Almannaheillanefnd

12956. fundur 05. maí 2009

Fundargerð


Föstudaginn 24. apríl. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.


Mættir:


Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hulda Pétursdóttir, heilsugæslustöð

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild


Aðrir:

Guðný Bergvinsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Heimir Kristinsson, Félag byggingamanna

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur B. Þorsteinsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Sigríður Huld Jónsdóttir, Verkmenntaskólinn á Akureyri

Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, MA


  1. Staðan í dag:


Hjá Akureyrarbæ er lítið að frétta nema umræða heldur áfram um hugmyndina um að starfsmenn taki 1 launalausan dag að jafnaði í mánuði. Í möguleikamiðstöðinni í Rósenborg er áfram verið að þróa starfið og finna út hvað virkar og hvað ekki hvað það varðar að ná sambandi við og virkja sem flesta atvinnuleitendur. Helst virðist sem formleg námskeið virki best en boðaðir fundir í samstarfi við Vinnumálastofnun ná lítið eyrum atvinnulausra. Stefnt er að skyldumætingu í næstu viku. Að öðru leyti er gott að frétta af starfseminni í Rósenborg. Í húsnæðinu í Hjalteyrargötu er allt í góðum gír hjá Nökkva og fullt af mönnum að smíða báta. Verið er að skoða hugmynd um að stofna formlegan félagskap um starfsemi í húsinu.

Kynntar voru bráðabirgðaniðurstöður könnunar meðal starfsmanna í leikskólum, þar kemur fram að almennt finnst starfsmönnum að líðan eða hegðun barna hafa lítið breyst undanfarnar vikur. Hins vegar finnst flestum að ástandið og umræðan í samfélaginu undanfarnar vikur hafi haft neikvæð áhrif á sína líðan og vinnufélaga sinna. Enginn samdráttur er í leikskólaaðsókn né dagmæðrakerfinu. Engin aðsókn hefur verið í þjónustu sem endurskoðendurog lögfræðingar hafa boðið upp á. Nýlega var gerður samningur milli Barnaverndarstofu og Akureyrarbæjar um þróunarverkefni til tveggja ára sem snýr að þjónustu á grundvelli PMT meðferðar við unglinga í erfiðleikum upp að 18 ára aldri og fjöskyldur þeirra. Með samningi þessum verða til 1 - 11/2 starf í bænum. Samráð verður haft við framhaldsskólana í þessu skyni. Nokkrar áhyggjur eru á Fjölskyldudeild út af sumarvinnu unglinga.


Í framhaldsskólunum er ástandið svipað og verið hefur. Verið er að undirbúa næsta vetur og vinna tillögur um sparnað og samdrátt í þjónustu þó enn sé ekki vitað hvernig næstu fjárlög verða. Öll yfirvinna verður endurskoðuð og rætt um fjölgun í bekkjum. Lítið er rætt um væntanlegt atvinnuleysi nemenda næsta sumar. Nýlega var skrifað undir samkomulag um byggingu við VMA vegna starfsdeildar.

Frá verkalýðsfélögunum er það helst að frétta að fyrirtæki eru að verða gjaldþrota og ýmis gömul mál að fara til lögfræðinga. Svipað ástand er hjá Einingu-Iðju og verið hefur. Gott ástand er hjá félagi málmiðnaðarmanna. Hjá Kili er mikil umræða um hugmynd Akureyrarbæjar um launalausan dag en að öðru leyti er allt með kyrrum kjörum.

Hægt hefur á atvinnuleysinu og í dag eru 1.071 á skrá á Akureyri sem er fækkun um 20 manns frá síðasta fundi. Tæplega 40% atvinnulausra eru í hlutastörfum sem er verulega meira en á öðrum stöðum á landinu. Aukin harka er í að svipta fólk bótum ef það neitar vinnu. Vinnumálastofnun mun á næstunni senda bækling til allra fyrirtækja í landinu um möguleika á því að auka við sig starfsfólk. Hugað verður að erlendu starfsfólki á atvinnuleysisskrá á næstunni og bent á að nú sé rétti tíminn til að læra íslensku. Einhverjir tugir starfa er í boði á svæðinu.

Af FSA er ekkert nýtt að frétta og beðið er eftir nýjum fjárlögum. Lítlar breytingar eru á aðsókn að geðdeildinni. Starfsfólk Glerárkirkju finnur fyrir meira stressi fermingarbarna en áður og tengir það hugsanlegum fermingarundirbúningi og gjöfum. Nýlega var fundað í RK húsinu um þá hugmynd Glerárkirkju að taka upp leitarstarf meðal atvinnulausra. Hjálpræðisherinn er að missa starfsfólk í haust og allar líkur á breyttri starfsemi þar. Hjá Rauða Krossinum er allt svipað og verið hefur. Námskeið t.d. fyrir barnfóstrur verða á næstunni.

Fleira ekki gert.