Almannaheillanefnd

13554. fundur 21. október 2009

Fundargerð

Föstudaginn 25. sept.  2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.

 

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson bæjarritari

Kristinn H. Svanbergsson, íþróttadeild

Kristín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa

 

Aðrir:

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Heimir Kristinsson, Félag byggingamanna

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Trausti Þorsteinsson, Háskólinn á Akureyri

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

Gestir:

Birgir Guðmundsson, Háskólinn á Akureyri

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn

Þorsteinn Pétursson, forvarnarfulltrúi lögreglunnar

 

1. Gestir:

Lítils háttar aukning hefur verið í auðgunarbrotum milli ára en frekar fækkun í eignaspjöllum. Lögreglan virðist ekki finna fyrir meiri óróleika almennings almennt. Fíkniefnamál virðast meira tengd suður en áður var og sennilega skipulagðari glæpir þar.

Nokkur óróleiki virtist vera hjá börnum í grunnskólunum í haust sem er samt sem áður ekki ósvipað og fyrri ár. Ró virðist vera komin á núna. Hjá börnum og unglingum hefur afskiptum lögreglu fjölgað lítilsháttar en ekki er nein marktæk aukning þar á. Fundur um stöðu mála er fyrirhugaður 1. okt. nk. með fulltrúum lögreglu, Akureyrarbæjar og fl.

Birgir lýsti yfir áhuga sinnar deildar í HA á hugmyndinni um að halda málþing um fjölmiðla og kreppuna og hvernig það hugsanlega tengdist líðan almennings almennt. Almannaheillanefnd er tilbúin að vera meðaðili að málþinginu og voru Þórgnýr, Gunnlaugur og Jóna Lovísa skipuð í vinnuhóp með HA til að undirbúa ráðstefnuna. Sigmundur taldi að fleiri en fjölmiðlarnir þyrftu að gæta þess að valda fólki ekki óþarfa áhyggjum og óróa. Tók sem dæmi að hann hefði orðið var við að umfjöllun heilbrigðisyfirvalda um svínaflensuna hefði valdið börnum meiri áhyggjum en fréttir af afleiðingum kreppunnar.

 

2. Staða mála.

Minni háttar vandamál hafa komið upp varðandi innheimtu þátttökugjalda hjá íþróttafélögunum og hafa þau sjálf leyst það enn sem komið er. Almennar innheimtur þátttökugjalda í haust eru rétt að hefjast. Innan KA er verið að útbúa styrktarhóp til að takast á við þau vandamál.

Nefnd voru dæmi um aukna samfélagsvitund almennings sem birtist m.a. í því að einstaklingar leggja fram fjármuni til þess að styrkja börn í grunnskólum sem ekki geta greitt fyrir mat. Starfsfólk búsetudeildar er áhyggjufullt yfir hugsanlegum samdrætti í starfseminni – fólk sem á erfitt með að láta enda ná saman.

15 manns mættu á opnunardegi Möguleikamiðstöðvar sem er nokkuð gott. Frá grunnskólunum er lítið að frétta en þó virðast vera að koma upp dæmi um börn sem ekki geta keypt sér mat. Litlar sem engar breytingar eru á aðsókn í fæði og frístund. Forvarnardagur verður haldinn nk. miðvikudag hjá 9 bekk.

Súpufundur var nýlega hjá Akureyrarstofu með fulltrúum ferðaþjónustunnar og mættu þar 80 manns. Sumarið virðist hafa verið gott hjá flestum. Stefnt er að opnun í Hlíðarfjalli 21 nóv. nk. og vonandi verður veturinn aftur góður þar. Atvinnuþróunarfélagið stefnir að því að hitta forsvarsmenn flestra fyrirtækja í Eyjafirði fyrir jól til að taka stöðuna. Bátasmiðjan í Slippstöðvarhúsinu gengur nokkuð vel en verið er að ræða við nýja eigendur húsnæðisins um framtíðina. Erindi hefur komið inn til Akureyrarstofu vegna þeirrar starfsemi.

Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009 hjá Akureyrarbæ er að ljúka en lítið er byrjað að vinna við áætlun 2010.

Hjá verkalýðsfélögunum er lítið nýtt að frétta og allt frekar rólegt þessi dægrin. Hjá byggingamönnum er atvinnuleysi 12% en horfur fyrir veturinn eru sæmilegar. Flestir eru í 8 klst. vinnu sem stendur.

Vinnumarkaðsráð fundaði í mánuðinum og upplýsingaöflun um stöðuna er framundan. Skila á tillögum fyrir lok nóv. nk. Hópur langtímaatvinnulausra fer stækkandi. Fjöldi atvinnulausra hefur lítillega aukist frá síðasta fundi. Nokkuð hefur undanfarið verið rætt um skólafólk sem samhliða námi hefur verið á bótum. Nýjar reglur þar um hjá Vinnumálastofnun hafa litið dagsins ljós.

Í framhaldsskólunum er allt frekar rólegt og veturinn fer vel af stað. Í athugun er hvort þörf sé á sérstakri skimun á aðstæðum nemenda. Sparnaður er í vinnslu í Háskólanum en spara þarf um 8,5% á næsta ári og annað eins til viðbótar árið 2011. Bekkir eru þétt setnir í öllum framhaldsskólum í vetur.

Á FSA er líka sparnaður framundan eða um 250 m.kr. árið 2010 og 100 m.kr. viðbót 2011. Líklegt er að það þýði einhverjar uppsagnir fólks. Aðsókn að FSA er minni en í fyrra en ekki er vitað hvers vegna. Göngudeild geðdeildar er að flytja í nýtt húsnæði sem bætir aðstöðu alla verulega.

Hjá kirkjunum eykst nú ásókn í fjárhagslega aðstoð og tvöfaldast miðað við sumarið. Vetrarstarfið er byrjað og gengur vel. Mikil ásókn er í 12 spora hópa hjá Akureyrarkirkju. Hjá Rauða krossinum sjá menn ný andlit á fatamarkaðnum og 2 námskeið verða á næstunni fyrir möguleikamiðstöðina í Rósenborg. Söfnun sjálfboðaliða fer fram í vetur.

 

3. Fjölmiðlar á Akureyri.

Á síðasta fundi voru fjölmiðlamál allmikið rædd og kom þar fram sú hugmynd að fulltrúar nefndarinnar hitti fjölmiðlafólk hér á Akureyri. Gunnar og Kristín ásamt fjölmiðlanefndinni í 1 lið fundargerðarinnar munu vilja hitta fulltrúa fjölmiðlanna hér á Akureyri til að skiptast á skoðunum.

 

4. Næstu skref í starfi nefndarinnar.

Rætt var um að forstöðumaður barnaverndarstarfsins á fjölskyldudeildinni kæmi á næsta fund 9 okt. nk. ásamt fulltrúum Aflsins. Einnig rætt um að fá fulltrúa Ásprents-Stíls til að ræða framtíð verkefnisins Hugsað með hjartanu.

Stefnt er að fundum á 3ja vikna fresti eftir næsta fund.