Almannaheillanefnd

13429. fundur 28. september 2009

Föstudaginn 8. maí 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn í Rósenborg, Akureyri.

Mættir:

 

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

 

Aðrir:

Guðný Bergvinsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Trausti Þorsteinsson Háskólinn á Akureyri

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja

 

Að auki sátu fundinn 2 starfsmenn möguleikamiðstöðvarinnar í Rósenborg þær:

Dóróthea Jónsdóttir

Úlfhildur Sigurðardóttir

 

  1. Staðan í dag:

 

Úr bæjarkerfinu er fátt nýtt að frétta en mikil vinna hefur verið undanfarið við að lækka kostnað í skólakerfi bæjarins á ýmsan hátt. Sumt er að koma til framkvæmda en margt kemur ekki til fyrr en næsta haust. Verið er að taka alls staðar á í kerfinu en reynt eftir fremsta megni að komast hjá uppsögnum starfsmanna. Börnum á leikskólum fækkar ekki né heldur í mötuneytum grunnskólanna. Fleiri laus pláss virðast vera hjá dagforeldrum en lengi hefur verið. Á heilsugæslunni er allt rólegt nema hvað meira er að gera í fjölskylduráðgjöfinni hjá þeim einstaklingum sem fyrir eru í meðferð og ráðgjöf. Verið er að undirbúa atvinnutækifæri fyrir 17-25 ára atvinnulausa í afmarkaðan tíma í sumar en sama fjárhæð er í þeim potti og var sl. sumar.

 

Frá FSA er ekkert nýtt í stöðunni en þessa dagana er í gangi ráðstefna um geðheilbrigðisþjónustu. Minni aðsókn er til sérfræðinga á FSA. Hjá Rauða Krossinum hafa verið námskeið í Rósenborg fyrir atvinnulausa í gangi undanfarið og gengið vel. Mikil aðsókn var í fatamarkað RK síðasta laugardag. Úr Háskólanum er ekkert nýtt nema hvað auglýst hafa verið sumarnámskeið en aðsókn er frekar dræm enn sem komið er. Í VMA fjölgar umsóknum eftir skólavist frá eldri nemendum miðað við það sem verið hefur. Ekki liggur fyrir hvað verður hægt að mæta mörgum þessara umsókna þar sem ekki liggur fyrir fjöldi umsækjenda sem eru yngri en 18 ára.

 

Atvinnuleysi hefur heldur minnkað undanfarið en í dag eru 994 atvinnulausir á Akureyri og hefur þeim fækkað um 77 frá síðasta fundi. Um er að ræða 586 karla og 408 konur. Af þeim eru 37% í hlutastörfum sem er svipað og verið hefur. Aldurssamsetning er eftirfarandi:

16-24 ára 210

25-54 ára 622

55-70 ára 162

 

Elsti aldurshópurinn hefur helst verið að detta inn í vinnu undanfarið. Nánari greining atvinnulausra liggur fyrir á næsta fundi nefndarinnar. Fyrirtæki hafa undanfarið verið að sækjast eftir fólki í vinnu og allmikið að gera í þeim hluta Vinnumálastofnunar. Verið er að herða á reglum um atvinnulausa og búið að gera almenningi kleift að koma með nafnlausar ábendingar um fólk á atvinnuleysisskrá sem stundar svarta vinnu.

 

Hjá verkalýðsfélögunum er heldur að fjölga leiðindamálum og finnst þeim sem hlutastörfum sé að fækka og gjaldþrotum fjölgar. Augljóslega eru minni peningar hjá fólki almennt og mikil ásókn í fræðslusjóði þeirra.

 

Þá var komið að starfsfólki möguleikamiðstöðvarinnar í Rósenborg. Þau verða nokkuð vör við tekjulaus ungmenni sem sjá enga vinnu í sumar. Þau heyra líka að grunnskólanemendur séu að taka störf eldri unglinga í sumar hjá fyrirtækjunum. Skyldumæting hefur verið tekin upp á námskeið og fl. í Rósenborg og virkar það vel. Annars er frekar lítil aðsókn daglega til þeirra 3ja sem halda utan um verkefnið. Kynningar fyrirtækja og fl. draga ekki atvinnulausa að en svo virðist sem þvínga þurfi atvinnulausa til að mæta. Vinnumálastofnun sjálf sendir allan tölvupóst til atvinnulausra fyrir hönd möguleikamiðstöðvarinnar. Í undirbúningi eru tilboð á sjálfboðaliðastörfum við byggingu mótorhjólasafnsins.

Rædd var hugmynd um iðngarða í húsnæði í Slippnum en einhver undirbúningsvinna er í gangi með þá hugmynd.

Atvinnulausir virðast upplífa Rósenborg sem meðferðarúrræði en ekki sem aðstoð við atvinnulausa á ýmsan hátt. Virknikort eru í nánari athugun hjá Vinnumálastofnun því álitið er að virknikort skili sér betur fyrir einstaklingana við atvinnuumsóknir. Sjálfboðaliðastörf virðast ekki vera sjálfsagður hlutur í eðli Íslendinga en erlendir einstaklingar sem eru atvinnulausir virðast taka því sjálfsagðar að vinna eitthvað samfélagslegt.

 

Næsti fundur verður eftir hálfan mánuð.