Almannaheillanefnd

15286. fundur 28. september 2010

 

Mætt:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, ráðhús

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

 

Aðrir:

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Vinnumálastofnun

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn

Heimir Kristinsson, Fagfélagið

Hildur Eir Bolladóttir, Akureyrarkirkja

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, MA

 

Í upphafi fundar var tilgangur nefndarinnar aðeins rifjaður upp en það er að taka stöðu mála í samfélaginu á hverjum tíma og eftir atvikum gera tillögur um breytingar eða ný vinnubrögð á ýmsum sviðum.

 

  1. Staðan í dag.

Staðan á búsetudeild er svipuð og sl. vor en verið er að skoða mögulegar leiðir til að bregðast við boðuðum niðurskurði á fjárveitingum ríkisins á næsta ári. Nóg er að gera hjá starfsfólki og eru langtímaveikindi farin að herja á starfsfólk vegna álags. Nokkuð er um að lokanir á öðrum stofnunum bitni á heimaþjónustu og heimahjúkrun. Nóg er að gera á fjölskyldudeildinni en staðan að mestu viðráðanleg. Mikil aukning hefur verið það sem af er þessu ári í grunnframfærslu fjárhagsaðstoðarinnar. Mikið álag er í barnaverndinni og nokkur aukning hjá skólasálfræðingum. Nokkrir skjólstæðingar fjölskyldudeildarinnar tóku þátt í atvinnuátaki í sumar og komust sumir þeirra í vinnu í framhaldi af því.

Heilsuverndin á heilsugæslustöðinni gengur vel en barnafólki fjölgar í bænum. Skólaheilsugæslan er fullmönnuð og ný vinnubrögð í gangi þar að einhverju leyti. Skortur á aðgengi að sérfræðingum þýðir meiri ásókn í heilsugæslulækna og mikið álag hefur verið á starfsfólk í móttöku og á símaskiptiborðum. Biðtími eftir tíma hjá heilsugæslulækni er að lengjast og hann datt ekki niður í sumar eins og oft áður. Álag er mikið í heimahjúkrun og það vantar upp á að hægt sé að veita þá þjónustu sem sótt er um. Starfsfólk er þreytt eftir sumarið. Óvissa er enn með niðurskurð á næsta ári.

Akureyrarbær þarf að spara enn meira í rekstri á næsta ári og eru allar deildir að leita leiða til að skera niður útgjöld þ.m.t. skóladeild. Fólki í greiðsluerfiðleikum með greiðslur fyrir börnin í mötuneytum og í leikskólum hefur fjölgað en enn sem komið er hefur það ekki bitnað á börnunum. Í tillögum hjá ríkinu er til skoðunar að fækka  hjúkrunarrýmum um 7 í greiðslum til Öldrunarheimilisins á næsta ári.

Í MA byrjar skólaárið vel en sparnaður er í gangi og því fleiri nemendur í hverjum bekk. Enn meiri niðurskurður verður á næsta ári. Útskriftarferð stúdentsefna í haust fór vel fram. Nemendur eru 30 færri en í fyrra. Hjá kirkjunum eru ekki miklar breytingar en eftirspurn eftir aðstoð eykst alltaf og hjá Akureyrarkirkju eru einstæðar mæður nokkuð áberandi. Akureyrarkirkja bauð nokkrum einstæðum foreldrum í vikudvöl á Vestmannsvatni sl. sumar og tókst það mjög vel. Verkefnið ?Adrenalín gegn rasisma? er nýbyrjað og fer vel af stað en það er ætlað fyrir ungmenni af erlendum uppruna og íslensk börn. Verkefnið er að skapa tengsl til að brjóta múra eða koma í veg fyrir myndun þeirra.

Atvinnuleysið í dag er 607 manns sem er 200 færri en síðari hluta júní og rúmlega 100 færri en fyrir ári síðan. Í Grímsey eru 2 á skrá en 21 í Hrísey. Af þessum 607 eru 188 í hlutastarfi.  Skipting milli kynja er mjög jöfn. Verkefnið ungt fólk til athafna gekk vel og heldur áfram nú í haust en það nær til aldurshópsins 18-29 ára. ÞOR er nýtt námskeið fyrir atvinnulausa á aldrinum 30-70 ára sem hafa verið atvinnulausir í 1 ár eða lengur. Margir atvinnulausir eru að skoða námsmöguleika.

Allt er frekar rólegt á FSA en erfiðleikar hafa verið með ráðningar lækna á ákveðnar deildir og veldur það vandræðum í starfseminni. Heldur hefur aukist eftirspurn eftir göngudeildarþjónustu á geðdeildinni en enn sem komið er tekst að halda sjó. Almenningur virðist hafa áhyggjur af stöðu Sjúkrahússins og spyr starfsfólk um álagið í vinnunni. Á næsta fundi verða lagðar fram upplýsingar um aldursþróun sjúklinga á geðdeild sl. 10 ár. Eftirspurn eftir fötum hjá Rauða Krossinum er svipuð og verið hefur. Rauði Krossinn auglýsti eftir skólafatnaði og skólavörum og kom nokkuð inn en ekki hefur verið mikil eftirspurn eftir því. Mæðrastyrksnefnd fór í sumarfrí og að öllu óbreyttu stendur ekki til að veita meiri aðstoð fyrr en undir jól. Peningar eru uppurnir og ekki nóg að hafa með frjálsum framlögum. Hver úthlutun kostar á aðra miljón króna.

Hjá verkalýðsfélögunum virðist vera sem ástandið sé svipað og verið hefur en óvissa er með haustið og veturinn. Minni ásókn er í sjúkrasjóð félagsins en á sama tíma í fyrra en hún margfaldaðist eftir hrunið.

 

  1. Önnur mál.

Spurt var um almennt ástand fólks og hvort vitneskja væri um einstaklinga sem svelta. Vitað er að margir eiga erfitt en ekki er almenn vitneskja um fólk sem sveltur. Rætt var allmikið um þörf fyrir ?súpueldhús? og ákveðið að kanna þann möguleika nánar. Fram kom að í báðum kirkjunum er boðið upp á hádegisverð einu sinni í viku í tengslum við starfið þar og þar geta einstaklingar fengið frían mat. Rætt var nokkuð um hverjir þurfa raunverulega aðstoð í samfélaginu í dag og hvort og þá hvernig hægt er að rétta því fólki hjálparhönd. Rætt var um nauðungarsölur á íbúðum á Akureyri.