Almannaheillanefnd

13430. fundur 28. september 2009

Föstudaginn 22. maí 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hulda Pétursdóttir, heilsugæslustöð

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

 

Aðrir:

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Jóna Lovísa Jónsdóttir, Akureyrarkirkja

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur B. Þorsteinsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

 

1. Staðan í dag:

 

Á fjölskyldudeildinni eykst álagið stöðugt og einstaklingum fjölgar í barnavernd, fjárhagsaðstoð og almennri félagsþjónustu. Fleira hátekjufólk er farið að koma og er flestum bent á Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. Búist er við fjölda námsmanna í sumar sem ekki eru með atvinnuleysisbótarétt en áður fyrr hefur þeim verið veitt fjárhagsaðstoð í 2 mánuði af 3 yfir sumarið. Í félagsmiðstöðvum unglinga er komið sumarfrí og fáir mæta daglega í Möguleikamiðstöðina nema ef þeim er gert að mæta. Námskeið eru yfirleitt vel sótt af atvinnulausum. Möguleikamiðstöðinni verður lokað frá og með 14. júní fram í miðjan ágúst.

Af heilsugæslunni er lítið nýtt að frétta sem tengist beint atvinnuástandinu. Einhverjar fréttir eru um fólk sem er atvinnulaust og flytur norður í leit að ódýrara húsnæði. Auglýst var í vikunni eftir skólafólki á aldrinum 17-25 ára sem sér fram á atvinnuleysi í sumar og einnig var auglýst eftir félagssamtökum sem vilja nýta sér skólafólk sem Ak.bær hyggst ráða í sumar. Enn er unnið hörðum höndum að lækkun kostnaðar í grunn- og leikskólum. Í Hlíðarskóli minnkar aðsókn og breytingar verða því gerðar á starfseminni næsta vetur. Leikskóladvöl verður stytt næsta vetur og einnig verða gerðar breytingar á Frístundinni í grunnskólunum.

 

Hjá félagi opinberra starfsmanna er lítið nýtt að frétta en verið er að úthluta orlofsíbúðum fyrir sumarið. Starfsemi Rauða Krossins er svipuð og einhver ásókn í fatamarkaðinn. Af Sjúkrahúsinu er ekkert nýtt nema hvað beðið er eftir næstu fjárlögum.

Í Glerárkirkju er allt rólegt en eitthvað er um afpantanir á brúðkaupum og fréttir af minna umstangi í kringum þau sem fara fram. Aukning er eftir beiðnum um aðstoð hjá Akureyrarkirkju en ekki eru alltaf til peningur til fjárframlaga. Margir eru í peningalegum erfiðleikum. 

 

2. Hreyfing og útivist.

 

Stefán Gunnlaugsson og Jónatan Magnússon komu á fundinn og sögðu stuttlega frá verkefninu Hreyfing og útivist sem verið hefur í gangi frá áramótum. Því lýkur nú um næstu mánaðarmót. Um 200 manns að jafnaði hafa vikulega sótt dagskrá á vegum þess í vetur. Lögðu þeir fram stutta skýrslu um gang verkefnisins í vetur. Yfirleitt voru það miklu fleiri konur en karlar sem mættu. Verkefnið kostaði um 4 m.kr.í heild  Lýstu fundarmenn ánægju sinni með verkefnið og ræddu mikilvægi þess að framhald verði á því næsta vetur ef atvinnuástandið batnar ekki.

Fleira ekki gert.