Almannaheillanefnd

15556. fundur 09. nóvember 2010

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Áskell Örn Kárason, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, ráðhús

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Kristinn H. Svanbergsson, íþróttadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

Ólafur Pálsson, fjölskyldudeild

 

Aðrir:

Arna Ýr Sigurðardóttir, Glerárkirkja

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Hildur Eir Bolladóttir, Akureyrarkirkja

Jón Knudsen, Rauði Krossinn

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, MA

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining- Iðja

 

Gestir:

Birgir B. Svavarsson, Landsbankinn

Gunnar Jóhannesson, Lögreglan

Sigurður K. Harðarson, Arion-banki

 

1. Staðan á Akureyri

Birgir frá Landsbankanum fór stuttlega yfir stöðu Landsbankans á Akureyri. Fullt af fólki er í einhverjum vandræðum en úrræðin eru mörg. Verið er að endurreikna erlendu húsnæðislánin en þau voru ekki mjög mörg eða 100-150. 30 einstaklingar/hjón hafa farið í gegn um sértæka skuldaaðlögun á vegum bankans.

Sigurður frá Arion banka sagði að erlendu lánin væru ekki almennt til vandræða. Um 60 manns hér í Eyjafirði væri í langvinnum vandræðum en búið væri að taka 20-25 í gegnum sértæka skuldaaðlögun á vegum bankans. 10 manns væru með tilsjón og fleiri einstaklingar í vinnslu. Ný lög um ?skjól? eftir að einstaklingar hafa óskað aðstoðar hjá umboðsmanni skuldara fresta mörgum málum. Flest vandamálin sagði hann að væru langstæðari en kreppan þó svo oft hefðu þau versnað við hana. Verið er að endurreikna erlendu fasteignalánin. Arion banki hefur ekki keypt neina eign á uppboði á þessu ári en 3 eignum hefur verið afsalað til þeirra.

Báðir sögðu þeir oft erfitt að fá fólk til viðræðna um sín skuldamál. Fjölmiðlaumræðan væri neikvæð og misvísandi skilaboð frá stjórnvöldum hjálpuðu ekki til. Almenn tortryggni gagnvart bönkunum hjálpar heldur ekki til. Tiltölulega lítill hópur viðskiptavina bankanna hér á Akureyri er í miklum vanda en fjárhagur flestra hefur þrengst í kreppunni og ekki vitað hvernig veturinn fer. T.d. fara erlendu bílalánin að koma aftur í endurgreiðslu á næstunni og margir sem ekki munu ráða við afborganir þar. Séreignasparnaður minnkar og það á eftir að harðna á dalnum almennt hjá fólki í vetur.

Gunnar frá lögreglunni sagði að ástandið á Akureyri hefði lítið breyst frá því fyrir hrun. Eitthvað væri þó um að húsum og bílum er ?rústað? þegar fólk sér fram á að missa það. Afskipti af börnum og unglingum væri svipað og áður og ekki virðist vandræðum í heimahúsum vera að fjölga. Félagslegu tengslin við skólana hefðu samt rofnað við að starfsmaður hætti í vor og ekki væru til peningar til að ráða annan.

Karólína kvað aðstoð fjölskyldudeildarinnar alltaf vera að aukast en þeirra skjólstæðingahópur væri ekki endilega sá sami og í bankakerfinu. Fjármálaráðgjafinn hefur komið að um 70 málum síðan hann var ráðinn og megnið af því fólki voru fyrir skjólstæðingar félagsþjónustunnar. Lausaskuldir þessa hóps eru oft nokkuð miklar og erfitt að finna úrræði þegar tekjur eru lágar. Karólína sagði frá fundi sínum og fl. félagsmálastjórum með félags- og tryggingamálanefnd Alþingis fyrir stuttu en nefndin var m.a. að skoða hvort opinberi geirinn væri að hindra eða stöðva úrrræði eins og skuldaaðlögun. Minnkandi húsaleigubætur frá ríkinu munu ekki heldur hjálpa fólki í vanda. Rætt er um hjá nefndinni að lengja á einhvern hátt bótatímabil hjá Vinnumálastofnun. Jafnframt kom fram á fundinum að þeir einstaklingar sem hæst hafa í fjölmiðlum eru ekki endilega skjólstæðingar félagsmálastofnana.

Áskell hjá barnaverndinni kvað vandræði hafa aukist en ekkert mjög mikið. Aukin vandræði kæmu fyrr fram í skólunum og staðfesti Gunnar að einhver aukning hefði orðið þar. Sigurlaug kvað góðan bekk hafa komið inn í MA í haust og ekki bæri á óeðlilegum vandræðum þar. Hins vegar hefði kvíða og þunglyndisvandamálum fjölgað sl. 10 ár.

Atvinnuleysi á Akureyri í dag er 638 einstaklingar sem er fjölgum um 31 á 1 mánuði. Sérstaklega fjölgar ungu fólki en um 240-250 atvinnulausir eru á þeim aldri. 28% af atvinnulausum eru í hlutastarfi eða 175-180 manns. Verkefnið Ungt fólk til athafna verður áfram en ÞOR verkefnið verður lagt niður. Atvinnuleysi mun aukast í vetur.

Hjá kirkjunum er um einhverja aukningu að ræða í beiðnum um aðstoð en af þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð fækkar í hópi öryrkja en fjölgar hjá öðrum hópum. Börnum líður ekki verr en áður og ef til vill sinna foreldrar þeim almennt betur. Á geðdeild FSA eiga skjólstæðingar þar erfiðara fjárhagslega en áður en 400-500 manns hafa samskipti þangað á hverju ári.

Hjá verkalýðsfélögunum er staðan svipuð og síðast en allnokkur aukning er í umsóknum í sjúkrasjóð Einingar-Iðju og sjúkrasjóð verslunarmanna. Alltaf koma upp tilvik um kennitöluflakk og þá um leið hugsanlega töpuð réttindi starfsfólks þar sem fyrirtæki hafa ekki skilað inn félagsgjöldum og fl. Vinnustaðakort ættu að minnka svarta vinnu en verkalýðsfélögin munu að mestu fylgjast með því.

Rætt var nokkuð um matargjafir og mismun milli landsvæða í þeim efnum en safnanir almennt skila sér ekki norður. Mæðrastyrksnefndin á Akureyri er fjárvana og hefur ekki getað hjálpað til lengst af á þessu ári. Nú er nefndin í samvinnu við Rauða Krossinn að hrinda af stað fjársöfnun vegna væntanlegrar hátíðar. 450 fjölskyldur fengu aðstoð hjá mæðrastyrksnefnd fyrir síðustu jól. Hjá Rauða Krossinum eiga fleiri erfiðara með að greiða 500 kr. fyrir fatapoka.

Almennt séð virðist staðan á Akureyri vera eitthvað skárri en fyrir sunnan en langvarandi lægri tekjur fólks eiga eftir að valda vandræðum á næstu mánuðum og árum til viðbótar við þá sem komnir eru í vandræði nú þegar.

 

2. Næsti fundur

Gunnar lagði fram drög að fundarplani vetrarins en næsti fundur verður á HAK 19. nóv. nk.