Ásta Hauksdóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

1. Þjónusta við fólk sem glímir við geðrænan vanda
Rætt var um þau úrræði sem í boði eru, samstarf og mikilvægi markvissrar þjónustu. Fram kom að margvísleg og góð þjónusta er í boði. Ákveðnar áhyggjur komu fram á fundinum af auknum fjölda fólks, ekki síst ungs fólks, sem glímir við kvíða og áhyggjur t.d. í kjölfar langtíma atvinnuleysis. Stefnt er að því að fulltrúar Akureyrarbæjar taki að sér að boða til sérstaks fundar um málefnið með það fyrir augum að kortleggja úrræði og samhæfa.

2. Staða mála
Fundarfólk greindi frá stöðunni í þeim málaflokkum og starfsemi sem það er fulltrúar fyrir. Almennt virðist staða mála lítið hafa breyst frá því fyrir áramót.

  • Hjá Heilsugæslustöð og búsetudeild er horft fram á vaxandi álag m.a. vegna samdráttar annars staðar.
  • Aukning varð á fjárhagsaðstoð bæjarins á síðasta ári. Nýlega var gerð breyting á framfærslugrunni sveitarfélagsins og grunnupphæðin hækkuð.
  • Í leik- og grunnskólum er reynt að draga eins lítið úr þjónustu við börn og hægt er. Foreldrar finna helst fyrir því að forföllum kennara er ekki mætt eins mikið og áður. Áherslan við gerð fjárhagsáætlunar bæjarins var sú að verja velferðar- og skólamál eins og mögulegt var.
  • Í MA var áhersla lögð á að skera ekki niður þjónustu námsráðgjafa. Ekki hefur orðið vart við aukna ásókn í styrki úr sérstökum nemendasjóði.
  • Vinnumálastofnun heldur áfram átaki til að koma ungu fólki sem er án atvinnu í virkni. Í skoðun er að Ungmenna-Húsið í Rósenborg taki að sér hlutverk athafnaseturs í samstarfi við Vinnumálastofnun og fleiri. Einnig liggur fyrir að beina sjónum sérstaklega að ungu fólki sem gengur illa að fóta sig í þeim tilboðum sem þeim standa til boða.
  • Stéttarfélögin finna fyrir auknum fyrirspurnum félagsfólks um réttindi sín. Í byggingariðnaði er enn eitthvað um verkefni og atvinnuleysi í þeirri grein er minna en áður. Það skýrist að hluta af því að margir hafa horfið úr greininni í störf erlendis eða snúið sér að ólíkum verkefnum.

3. Atvinnuleysi
Atvinnuleysi nú er minna en á sama tíma í fyrra. Á Akureyri eru alls 845 manns á atvinnuleysisskrá, þar af 26% í hlutastörfum eða minnkuðu starfshlutfalli sem er mun hærra hlutfall en á landsvísu. Konur án atvinnu eru 336 og karlar 506. Fjölgað hefur á skrá frá því í desember en það skýrist af árstíðabundinni sveiflu. Á Norðurlandi eystra eru 35% þeirra sem eru skráðir án atvinnu skilgreindir sem langtíma atvinnulausir þ.e. hafa verið án vinnu í 6 mánuði eða lengur.

4. Upplýsingar frá lögreglunni
Upplýsingar frá lögreglunni voru kynntar fyrir fundarfólki og þar kom fram að lögreglan mæti ástandið á Akureyri þannig að það sé nokkuð rólegt og hafi lítið breyst frá því fyrir hrun.

5. Neyðaraðstoð hjálparstofnana
Umræða varð um fyrirkomulag og samstarf þeirra aðila sem veita fólki neyðaraðstoð á Akureyri. Stefnt er að því að koma á fundi með fulltrúum viðkomandi hjálparstofnana þar sem ræða á um samstarf.