Almannaheillanefnd

14638. fundur 05. maí 2010

Almannaheillanefnd 23. apríl 2010.

Fundur haldinn í Glerárgötu 26 kl. 10.

 

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslustöð

 

Aðrir:

Halldór Jónsson, Sjúkrahúsið á Akureyri

Herdís Zophoníasdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur Þorsteinsson, Glerárkirkja

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

Gestur:

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki

 

1. Staðan í dag.

Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar er Norðurland eystra eina landsvæðið þar sem atvinnuleysi hefur lækkað á milli ára. Lækkunin nam um 0,9%. Á svæðinu eru nú 1247 manns án atvinnu. Á Akureyri eru 871 á atvinnuleysisskrá, þar af 615 að fullu án atvinnu, 381 karl (62%) og 234 konur (38%). Frá síðasta mánuði hefur fækkað á skrá en hins vegar hefur orðið fjölgun í hópi 16-24 ára. Alls eru 187 á þeim aldri á skrá, 115 karlar (61%) og 72 konur (39%). Þar af  er 151 alfarið án vinnu.

Vinnumálastofnun, Akureyrarstofa og Grasrót vinna nú að undirbúningi ráðstefnu um atvinnumál sem haldin verður í Ketilhúsinu 12. maí næstkomandi. Frá kl. 10-12 er gert ráð fyrir stefnumóti atvinnuleitenda og atvinnurekenda. Fyrirkomulagið er þannig að fyrirtækin kynna sig og fræða atvinnuleitendur um t.d. hvaða hæfni og þekkingu þarf til að bera til að geta fengið störf hjá viðkomandi fyrirtækjum. Atvinnuleitendur eru þar með hvattir til að afla sér menntunar á þeim sviðum sem krafist er. Einnig verður kynning á hinum ýmsu sjóðum sem veita styrki til atvinnutengdra mála. Sjálf ráðstefnan stendur síðan frá kl. 12.30 til 17.00.

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er eftirspurn eftir þjónustu almennt minni en áður en það er þó mismunandi eftir deildum. Eftirspurn eftir bráðaþjónustu geðdeildar hefur t.d. aukist. Á síðasta ári var niðurskurðurinn 300 milljónir og stöðugildum fækkaði um 30. Á þessu ári er gert ráð fyrir 200 milljón kr. sparnaði. Minna verður um sumarafleysingar en áður. Meira er um erfiðleika við mönnun á læknastöðum og er hætt við að það muni hafa áhrif á þjónustuna. Þessa dagana er unnið að skipulagi fyrir sumarið.

Engar stórbreytingar eru merkjanlegar hjá stéttarfélögunum. Alltaf er þó eitthvað um erfið mál sem þarf að leysa. Starfsfólk stéttarfélaganna verður nokkuð vart við peningaleysi félagsmanna. Vaxandi fjöldi sækir í styrki félaganna. Hjá Kili eru áhyggjur af niðurskurði á Sjúkrahúsinu og útboði á sorphirðu hjá Akureyrarbæ.

Starfsfólk Heilsugæslunnar finnur fyrir auknu álagi. Bið hefur lengst eftir tímum hjá læknum. Starfsfólk í móttöku finnur fyrir auknu óþoli viðskiptavina sem þurfa að bíða lengur en áður eftir tímum. Staðan hjá skólahjúkrunarfræðingum er eins og áður og þungu málin að verða sífellt þyngri.

Þeim sem leita eftir fjárhagsaðstoð hjá bænum fjölgar áfram. Áhyggjur eru af þeim sem eru búnir með rétt sinn til atvinnuleysisbóta og komnir á framfærslu hjá bænum. Biðtími eftir viðtölum er ásættanlegur. Aukist hefur að fólk hafi samband til að afla sér upplýsinga. Verið er að vinna í því að ráða fjármálaráðgjafa til starfa.

Vart hefur orðið við umræðu um mismunun í skólamötuneytum. Skólayfirvöld leggja áherslu á að engum börnum er vísað frá í mötuneytum. Svo virðist sem meðaltími hjá börnum sem verið er að innrita í leikskóla sé að lengjast frekar en hitt. Huga þarf að ráðstöfunum í leikskólamálum þar sem árgangur 2009 er mjög stór og stefnir einnig í stóran árgang 2010. Hjá sérfræðiþjónustu skólanna hefur málum ekki fjölgað en þau hafa þyngst og orðið tímafrekari. Samkvæmt nýrri alþjóðlegri heilsukönnun sem unnin var af Þóroddi Bjarnasyni við Háskólann á Akureyri líður börnum í 6., 8. og 10. bekk að meðaltali betur en fyrir kreppu. Börnum atvinnulausra líður þó marktækt verr en áður. Stefnt er að því að taka sérstaklega saman upplýsingar fyrir stöðuna á Akureyri.

Hjá Menntaskólanum hefur veturinn verið erfiður og mikið um veikindi nemenda. Farið er að bera á því að utanbæjarnemendur hætti af efnahagsástæðum. Fleiri nemendur sækja í þjónustu námsráðgjafa vegna vanlíðunar.

Hjá kirkjunum er aukin ásókn í sálgæslu og styrki. Minna virðist vera um það nú en í fyrra að efnahagsástandið hafi áhrif á fermingar. Skráning í kristilegar sumarbúðir er nokkuð góð. Stefnt er að því að bjóða upp á vikubúðir á Vestmannsvatni fyrir einstæðar mæður.

 

2. Verkefni frá bæjarráði

Á fundi sínum 15. apríl sl. fól bæjarráð almannaheillanefnd að móta tillögur að könnun á greiðsluerfiðleikum meðal bæjarbúa og leggja fyrir bæjarráð. Vinna er hafin við verkið.

Næsti fundur verður haldinn 21. maí í húsnæði Heilsugæslunnar við Hafnarstræti, 4. hæð.