Almannaheillanefnd

15760. fundur 03. desember 2010

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

 

Aðrir

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA

 

Gestur

Gerður Jónsdóttir, Fjölskylduhjálp Íslands

 

1. Fjölskylduhjálp Íslands

Gerður Jónsdóttir verkefnisstýra Fjölskylduhjálpar Íslands á Akureyri var gestur fundarins. Fjölskylduhjálpin tók til starfa á Akureyri nú í nóvember og hefur úthlutað mat tvisvar sinnum. Allmargir hafa þurft að nýta sér matargjafir en fólk þarf að sýna fram að atvinnuleysi, örorku eða lág laun til þess að geta fengið aðstoð. Fjölskylduhjálpin er til húsa að Freyjunesi 4 og úthlutun fer fram á miðvikudögum frá kl. 16-18.

Rætt var um aðgengi að hjálparmiðstöðinni og strætisvagnasamgöngur. Fram kom að leigubílstjórar hafa verið hjálplegir við að koma fólki til og frá staðnum sem og sjálfboðaliðar.

Umræður urðu um það form sem verið hefur á matarúthlutunum hér á landi og möguleika á öðru fyrirkomulagi s.s. að notast við inneignarkort í meira mæli. Þá kom einnig fram að mikilvægt sé að skoða samstarf og upplýsingagjöf milli þeirra aðila sem veita aðstoð af þessu tagi á Akureyri með það fyrir augum að ná betri yfirsýn yfir þann vanda sem við er að etja og til að bæta þjónustu við fólk í vanda. Fjölskylduhjálpin er opin fyrir samstarfi.

2. Staða barnafjölskyldna

Staða barnafjölskyldna var rædd en rannsóknir hafa sýnt að börnum atvinnuleitenda líður verr en öðrum börnum og það sama á við um börn innflytjenda. Ekki hefur verið mikil aukning á vanskilum vegna skólamáltíða og leikskólagjalda. Slík vanskil eru ekki send til innheimtufyrirtækja.

3. Fjármálaráðgjöf

Akureyrarbær og Vinnumálastofnun hafa átt í samstarfi um sérhæfða fjármálaráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna í vanda. Því verkefni lýkur nú um áramót. Ekki hefur tekist að fá ráðgjafa á vegum Umboðsmanns skuldara staðsettan á Akureyri. Bæjaryfirvöld hafa unnið í því máli enda mikilvægt að það séu ekki eingöngu íbúar á höfðuborgarsvæðinu sem njóti slíkrar þjónustu. Umboðsmanni skuldara verður boðið á næsta fund Almannaheillanefndar.

4. Tilgangur og hlutverk Almannaheillanefndar

Að frumkvæði bæjarstjóra urðu umræður um tilgang og hlutverk nefndarinnar og þeirri spurningu velt upp hvort ástæða væri til að færa henni víðtækara hlutverk og umboð til aðgerða. Upphaflega hugmyndin með stofnun Almannaheillanefndar var að hafa hana óformlega nefnd skipaða fólki sem kemur að samfélagslegri þjónustu við bæjarbúa. Aðalmarkmiðið var upplýsingaöflun og tengsl. Niðurstaða umræðnanna var að halda hlutverki nefndarinnar óbreyttu. Bæjarráð er hvatt til að vísa spurningum og verkefnum til nefndarinnar og jafnframt er bæjarfulltrúum boðið að sitja fundi nefndarinnar þegar þeir óska til að fá betri innsýn í störf hennar.

Sýnileiki nefndarinnar út á við var ræddur sem og aðgengi að fundargerðum. Fundarfólk var hvatt til að setja vísun á vefsíður sinna stofnana í fundargerðir nefndarinnar sem birtar eru á síðu Akureyrarbæjar. Þá var ákveðið að fundargerðir verði hér eftir sendar fjölmiðlum.

5. Atvinnuleysi

Soffía Gísladóttir fór yfir nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun. Nú eru alls 669 manns á skrá á Akureyri, þar af 181 í hlutastarfi. Alls eru 262 á aldrinum 16-29 ára á skrá, 132 á aldrinum 30-39 ára, 215 á aldrinum 40-59 ára og 60 manns á aldrinum 60-70 ára. Skráningum fjölgar nú hratt enda erfiðasti tími ársins hvað atvinnumál varðar að fara í hönd. Atvinnuleysi á Akureyri er nú 0,5% lægra en á sama tíma í fyrra og mælist 7,1%.

Vinnumálastofnun kemur að starfsemi sérstakst þjálfunarvinnustaðar með Starfsendurhæfingu Norðurlands. Tilgangur vinnustaðarins er að þjálfa fólk aftur til starfa eftir langtíma atvinnuleysi. Átakið Ungt fólk til athafna heldur áfram enda hefur það gefið góða raun.

6. Heilbrigðisþjónusta

Rætt var um áhrif niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu hjá nágrannasjúkrahúsunum á starfsemi FSA. Fram kom að samráðsnefnd forstjóra heilbrigðisstofnana á svæðinu hefur unnið sameiginlegt mat á áhrifum.

Umræður urðu um hvort þær aðstæður séu að skapast að nauðsynlegt verði að reka sjúkrahótel á Akureyri. Rauði krossinn á eina íbúð sem ætluð er sjúklingum eða aðstandendum. Þá hafa sjúklingar og aðstandendur einnig nýtt sér orlofsíbúðir stéttarfélaganna.