Almannaheillanefnd

15244. fundur 16. september 2010

Fundur haldinn í sal í VMA kl. 10

 

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, bæjarritari

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Aðrir:

Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Vinnumálastofnun

Ásgrímur Örn Hallgrímsson, Eining-Iðja

Sigmundur Sigfússon, FSA

Sigríður Huld Jónsdóttir, VMA

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, MA

 

  1. Staðan í dag.

Allt er frekar rólegt á búsetudeild en verið er að skoða mögulegar leiðir til að bregðast við boðuðum 5% niðurskurði á fjárveitingum ríkisins á næsta ári. Þetta eru 50 m.kr. í málaflokki fatlaðra og ef sama krafa verður gerð á HAK og á ÖA bætast við tæpar 100 m.kr. til viðbótar. Í bæjarráði í gær var samþykkt beiðni frá fjölskyldudeild um aukningu á stöðum sálfræðings um 50% á næsta ári. Nóg er að gera á fjölskyldudeildinni en staðan viðráðanleg. Samkvæmt viðtölum við skólastjóra virðist ekki vera krepputengt ástand í grunnskólunum. Barnsfæðingum fjölgar og um 60 börn á leikskólaaldri hafa flutt til bæjarins undanfarna mánuði og vantar líklega leikskólapláss til að mæta þessari aukningu.

Í framhaldsskólunum er ástandið nokkuð stöðugt. Inntaka nemenda næsta vetur virðist vera í hámarki en vegna niðurskurðar í fjárveitingum verður því mætt með fækkun stjórnenda og fjölgun nemenda í bekkjum og áföngum. Um 1.400 hafa fengið inngöngu í VMA og um 760-770 í MA. Nemendum í MA hefur á nokkrum árum fjölgað úr um 600 og aldrei hafa fleirum verið boðin skólavist í VMA en nú í vor. Nokkuð stórum hópi var hafnað um inngöngu í VMA m.a. vegna fyrri námssögu og búsetu. Brottfall sl. vetur var frekar í minna lagi en flestir sem hættu fóru að vinna. Brottfall nemenda í MA var í sögulegu lágmarki en mætingar nemenda verri en undanfarna vetur m.a. vegna veikinda og fl. hjá kennurum. Unnið er öðruvísi í dag í VMA með nemendur með einhverja geðræna erfiðleika varðandi stuðning við þá. Annars virðist starfið í framhaldsskólunum hafa gengið almennt vel sl. vetur.

Atvinnuleysið í dag er 809 manns sem er mjög svipað og fyrir mánuði síðan. Karlmönnum hefur fækkað en konum fjölgað. Aðeins 124 eru í hlutastarfi sem er veruleg fækkun frá fyrra mánuði. Verkefnið ungt fólk til athafna gekk vel og voru m.a. ýmis námskeið í gangi. Samstarfið við SÍMEY og Akureyrarbæ gekk mjög vel en greinilega þarf meiri sjálfstyrkingu í gegnum námið hjá SÍMEY. Í haust munu þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár fá sams konar úrræði hjá Vinnumálastofnun. Búið var að tala við um 300 ungmenni á atvinnuleysisskrá sl. 3 vikur og flest þeirra höfðu fengið einhvert atvinnuúrræði í sumar.

Mikið var rætt um tölvufíkn og fl. vandamál hjá ungu fólki og svo sem mörgu atvinnulausu fólki og hversu margir væru atvinnulausir en hvergi á skrá. Vegna trúnaðarmála er erfitt að fá einhverja heildarmynd af stöðu fólks.

Allt er frekar rólegt á FSA en erfiðleikar hafa verið með ráðningar lækna á ákveðnar deildir. Heldur hafa aukist komur á bráðamóttöku á geðdeild.

Hjá verkalýðsfélögunum virðist vera sem ástandið sé eitthvað að skána en mikil óvissa er með haustið. Í könnun sem gerð var nýlega meðal félagsmanna Einingar-Iðju kom m.a. í ljós að 23% þeirra hafa litlar áhyggjur af atvinnuöryggi sínu, 58% nokkrar og 19% miklar áhyggjur. Minni ásókn er í sjúkrasjóð félagsins en á sama tíma í fyrra en hún margfaldaðist eftir hrunið. Samt er ásóknin enn mikil.

Rætt um að fá fulltrúa L-listans á næsta fund í ágúst.