Almannaheillanefnd

14151. fundur 23. febrúar 2010

Föstudaginn 12. febr.  2010 kl. 10.00 var fundur haldinn í fundarsal Einingar-Iðju, Akureyri.

 

Mættir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Karl Guðmundsson, ráðhús

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, Heilsugæslustöð

 

Aðrir:

Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, Vinnumálastofnun

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Heimir Kristinsson, félag byggingamanna

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur Þorsteinsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

 

1. Staðan í dag:

Ekki reyndist vera marktæk aukning í heimsóknum á heilsugæslustöðina á sl. ári miðað við fyrri ár. Sparnaðaraðgerðir geta farið að hafa áhrif á  þjónustuna í formi lengri biðlista en þó hefur stöðugildum í skólaheilsugæslunni verið fjölgað aftur. Áhrif sparnaðaraðgerða spítala og fl. koma fyrst og fremst fram hjá öldruðum þar sem hjúkrunarrýmum hefur fækkað á Eyjafjarðarsvæðinu og innlagnir á sjúkrahús hafa styst. Aukin þyngd er á heimaþjónustuna og heimahjúkrunina og þar þarf enn og aftur að endurhugsa forgangsröðun. Næturvaktin fer í 10-15 vitjanir á hverri nóttu. Fólki með MND og MS hefur fjölgað á þjónustusvæðinu og oft er það fólk í yngri kantinum. Lítill biðlisti er eftir hjúkrunarrýmisplássi.

            Á Rósenborg er Menntasmiðja unga fólksins farin af stað og einnig eru Skapandi námskeið í gangi fyrir atvinnulausa. Margmiðlunarsmiðja Grasrótarinnar er staðsett í Rósenborg og gengur vel. Aðsókn er almennt svipuð og áður að félagsmiðstöðvunum, Húsinu og fl. í starfseminni.

            Á fjölskyldudeildinni er þokkalegt ástand. Komin er smá bið eftir sérþjónustu við leik- og grunnskóla og sami stígandi er í barnaverndinni og áður. Fjárhagsaðstoð í janúar var nokkru lægri en fyrir ári en áherslan er lögð á aðstoð við barnafjölskyldur. Óvenjumargir eru í Fjölsmiðjunni sem Akureyrarbær greiðir með.

            Á búsetudeildinni er verið að leita eftir verkefnum fyrir ungt fólk í tengslum við átak Vinnumálastofnunar. Mikið er sótt í öll auglýst störf. 

            Á Akureyri eru 940 alls án atvinnu sem er fjölgun um 10 frá síðasta fundi fyrir 3 vikum. 651 er að fullu atvinnulaus (um 70%) ? 407 karlar og 247 konur. Á aldrinum 16-24 ára eru 145 í fullu atvinnuleysi. Á N.eystra eru 1.358 atvinnulausir sem er sama staða og fyrir ári síðan. Í janúar kom inn á skrá nokkuð af skólafólki og verslunarfólki en allnokkrir atvinnulausir fengu vinnu. 100 atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18-24 ára voru boðuð á fund í janúar og kynnt fyrir þeim námskeið, vinnustaðanám og fl. sem er í boði fyrir þau. Nýr kynningarfundur verður nú í febrúar og vonast Vinnumálastofnun til að Akureyrarbær geti boðið nokkuð af starfsþjálfunartilboðum fyrir þessi ungmenni. Flest ungmennin eru eingöngu með grunnskólapróf en nokkur með einhverja áfanga í framhaldsskólum. Nokkrir mættu ekki og voru afskráðir af atvinnuleysisskrá.

            Hjá Rauða Krossinum er allt svipað og verið hefur en nokkur námskeið hafa verið og fl. á döfinni. M.a. var skyndihjálpardagur í gær. Annars hefur Haiti verkefnið tekið stóran hluta af starfseminni fyrir sunnan. Starfsemi Fjölsmiðjunnar og Lautarinnar ganga ágætlega. Mæðrastyrksnefnd var með úthlutun í gær.

            Starfsfólk kirknanna er flest á námskeiði í dag um eftirfylgd vegna ættingja látinna. Hjálparstarf kirkjunnar hefur hert kröfur sínar um upplýsingar fyrir veitta aðstoð. Rætt hefur verið um að Glerárkirkja styrki einstæða feður í sumardvöl að Vestmannsvatni næsta sumar og Akureyrarkirkja styrkji einstæðar mæður. Umræða skapaðist um ?vinafólk? og hvernig það geti komist í samband við þá sem þurfa aðstoð. 

            Ný önn er að fara af stað í MA og gengur vel 10 nemendur hættu um áramótin sem er svipað eða minna en undanfarin ár. Byrjað er að undirbúa frekari niðurskurð á næsta ári sem áætlaður er að verði um 7% eða 30-40 m.kr.

            Hjá verkalýðsfélögunum er allt frekar rólegt en það gætir aukinnar svartsýni í byggingariðnaðinum. Nýjar reglur Vinnumálastofnunar um skráningu ?verktaka? þykja ekki sanngjarnar. Endurgreiðslur á vsk. vegna viðhaldsframkvæmda hefur hjálpað byggingariðnaðinum allnokkuð en margir húseigendur halda að sér höndum. Leitað er meira eftir styrkjum til kaupa á heyrnartækjum og fl.

            Á FSA er allt frekar rólegt en aðsókn er yfirleitt minni á deildum nema geðdeild, fæðingardeild og lyfjadeild. Erfiðlega gengur að ráða sérfræðilækna til stofnunarinnar. Reksturinn var á 0 á síðasta ári en tæp 600 manns starfa á FSA.

 

Að lokum var gengið um húsnæði Vinnumálastofnunar og það skoðað.

 

Næsti fundur er fyrirhugaður 5. mars í Glerárkirkju.