Almannaheillanefnd

13856. fundur 23. desember 2009

Föstudaginn 18. des. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson, ráðhús

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristinn H. Svanbergsson, íþróttadeild

Krístín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslustöð

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa

 

Aðrir:

Guðný Bergvinsdóttir, Rauði Krossinn

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Heimir Kristinsson, félag byggingamanna

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur Þorsteinsson, Glerárkirkja

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Trausti Þorsteinsson, Háskólinn á Akureyri

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

Gestir:

Gissur Pétursson, Vinnumálastofnun

Unnur Sverrisdóttir, Vinnumálastofnun

 

  1. Staða mála:

 

Verið er að loka fjárhagsáætlun næsta árs hjá Akureyrarbæ og mun henni lokað með mjög litlum rekstrarafgangi. Í áætluninni er grunnþjónustan varin og störfin líka. Möguleikamiðstöðin í Rósenborg er að ljúka starfi sínu og gerðar verða breytingar á því verkefni eftir áramót. Eitthvert samstarf verður áfram með Vinnumálastofnun um það. Aðsókn hefur aukist í Punktinn og í Húsið. Menntasmiðja unga fólksins verður starfrækt á vorönn og verið er að skoða möguleika á fleiri styttri námskeiðum.

Í átaksverkefnum Ak.bæjar á þessu ári er búið að úthluta 80-90 mannmánuðum í samstarfi við Vinnumálastofnun. Á næsta ári eru 15 m.kr. til þessa verkefnis í f.áætlun. Reynt verður að styðja við Grasrótina í Slippstöðvarhúsinu og hugsanlega tengja saman Fjölsmiðjuna og Grasrótina á einhvern hátt. Fjárhagsaðstoð bæjarins verður líklega heldur lægri í ár borið saman við 2008. Margt nýtt fólk hefur sótt um en samt eru engar augljósar skýringar á fækkun umsókna. Fólk sækir á alla staði þ.e. líka til kirkjunnar og mæðrastyrksnefndar. Verið er að greiða fyrir margt ungt fólk í Fjölsmiðjunni. Einhver aukning hefur verið í barnaverndinni og mörg erfið mál í gangi þar.

Á heilsugæslunni verður þjónustan að mestu óbreytt á næsta ári. Aðsókn að HAK hefur ekki aukist frá fyrra ári. Fólk virðist fresta beiðnum um rannsóknir og sækir jafnframt í örorku. Í fjölskylduþjónustunni eru mörg þung mál í gangi en þeim virðist ekki hafa fjölgað að ráði. Ekki er um fækkun nemenda í tónlistarskóla eða í leik- og grunnskólum en fækkun er hjá dagforeldrum. Þyngra er fyrir fæti í starfsemi grunnskólanna og erfiðara að finna lausnir á málum en oft áður.

 

Borið hefur á erfiðleikum hjá KA og Þór með innheimtu æfingagjalda og ferðakostnaðar en það hefur hingað til verið leyst innan þeirra vébanda. Samherji lagði aftur til fjármuni til íþrótta, æskulýðs, menningarmála og fl. nú í des. eða samtals 60 m.kr. sem mun létta félögunum þessa stöðu mjög á næstunni. Hjá verkalýðsfélögunum er lítið nýtt að frétta en atvinnuleysi eykst jafnt og þétt á þessum tíma eins og fyrri ár. Meira er um tímabundnar ráðningar í byggingavinnu og starfsöryggi lítið.

Í Háskólanum er niðurskurður í gangi eða um 100 m.kr. á næsta ári sem mætt verður líklega án uppsagna starfsfólks. Engin rannsóknarleyfi verða veitt á næsta ári, sett verður yfirvinnuþak og meiri stundakennsla verður. Viðbótarniðurskurður verður 2011 og óvíst hvernig honum verður mætt. Hugsanlegt er að fækka námskeiðum enn meira með því að setja reglur um lágmarksfjölda nemenda á hverju námskeiði og taka upp samvinnu við aðra háskóla. Engir nýir almennir nemendur verða teknir inn nú eftir áramót.

Mikil ásókn er í aðstoð hjá kirkjunum og verða um 240-250 úthlutanir nú fyrir jólin. Góð aðsókn er í foreldramorgna hjá Glerárkirkju en svo virðist sem einstæðar mæður sem fá fjárhagslega aðstoð komi þangað ekki. Meira ber á rótleysi í samfélaginu, börn að koma of seint og fl. Sagt var frá fyrirhuguðum fundum í janúar á næsta ári á vegum Akureyrarakademíunnar og fl.

Aðsókn hefur aukist í Lautina, fólk dvelur lengur og biður jafnvel um að fá að sofa þar. Mæðrastyrksnefnd gerir ráð fyrir að veita um 400 fjölskyldum aðstoð nú fyrir jólin en úthlutað verður nú um helgina. Í einhverjum tilvikum er aðstoðinni keyrt út. Mikið kemur inn af fatnaði hjá Rauða krossinum og ásóknin í hann er stöðug. Rætt var nokkuð um auglýsingar um styrki eða safnanir til mæðrastyrksnefnda sem virðast alltof oft eiga aðeins við um mæðrastyrksnefndina í Reykjavík. Veltu fundarmenn upp möguleikum til að auka meðvitund fólks um þennan veruleika, þannig að það sé ekki að styrkja rangan aðila á þeirri forsendu að það sé að styrkja mæðrastyrksnefnd Akureyrar.

 

Hjá Vinnumálastofnun er raunfærnimat byrjað og búið að tala við marga karlmenn. Talað verður við unga fólkið eftir áramót. Mögulega eru ýmis tækifæri fyrir þessa einstaklinga og það verður val fyrir þá um tækifæri en ekki að gera ekki neitt. Atvinnulausir á aldrinum 16-24 ára eru 154 í dag. Um þessi áramót detta 35 manns út af atvinnuleysisbótum vegna tímalengdar á bótum og eiga þessir einstaklingar ekki mögulegan bótarétt fyrr en eftir 2 ár ef þeir hafa unnið í 6 mánuði eða lengur á þeim tíma. Haft verður samstarf við fjölskyldudeild vegna þessara einstaklinga. Á Akureyri eru 902 atvinnulausir í dag sem er fjölgun um 56 á síðustu 4 vikum. Um er að ræða 489 karla og 413 konur. Um 30% atvinnulausra eru í hlutastarfi.

Gissur Pétursson fór yfir átak sem félagsmálaráðherra kynnti í gær sem snýr að ungu og ómenntuðu fólki. Hann taldi þetta metnaðarfullt átak og kosturinn að gera ekki neitt er ekki í boði. Fyrirhugað er að breyta atvinnuleysisbótakerfinu gagnvart sjálfstætt starfandi atvinnurekendum og bakka út úr núverandi kerfi. Samvinna allra í samfélaginu er nauðsynleg og sveitarfélögin þurfa líka að skapa starfsþjálfunarúrræði fyrir atvinnulausa. Vinnumálastofnum er að velta því fyrir sér að kaupa kennslu fyrir atvinnulausa í framhaldsskólum. Horfur á næsta ári eru heldur skárri en reiknað var með og er gert ráð fyrir aðeins minna atvinnuleysi en á þessu ári en fram kom að hvert % í atvinnuleysi kostar ríkið 3 milljarða.