Almannaheillanefnd

13774. fundur 09. desember 2009

Föstudaginn 20. nóv. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hermann J. Tómasson bæjarstjóri

Karl Guðmundsson, ráðhús

Katrín Björg Ríkharðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa

 

Aðrir:

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

Gestir:

Vilborg Oddsdóttir, Hjálparstofnun kirkjunnar

 

  1. Aðstoð Hjálparstofnunar kirkjunnar.

 

Vilborg sýndi glærur um starfsemina.

 

Fram komu m.a. eftirfarandi upplýsingar:

 

Sumir fá aðstoð oftar en einu sinni í mánuði. Mun fleiri karlar sækja eftir aðstoð en áður og meðal þeirra hefur verið stór hópur erlendra karlmanna. Aukningin er mikil milli ára og mjög breytt samsetning hópsins m.a. fólk í vinnu með lágar tekjur og miklar skuldir, námsfólk og yngri einstaklingar. Öryrkjar eru um 47% þeirra sem njóta aðstoðar en hópur atvinnulausra fer stækkandi. 90-95% umsækjenda eru aðeins með grunnmenntun. Allmikil aukning er líka á fólki sem á engan atvinnuleysisbótarétt af einhverjum ástæðum. Almennt séð er mikill greiðsluvilji fólks sem leitar sér aðstoðar hjá kirkjunni.

Á Eyjafjarðarsvæðinu er hærra hlutfall fjölskyldufólks sem nýtur aðstoðar og atvinnuleysi er minni ástæða umsókna – frekar skuldastaða og þá sérstaklega á Akureyri. Ekki hefur náðst samstarf milli mæðrastyrksnefndar hér á Akureyri og Hjálparstofnunar kirkjunnar líkt og á öðrum stöðum á landinu.

 

  1. Staðan í dag.

 

Unnið er að fjárhagsáætlunargerð fyrir 2010 hjá bænum og ljóst að einhver hækkun gjalda

á íbúana mun eiga sér stað. Stefnt er að því að halda í störf fólks sem mest má. Í grunnskólunum er allt frekar rólegt og aðsókn í skólamötuneytin er svipuð og áður þó lítilsháttar fækkun. Minni aðsókn er í Frístundina og allnokkur fækkun til dagforeldra. Í leikskólum hefur meðalvistunartími ívið lengst.

            Á heilsugæslunni er mikið að gera við bólusetningar en annars rólegt og á slysadeild FSA hefur aðsókn minnkað. 44 einstaklingar hafa verið ráðnir í gegnum átaksverkefni bæjarins og samtals eru það 16,5 ársverk. Kostnaður er orðinn ca. 12. m.kr. á árinu. Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt. Byrjað er aftur að auglýsa ókeypis viðburði í sjónvarpsdagskrá. Í framhaldi af umræðu á síðustu fundum um fjölmiðla og áhrif þeirra á líðan fólks er stefnt að málþingi um þau mál hér á Akureyri í byrjun næsta árs.

            Enn er Möguleikamiðstöðin lítið nýtt daglega en kynningar mun meira notaðar. Í undirbúningi er Menntasmiðja unga fólksins á vorönn. Góð aðsókn er í ungmennahúsið og fjölbreyttur hópur sem þangað sækir. Allt er rólegt í félagsmiðstöðvunum í grunnskólunum.

           

            Hjá verkalýðsfélögunum er lítið nýtt að frétta. Heldur er að glæðast um verkefni fyrir málmiðnaðarmenn en óvissa á öðrum sviðum. Atvinnuleysi er í dag 846 á Akureyri (53% karlar og 47% konur) sem er aukning um 26 á 3 vikum. 30% af þeim eru í hlutastörfum. 172 atvinnulausir eru á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi Eystra. Atvinnulausir með grunnskólapróf eru 66% af heildarfjölda. 17% eru með iðnmenntun, 11% með háskólapróf og 6% með stúdentspróf. Fjölgun atvinnuleitenda eftir sumarfrí er aðallega karlar og unnið er að hugmynd í samstarfi við SÍMEYum sérstakt nám fyrir karla og í skoðun er að stofna til menntasmiðju karla. Þjónusta vinnumálastofnunar er orðin í hefðbundnu fari með úrræði fyrir atvinnuleitendur og ný verkefni alltaf í skoðun. Vinnumarkaðsráð á að skila tillögum um atvinnumarkaðsúrræði fljótlega til Vinnumálastofnunar og verða þær sendar Almannaheillanefnd þegar þær liggja fyrir. Rætt er um að beina yngsta hópnum í námstengd úrræði en greinilega vantar starfstengd úræði samhliða. Ráðið hefur haft 2.0 m.kr. til ráðstöfunar á þessu ári en vænta má niðurskurðar á því á næsta ári.

 

Hjá kirkjunum er nóg að gera og vinnubrögðin markvissari í viðræðum við fólk með

hvatningum og fl. Til stendur að breyta vinnulagi við úthlutanir úr Ljósberasjóði Akureyrarkirkju og úthluta inneignarkortum í stað peninga. Aukning hefur verið á þjónustu geðdeildar FSA og varpaði forstöðulæknir fram hugmynd um ráðgjöf sálfræðinga deildarinnar til fyrirtækja á Akureyri í viðbrögðum við ástandinu. Í VMA ber meira á vanlíðan nemenda og færri hafa sótt um nám á vorönn en í fyrra. All nokkur fækkun hefur orðið í fjarnámi og stefnt að enn meiri minnkun þar á næsta ári. Reynt er eftir fremsta megni að verja störfin en yfirvinna minnkar. Hjá Rauða Krossinum fer jólafatasöfnun vel af stað og alltaf eykst ásóknin eftir aðstoð.

 

  1. Önnur mál.

 

Spurst var fyrir um greiðslur æfingagjalda hjá íþróttafélaginu Þór og ákveðið að fá svör frá íþróttadeild á næsta fundi. Upplýst var um frekar fáar heimsóknir á “Ráðgjafartorg” á heimasíðu bæjarins og talið óhætt að minnka svolítið hnappinn þar.