Almannaheillanefnd

14479. fundur 09. apríl 2010

Fundur haldinn í húsnæði Rauða krossins föstudaginn 26. mars kl. 10.

Mætt:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslustöð

 

Aðrir:

Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Vinnumálastofnun

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Jón Knutsen, Rauði krossinn á Akureyri

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsið á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

1. Staðan í dag.

Á Norðurlandi eystra eru nú 1317 manns án atvinnu. Á sama tíma í fyrra voru 200 fleiri í þeim hópi. Á Akureyri eru 926 manns á skrá. Þar af eru 655 að fullu atvinnulausir, 412 karlar og 243 konur. Í aldurshópnum 16-24 ára eru 154 án atvinnu. Hjá Vinnumálastofnun er reiknað með að stór hluti þeirra sem í dag eru án atvinnu komist í sumarstörf.

Verkefnið Ungt fólk til athafna hefur gengið mjög vel. Í haust verður virknitilboðum beint að hópi langtímaatvinnulausra þ.e. þeim sem hafa verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Þar á eftir er reiknað með að áhersla verði lögð á tilboð til erlendra ríkisborgara. Gott samstarf hefur verið milli Vinnumálastofnunar og samfélags- og mannréttindadeildar í Rósenborg um ýmis mál.

Vinnumarkaðsráð hefur ákveðið að styrkja Grasrót/Iðngarða um húsaleigu á móti Akureyrarbæ.

Á fundinum kom fram tillaga um að Akureyrarbær ráði til starfa fólk af atvinnuleysisskrá til þess að heimsækja bæjarbúa og kynna þeim flokkun á sorpi í samræmi við nýjar áherslur.

Nokkur erill er á skrifstofum stéttarfélaganna og þar hefur starfsfólk áhyggjur af því að fiskvinnslufyrirtæki loki í meira en 8 vikur í sumar.

Stöðug aukning er í aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Á landsvísu er um að ræða tvöföldun frá því fyrir hrun.

Á FSA er ástandið svipað og í síðasta mánuði. Viðvarandi aukning virðist vera í ásókn í bráðaþjónustu geðlækna. Greina má þreytumerki hjá læknum og erfitt er að fá nýja til starfa í stað þeirra sem hætta.

Hjá búsetudeild er margt fólk ráðið til starfa í sumarafleysingar. Umsóknir voru þó ekki eins margar og búist hafði verið við. Stígandi hefur verið í þungum málum hjá Heilsugæslustöðinni. Búast má við að álag aukist hjá búsetudeild sem og Heilsugæslu vegna sumarlokana annarra stofnana. Fjárhagsaðstoð í mars lítur út fyrir að verða meiri en áður og verður væntanlega um 7 milljónir. Unnið er að ráðningu fjármálaráðgjafa. Velt var upp spurningu um hvort ekki þurfi að koma á betri tengingum milli vitneskju um fjármálastöðu og heilsufars og skoða hvort hægt sé að grípa inn í. Vart hefur orðið við aukið álag á skólasálfræðinga.

Mikið hefur verið sótt í fatamarkað Rauða krossins. Akureyrardeildin á enn fjármagn til að leggja í samfélagsverkefni. Mæðrastyrksnefnd úthlutaði nú í vikunni til margra aðila. Nefndin er að tæma sjóði sína. Af hálfu Almannaheillanefndar er áhugi á að koma á viðræðum um samstarf milli Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. 

 

2. Skoðunarferð

Fundurinn endaði á skoðunarferð í Grasrót/Iðngarða.