Almannaheillanefnd

14799. fundur 08. júní 2010

Fundur haldinn í fundarsal HAK kl. 10

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslustöð

Aðrir:

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Emilía Baldursdóttir, VMA

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn

Heimir Kristinsson, félag byggingamanna

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigríður Ásta Hauksdóttir, Vinnumálastofnun

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun 

 

  1. Staðan í dag.

Rósenborg er að komast í sumargírinn og starfsemin minnkar víðast m.a. í Punktinum. Á fjölskyldudeild er mikið að gera og mikil aukning á fjárhagsaðstoðinni. Búið er að ráða fjármálaráðgjafa til 6 mánaða en sá starfsmaður er með reynslu úr bankageiranum. Verið er að undirbúa átaksverkefni fyrir atvinnulaust og atvinnul.bótalaust fólk sem sækir eftir fjárhagsaðstoð og stendur yfir val á fólki í ca 14 störf í 2 mán. hvern. Á HAK er staðan svipuð og verið hefur en þar er beðið eftir fjárlagatillögum ríkisins vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á næsta ári. Sá niðurskurður þýðir líklega niðurskurð á starfsfólki nema eitthvað annað komi til.

Á leikskólunum vantar fleiri rými en í gær veitti bæjarráð aukafjárveitingu til að geta bætt við 10 rýmum. Meiri þreytumerki sjást meðal starfsfólks í skólunum þar sem fjármagn minnkar en kröfurnar ekki. Í nýlegum líðankönnunum meðal nemenda sést að börnunum líður almennt betur en undanfarin ár en þó líður börnum atvinnulausra verr. Tilvísunum til ráðgjafa fjölgar ekki en málin sem þangað fara eru erfiðari. Staða skuldara skánar ekki og rifjuð var upp sérstök gjaldskrá leikskóla sem einu sinni var sett fyrir atvinnulausa. Staðan á búsetudeildinni er svipuð og verið hefur en aukið álag hefur auknar fjarvistir í för með sér. Skjálfti er farinn á stað meðal starfsmanna vegna fyrirhugaðs niðurskurðar ríkisins í málefnum fatlaðra á næsta ári og hvort það hefur áhrif á starfsemina hér á Akureyri. Minnst var á að atvinnuleysið hér á landi í dag er svipað eða minna en á Evrusvæðinu.

Hjá verkalýðsfélögunum er allt frekar rólegt í augnablikinu og engar stórar breytingar í gangi. Verið er að funda með starfsmönnum BM Vallár en það fyrirtæki varð gjaldþrota í vikunni. Nokkuð er um fyrirspurnir frá atvinnurekendum og starfsfólki um lágmarkstaxta en það er nýtt. Aðeins hefur hýrnað yfir fólki og verktakar í bænum að velta fyrir sér möguleikum í stöðunni.

Fólk sækir alltaf í fatnað hjá Rauða krossinum og alltaf sækir einhver um einstaklingaaðstoð sem yfirleitt er neitað. Lautin gengur vel og þar starfa nú 2 starfsmenn frá Vinnumálastofnun. Barnapíurnar eru að fara af stað og mikið að gera þar.

VMA er að útskrifa á morgun 146 nemendur en um síðustu jól voru útskrifaðir um 120. Nýnemar sem sótt hafa um eru 180 en alls hafa 230 í allt sótt um skólavist næsta vetur. Umsóknarfrestur er ekki enn útrunninn. Fækkun er í byggingardeildum en fjölgun í málmiðnaðardeildum. Brottfall var eitthvað minna í vetur en áður. Spara á 5,5-6,0% á næsta ári og mun það aðallega bitna á fjarnáminu.

Atvinnulausir á Akureyri eru 820 í dag  - 444 karlar og 376 konur. Er það fækkun um 51 frá síðasta fundi fyrir mánuði síðan. 8 maí 2009 voru 994 á atvinnuleysisskrá. Alveg atvinnulausir í dag eru 587 manns eða 72% þeirra sem eru á skrá. Atvinnuleysi á Akureyri telst vera um 9%. 54% atvinnulausra eru eingöngu með grunnskólapróf þó svo margir þeirra hafi lokið einhverjum einingum í framhaldsnámi. Til stendur að senda hóp 25-35 ára í nám í Háskólabrú hjá SÍMEY. Búið er að koma öllum á aldrinum 18-24 ára í tímabundin verkefni og í haust munu allir þeir sem hafa verið atvinnulausir í 1 ár eða meira fara í sérstakt prógramm. Nokkuð er um að ungar mæður sem eru að koma úr fæðingarorlofi séu að koma inn á bætur en erfitt er að koma þeim út á atvinnumarkaðinn vegna kostnaðar við barnapössun.

 

  1. Skýrsla RK.

Skýrsla RK um þá hópa sem höllum fæti standa í kerfinu var rædd stuttlega en umræður þróuðust út í ástandið almennt. Fólki er beint í fátækt og nauðsynlegt er að beina kröftunum þangað sem þörfin er mest. Skoða þarf líka skattkerfið í því samhengi. Allir styrkir í dag miða við skammtímalausnir en ekki langtímavinnu. Unga fólkið þarf verkefni og nám og sérstaklega á það við ungt fólk sem ekki er fyrir bókleg fög. VMA er tilbúið að lána sín verkstæði utan skólatíma en það vantar að skipuleggja slíkt vinnunám. Rætt var nokkuð um framhaldsskólana og námsleiðirnar þar en í undirbúningi er að setja þar upp styttri námsbrautir með einhvers konar framhaldsskólaprófi. Nauðsynlegt væri að kynna þessa skýrslu fyrir nýjum bæjarfulltrúum. 

Næsti fundur er ráðgerður föstudaginn 25. júní hugsanlega í VMA en staðsetning er óviss ennþá.