Almannaheillanefnd

13947. fundur 01. febrúar 2010

Föstudaginn 22. jan. 2010 kl. 10.00 var fundur haldinn í fundarsal safnaðarheimilis Akureyrarkirkju, Akureyri.

Mættir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, ráðhús

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Aðrir:

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Herdís Zophoníasdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sigríður Huld Jónsdóttir, Verkmenntaskólinn

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

1. Staðan í dag:

Umsóknum fjölgar um heimaþjónustu og heimahjúkrun vegna þess að því er virðist að fólk er útskrifað fyrr heim af sjúkrahúsum. Reglum í heimaþjónustu hefur verið breytt í þá veru að geta annað betur þeim sem mesta þjónustu þurfa. Menntasmiðja unga fólksins fer af stað í næstu viku og þá byrja einnig sérstök námskeið “skapandi námskeið” í samvinnu við Vinnumálastofnun. Góð aðsókn er í félagsmiðstöðvar og í Húsið en andrúmsloft rólegt. Verið er að skoða með að setja á fót “Karlasmiðju”.

Fjárhagsaðstoð Akureyrarbæjar var lægri í fyrra en 2008 og hægt er að finna einhverjar skýringar á því. Aldraðir sækja lítið og mikið er um veitta aðstoð vegna barna. Margt fólk virðist nýta sér öll úrræði þ.e. fjölskyldudeild, kirkjurnar og mæðrastyrksnefnd til að fá aðstoð. Viðmið fólks virðast líka hafa breyst og beiðnir um það “sama og aðrir hafa” virðast horfnar. Mikið er að gera í barnaverndinni en það virðist að mestu ótengt “hruninu”, samanber skýrslu Velferðarráðs.

Í leikskólum og hjá dagforeldrum eru litlar breytingar en aðeins ber á fækkun barna í mötuneytum grunnskólanna en þó mismunandi mikið eftir skólum. Heldur fjölgar í Frístund þrátt fyrir hækkun gjalds í haust. Fleiri skulda amk þrjá mánuði nú en áður vegna leik- og grunnskóla, sem getur bent til versnandi greiðslugetu foreldra. Skólahjúkrunarfræðingar hafa breytt vinnulagi sínu og veldur það einhverjum áhyggjum. Að öðru leyti er frekar rólegt í grunnskólunum þó alltaf séu þung mál í gangi.

Aukning í hjálparstarfi kirknanna var mikil á sl. ári og var allt að tvöföld frá 2007. Styrkur frá Samherja til Akureyrarkirkju var nýttur sl. sumar í sumarbúðir fyrir börn og verið er að velta fyrir sér að veita einstæðum mæðrum og þeirra börnum ókeypis sumarbúðadvöl næsta sumar þar sem Samherji hefur aftur styrkt starfið. Bent var á mögulegt samstarf við félagsþjónustu Akureyrarbæjar og fl. um val á þessum styrkþegum.

Hjá verkalýðsfélögunum er frekar rólegt núna en þar hafa menn áhyggjur af aukningu atvinnuleysis og skertu starfshlutfalli þegar líður fram á veturinn. Mikið er að gera í atvinnumálum á Dalvík. Mikið er sótt í sjóði verkalýðsfélaganna svo sem til líkamsræktar og fl. Mikið var að gera hjá Rauða krossinum í des. en rólegra núna. 440-450 heimili fengu aðstoð um jólin frá Mæðrastyrksnefnd. Mæðrastyrksnefnd mun ekki úthluta nú í janúar. Áfram kemur vel inn af fatnaði og ásókn í hann er góð. Rædd var hugmynd um ókeypis markað að erlendri fyrirmynd en verið er að leita að húsnæði.

Í framhaldskólunum er almennt ró yfir skólastarfinu. Flensan tók sinn toll þar fyrir áramót. Brottfall nemenda virðist ekki hafa aukist en fastar er tekið á málum þeirra sem mæta slælega. Svo virðist sem dregið hafi úr vinnu nemenda með skóla og bílum nemenda hefur líka fækkað a.m.k. á bílastæði Menntaskólans. Í VMA er aukning umsækjenda með sérþarfir og vonandi verður viðbygging þar fyrir þann hóp tilbúin næsta haust. 1.250 nemendur komu inn á nýrri önn í VMA en 200 umsóknum var hafnað og fækkun er í fjarnámi.

Atvinnuleysi á Akureyri er 930 manns sem er fjölgun um 24 frá síðasta fundi 18. des. sl. 29% af þeim er í hlutastarfi. Karlar eru mun fleiri en konur. Nýjar reglur um hlutaatvinnuleysi tóku gildi um sl. áramót og hafa reglur verið þrengdar. Einnig hafa reglur verið þrengdar fyrir þá sem reka fyrirtæki á eigin kennitölu. Vinnumálastofnun er á fullu við átakið “ungt fólk til athafna” sem á við ungmenni 16-24 ára. Fjölbreytt úrræði eru í boði fyrir þennan hóp svo sem nám, námskeið, sjálfboðaliðastörf, vinnustaðanám og fl. Mikið er að gera á skrifstofunni og komin þreyta í starfsfólk. Margir atvinnulausir karlmenn hófu nám hjá SÍMEY nú eftir áramótin en reynslan sýnir að það fólk sem hefur farið í nám á vegum SÍMEY og Starfsendurhæfingar er líklegra til að standa sig betur í námi og vinnu. Mikil hreyfing er á vinnumarkaði og fólk að fara inn og út úr vinnu. Símaþjónusta Vinnumálastofnunar er mjög léleg núna og ekki vitað hvenær úr rætist.

Rætt var um hjúkrunarþyngd á öldrunarheimilinu og greiðslur því tengdar. Einnig var nokkur umræða um hvað verður um unga fólkið sem hættir námi og á ekki rétt á bótum og birtist jafnvel hvergi á skrá.

Næsti fundur er fyrirhugaður í fundarsal Einingar-Iðju á 2 hæð í Skipagötu 14 þann 12. febr. nk..