Almannaheillanefnd

13432. fundur 28. september 2009

Föstudaginn 28. ágúst 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.

 

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hermann J. Tómasson bæjarstjóri

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín S. Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Margrét Guðjónsdóttir, heilsugæslustöð

 

Aðrir:

Guðný Björnsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sigríður Huld Jónsdóttir Verkmenntaskólinn

Sigurlaug Gunnarsdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Trausti Þorsteinsson Háskólinn á Akureyri

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

  1. Staðan í dag:

 

Í málefnum fatlaðra og heimaþjónustu er meira álag á starfsfólk en minni breytingar á starfsmönnum. Eldri borgarar hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Mikið er spurt um vinnu. Almennt er auðveldara að ráða fagfólk. Mikið er um að vera í barnaverndinni en eftir er að skoða hvort það tengist hruninu. Fjárhagsaðstoð minnkaði í sumar miðað við fyrri ár. Starfsemi Ráðgjafastofunnar hefur ekki enn fengist norður og er það bagalegt.

Aðsóknin að HAK er ekki meiri en venjulega en fleiri sækja í fjölskylduráðgjöfina. Dregið verður úr skólaheilsugæslu í vetur en þó verður hún sambærileg við höfuðborgarsvæðið. Niðurskurður fjárveitinga fyrirsjáanlegur en erfitt verður að spara. Vetrarstarfið í Rósenborg er að byrja og nýtt fólk verður ráðið í atvinnuleitendastuðninginn næstu 3 mánuði. Hugsanlega verða gerðar einhverjar áherslubreytingar á þeirri starfsemi. Fylgst verður vel með félagsmiðstöðvunum í vetur.

Rúmlega 30 manns hafa verið ráðnir í sérstakt atvinnuátak bæjarins á vegum Akureyrarstofu og flestir af þeim í 6 mánuði. Íbúum á Akureyri hefur heldur fækkað frá áramótum en vegna sameiningar við Grímsey þá er heildaríbúafjöldi Akureyrarbæjar svipaður og 1 des. sl. Boðaðar hafa verið minni fjárveitingar frá ríki á næsta ári til heilsugæslu, málefna fatlaðra, öldrunarmála og sjúkraflutninga. Vinna fer að hefjast innan bæjarkerfisins um viðbrögð við því. Sárafá tilfelli nýrrar influensu hafa greinst á Akureyri en verið er að semja viðbragðsáætlun fyrir grunnskólana.

Fáar ath.s. hafa borist skóladeild vegna styttingar leikskóla og frístundar í vetur en aðsókn er góð. Naustaskóli hófst nú í haust með um 150 nemendum. Fækkun hefur orðið hjá dagforeldrum nú í haust. Skólanefnd mun á næstunni fjalla um kostnað foreldra við börn í grunnskólum. Í gangi er meðferðarúrræði í samvinnu við Barnaverndarstofu. Fyrirsjáanlegur er erfiður rekstur næsta vetur vegna niðurskurðar fjármagns.

Nýr bæjarstjóri mætti á fyrsta fund sinn og þakkaði störf nefndarinnar sl. vetur. Störf hennar skiluðu stjórnendum bæjarins yfirsýn um ástandið hverju sinni en menn hafa nokkrar áhyggjur af komandi vetri. Jákvætt var að flestir nemendur framhaldskólanna og Háskólans virðast hafa fengið vinnu í sumar.

 

Hjá verkalýðsfélögunum er ástandið ívið bjartara um þessar mundir en lítið sér fram í tímann með verkefni hjá mörgum fyrirtækjum. Tilkoma Alfþynnuverksmiðjunnar er jákvætt skref í atvinnumálum. Yfirvinna hefur verið skorin niður hjá opinberum aðilum.

Á Akureyri eru 816 atvinnulausir í dag og 543 í fullu atvinnuleysi. Er þetta fækkun um nærri 200 manns í heildina frá síðasta fundi 5. júní sl. og um 100 manns í fullu atvinnuleysi. Fyrst og fremst er það fólk með grunnskólapróf sem situr lengst á skránni. Verið er að útbúa verkefni fyrir þennan hóp sem hefst nú í haust. Búið er að setja nýjar reglur um nám samhliða atvinnuleysi.

Framhaldsskólarnir halda sínu striki og aðsóknin er mjög mikil. VMA byrjaði í síðustu viku og MA byrjar um miðjan næsta mánuð. Þéttsetið er í VMA en einingum á ýmsa nemendur hefur verið fækkað og því eru nemendaígildi færri en í fyrra. Stærri hópar eru yfirleitt á hvern kennara. Skólagjöld hafa greiðst mjög vel en eftir er að rukka inn efnisgjöld í VMA. Háskólinn er að byrja og aðsókn er þokkaleg en mismunandi eftir deildum. Umræða er nokkur um niðurskurð og væntanlega lægri fjárveitingar á næsta ári. Nýr rektor er kominn til starfa.

Rólegt var í sumar hjá Rauða Krossinum en stefnt er að námskeiðshaldi í haust m.a. í samstarfi við Vinnumálastofnun og Rósenborg. Aukin aðsókn er í fatamarkaðinn og nytjamarkað Fjölsmiðjunnar. Mæðrastyrksnefndin hefur verið í sumarfríi en opnar á næstunni. Fyrir frí voru þetta um 80 heimili á viku sem fengu styrk. Rætt um að bjóða fulltrúum mæðrastyrksnefndar á næsta fund og mun Hafsteinn sjá um að ræða við þær. Hjá Rauða Kross húsinu í Reykjavík er rætt um að færa starfsemina meira út á land.

Á FSA er allt frekar rólegt núna en lítils háttar samdráttur hefur verið í aðsókn á þessu ári nema hjá fæðingardeild og geðdeild.

 

  1. Skýrsla frá Heilbrigðisráðuneytinu.

 

Sigmundur skýrði frá skýrslu nefndar á vegum heilbrigðisráðuneytisins um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni. Fylgir hún hér með. Reynt er að nýta reynslu Finna úr svipuðum aðstæðum. Skýrslan verður rædd aftur á næsta fundi.

 

 

  1. Önnur mál.

 

Rætt var nokkuð um fjölmiðlaumræðuna undanfarna mánuði og hvort og hvernig hægt væri að bregðast við neikvæðri umræðu þar.

Háskólinn ætlar að taka upp dag læsis 8. sept. nk. Fundarmenn beðnir að dreifa út þeim boðskap eftir bestu getu.

Rætt var um hvernig stjórnendur geta aukið gleði meðal starfsmanna sinna.